Gönguleiðir


Rangárþing eystra bíður upp á margar fallegar og fjölbreyttar gönguleiðir fyrir alla fjölskylduna. Leiðirnar geta tekið allt frá innan við klukkustund til nokkurra daga. Öllum er velkomið að njóta náttúrunnar á útivistarsvæðum í sveitarfélaginu.

Við hvetjum gesti til að ganga vel um umhverfið og skilja ekki eftir sig rusl á víðavangi. Skiljið við staðinn eins og þið viljið koma að honum þannig að það sé öllum til sóma sem koma til með að njóta þess sem náttúra okkar hefur uppá að bjóða.

Kortasjá
Hér má finna loftmynd af Rangárþingi eystra. Hægt er leita að tilteknum stað með því að slá inn heimilisfang en auk þess er hægt að þysja sig til um svæðið og stækka/minnka kortið að vild.


Hvolsfjall-Sólheimahringurinn
Ein vinsælasta gönguleið Hvolsvellinga er leiðin upp með Nýbýlavegi að Akri. Þaðan er hægt að ganga meðfram limgerðinu vestan við nýja kirkjugarðinn niður í þorp aftur eða halda áfram að Lynghaga og niður völlinn niður að Sólheimum til baka, framhjá reiðvellinum og upp eftir slóðanum í Miðöldunni sem búið er að planta í. Einnig er hægt að byrja á að ganga upp Bjallann hjá Stórólfshvolskirkju og þaðan inn eftir fjallinu eftir göngustíg sem hefur verið lagður þar. Hægt er að velja um mislangar og erfiðar gönguleiðir.

Krappi

Beygt er af Fljótshlíðarveginum (261) inn Vallarveginn (262) rétt fyrir utan Hvolsvöll. Rétt á milli Vallar og Vallahjáleigu er keyrt yfir Fiská á vaðinu við ármótin.


Krappi er hrauntunga sem gengur fram milli Fiskár og Eystri-Rangár,
fallegt og gróið svæði. Fallegt er að ganga upp með ánni upp að Bæjarfossi. Er hann hefur verið skoðaður er för haldið áfram og kemur maður þá brátt að skóginum í Krappa.

Þar voru 2,6 ha girtir af árið 1950, en fyrir voru kjarrleifar og birkihríslur í klettum og brúnum. Forsvarsmaður að þessari girðingu var Ólafur Bergsteinsson á Árgilsstöðum, en hann var í stjórn Skógræktarfélagsins í 43 ár og hafði mikinn áhuga á trjárækt. Fallegur skógarlundur með blönduðum tegundum hefur vaxið upp í Krappa.  Þarna eru skógarfurur frá 1951-52 orðnar gríðarháar, allmyndarleg sitkagrenitré frá sama tíma, heilmiklir stafafurulundir frá 1963, þar sem furan er farin að sá sér. Háar aspir eru í lundinum, blágreni, hvítgreni og allháir þinir. Í gegnum svæðið er nokkurs konar gjá sem gott er að ganga eftir. Þá er þarna einnig hringhlaðið fjárbyrgi. Síðan má hugsa sér að ganga upp með Rangá, skoða Tungufoss og fara að Teitsvötnum og sumarhúsabyggðinni í Reynifellshólma. Þá er þar Gunnarssteinn, kenndur við kappann mikla frá Hlíðarenda og er hann merktur af Sögusetrinu Hvolsvelli.


Flókastaðargil
Ekinn er Fljótshlíðarvegur (261). Beygt er upp hjá Breiðabólstað í Fljótshlíð, um 5 km frá Hvolsvelli. Best er að leggja bílnum við safnaðarheimilið og fylgja girðingu í vesturátt að gilinu. Um er að ræða gönguleið sem er að mestu eftir kindagötum.

Leiðin er ekki mjög erfið en ævintýraleg fyrir börn. Í gilinu er mikið fílavarp. Efst í gilinu var uppistöðulón og rafstöð hér áður fyrr og var þá vinsælt að fara þangað á sumrin til að synda í lóninu. Þegar upp er komið er yfirleitt gengið beint í suður, þá er komið niður Hákotið við Breiðabólstað.Tunguskógur-Tumastaðir
Tunguskógur og Tumastaðir eru í Fljótshlíð, um 9 km frá Hvolsvelli.

Þetta er vinsæll útivistarstaður í Rangárþingi eystra. Hér hafa heimamenn ræktað upp allmikið skóglendi, lagt þar göngustíga og komið fyrir borðum og bekkjum. Þarna er fallegt umhverfi, skjólsamt og mikið fuglalíf. Hægt er að velja um mislangar gönguferðir.

Skógrækt Ríkisins hóf rekstur gróðrarstöðvar á Tumastöðum árið 1944 og sveitungar hófu skógrækt í brekkunum í Tungulandi, sem er samliggjandi Tumastöðum árið 1951. Upp úr 1980 hóf hreppurinn stígalagningu í Tunguskógi og fékk meðal annars jarðýtu til að leggja aðalstíginn í brekkunni. Síðan hefur smám saman bæst við stígana og unnið hefur þar verið við grisjun á skóginum. Þá var þar um tíma höggvið umtalsvert af jólatrjám sem fór í afgreiðslu Landgræðslusjóðs og enn höggva Fljótshlíðingar sér þar tré. Stígarnir um Tunguskóg tengjast stígum Skógræktar Ríkisins og öllum er velkomið að njóta skóganna. Tunguskógur er nú í eigu Rangárþings eystra og árið 2006 samþykkti sveitarstjórn að framtíðar útivistarsvæði sveitarfélagsins verði byggt upp í Tunguskógi og vonast sveitarstjórn til þess að íbúar sveitarfélagsins verði duglegir við að nýta sér skóginn til útivistar og kynna svæðið fyrir gestum sínum.


Þríhyrningur

Þríhyrningur er í um 18 km fjarlægð frá Hvolsvelli. Fljótshlíðarvegurinn (261) er ekinn að Tumastöðum en þar er keyrt upp þangað til komið er að Fiská. Hjá Fiská er svo beygt til hægri upp á grasbala og hefst gangan þaðan, upp á fjallið að suð-vestan. Í nágrenni við veginn að fjallinu er Vatnsdalshellir sem vert er að skoða.


Þríhyrningur er 678 metrar á hæð og útsýni mjög gott til allra átta þaðan. Fjallið dregur nafn sitt af þremur hornum og á milli þeirra er dalur sem heitir Flosadalur. Segir í Njáls sögu að þar hafi Flosi á Svínafelli og brennumenn falið sig eftir Njálsbrennuna. Í fjallinu framanverðu eru tvö hamragil, Katrínargil og Tómagil. Eðlilegt er að gefa sér tvo til þrjá tíma í fjallgönguna. Gönguleiðin hefur verið stikuð.

Í klettunum norðan megin í Þríhyrningi er hellir er nefnist Flosahellir. Mjög torvelt er að komast í hann. Til er þjóðsaga um þennan helli og er hún eitthvað á þessa leið; Eftir Njálsbrennu er Flosi var upp á Þríhyrningi í felum ákvað hann að fela sjóð þann er hann hafði meðferðis fyrir eftirreiðarmönnum ef þeir næðu honum og gerði hann það í hellinum. Löngu seinna ákváðu þrír menn að sækja þennan fjársjóð og gerðu leiðangur upp á Þríhyrning til að síga niður af brúninni og í hellinn. Sá sem fór niður komst í hellinn og stóð þar allt sem sagt hafði verið. Þar var kista ein rammgerð. Þegar hann opnaði hana var eigi annað í henni en gömul víðilauf og varð hann að vonum vonsvikinn eftir allt erfiðið. Tók hann nú samt eina lúku af laufi og setti í vasann til þess að sýna hinum. Er upp var komið sagði hann hinum hvernig farið hafði og héldu þeir allir niður af fjallinu sneyptir enda farið að rökkva. Er niður var komið rataði hendi hans í vasann og viti menn, hann var fullur af gullpeningum í stað laufsins. Glöddust þeir við þetta, en vegna þessara tálsýna þorðu þeir ekki í hellinn aftur.
Þjófárfoss–Þjófhellir–Þorleifsstaðahellir

Staðir sem hægt er að finna fyrir ofan Þríhyrning sem er í um 18 km fjarlægð frá Hvolsvelli. Keyrt er upp hjá Vatnsdal framhjá Tumastöðum í Fljótshlíð. Hægt er að keyra langleiðina að fossinum og hellinum eftir djúpum slóða sem byrjar við Reynifell. Slóðinn er að mestu moldartroðningar en á stöku stað er stórgrýtt. Slóðin einungis fær litlum 4x4 jeppum eða jepplingum


Fyrir ofan Þríhyrning rennur Þjófá og í henni eru tveir fallegir fossar og hellisskúti sem er mjög vandfundinn. Í þessum helli dvöldu tveir þjófar á árunum 1743-44 og voru þeir hengdir á Þingskálaþingi er þeir náðust..

Húsarústir bæjarins að Þorleifsstöðum er þarna nokkru ofar. Sá bær og bæirnir í kring fóru í eyði í Heklugosinu 1947 eða upp úr því sökum vikurfalls. Þetta er fallegur staður til að stoppa á, sér í lagi í hestaferðum þarna um. Í einni slíkri týndust þar tveir demantshringar fyrir allnokkrum árum og eru getgátur um að eins sé farið með þá og kaleikinn fræga á Breiðabólstað. Álfar hafi fengið þá lánaða enda við á svipuðum slóðum og prestur var. Fundarlaunum er heitið fyrir þann sem finnur! Austan við rústirnar við Fiská er bergstandur er nefnist Smali og þar rétt ofar er manngerður hellir, allstór og með hlöðnu loftopi upp í gegnum þakið. Hellirinn er friðlýstur.


Bleiksárgljúfur

Gljúfrið er í landi Barkarstaða í Fljótshlíð. Fljótshlíðarvegurinn (261) er þá ekinn en Barkarstaðir eru um 25 km frá Hvolsvelli. Rétt er að hafa samband við landeigendur og fá leyfi.


Mjög fallegt kjarri vaxið gljúfur. Hægt er að ganga upp með því bæði að austan og vestan. Vestari leiðin er líklega algengari. Þegar ofar kemur er gljúfrið þverhnípt, hyldjúpt en örmjótt. Hægt er að stökkva yfir það, en við þá iðkun hefur orðið manns skaði þegar þar hrapaði til bana Páll Pálsson frá Árkvörn 1876. Enn ofar í gilinu er það fallið saman og þar er hægt að fara yfir og niður hinu megin við það. Fyrir ofan brúnina er grasi vaxin dalur og finna má tóftir af sauðahúsum frá Háamúla og Eyvindarmúla. Fyrir þá sem vilja lengri göngur má hugsa sér að ganga í vestur ofan við Háamúlahnjúk og koma niður hjá Háamúla eða Eyvindarmúla. Ef gengið er í austur mætti koma niður t.d, hjá Bæjargilinu á Barkarstöðum sem er mjög fallegt.

Í Bleiksárgljúfri var fyrsta íslenska kvikmyndin tekin upp, en það var myndin Hadda Padda eftir Guðmund Kamban, árið 1923.

Til er þjóðsaga af nafnagift gljúfursins. Þannig var að hér áður fyrr bjó tröllskessa í glúfrinu. Bóndinn á Barkarstöðum hafði þann sið að færa tröllskessu sinn feitastan sauð ár hvert, er hann reið til jólamessu og bjuggu þau í nágrenni við hvort annað, í sátt og samlyndi. Þá var það eitt árið að bóndi var eitthvað seinn til messu og hugsaði með sér að skessan yrði bara að fá sauðinn sinn seinna. Reið hann nú til messu á hesti sínum er Bleikur hét, en á leiðinni til baka sér hann að skessa kemur hlaupandi í áttina að sér, svo hann hleypir hestinum. Skessan nær þeim þó og féll bóndi af baki hestinum, en komst hlaupandi heim. Skessan náði Bleik og mátti í mörg ár sjá beinin af honum í gilinu. Þess má geta að árið 2006 mátti enn sjá stórgripabein í gilinu.

Tindfjöll

Fljótshlíðarvegur (261) er keyrður til enda og áfram inn Emstruleið (F261) framhjá Þórólfsfelli. Þaðan er ágætur jeppavegur fyrir vel búna bíla upp að Tindfjöllum en einnig hægt að ganga..


Tindfjöll eru fjallaröð með mörgum tindum og heitir sá mesti þeirra einfaldlega Tindur (1251 m.y.s.) og dregur fjallgarðurinn nafn sitt af honum. Þó að Tindfjallajökull sé með minnstu jöklum landsins er hann á risastórum gíg, u.þ.b. 7-10 kílómetrar að þvermáli, sem hefur myndast við mikið sprengigos.

Gott er að leggja af stað snemma dags, því þá er snjórinn harðari og betri yfirferðar en um miðjan dag þegar sólbráð hefur mýkt allt. Í um 800 - 900 metrahæð eru þrír fjallaskálar og umhverfis þá eru góð skíðalönd og hægt að fara í ekki svo langa göngutúra á hæstu tinda. Jökullinn er frekar auðveldur yfirferðar, ekki mikið um sprungur. Þó geta verið þar varasamar snjóhengjur, veðrátta mjög breytileg og þokan er fljót að skella á. Einnig ber að varast að ef snjór er nýfallinn má búast við snjóbyl með stuttum fyrirvara. Helstu tindar eru Saxi (1305 m.y.s.), Búri (1235 m.y.s.), Ýmir er hæstur 1462 metra hár og Ýma er 1448 metrar. Ýma er aðeins austar en Ýmir, en þessir tveir tindar eru samstofna tindar með skarð á milli. Útsýni er mjög gott af þessum tindum yfir á Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul, Þórsmörk, Markafljótsgljúfur, Lifrarfjöll, Einhyrning, Hitagilsbrúnir, Kerið og Fauskheiði. Vestan í jöklinum er dalur mikill er nefnist Austurdalur. Er jökullinn sprunginn og hættulegur þar sem hann fellur niður í dalinn.

 

Þórólfsfell
Þórólfsfell er rétt fyrir innan Fljótshlíð. Fljótshlíðarvegur (261) er keyrður til enda og áfram inn Emstruleið (F261) að Þórólfsfelli


Gengið er meðfram ánni inn með gljúfrinu áleiðis upp. Síðan er haldið í austur og stefnt á að koma svo niður Mögugilið. Þar er gengið undir stórgrýtiskletta og í gegnum hella. Í gilinu eru gríðarlegar móbergsmyndanir og gönguleiðin sannkölluð ævintýraferð. Neðarlega í Mögugilinu er svo Mögugilshellir sem er mjög sérkennilegur blágrýtisdropahellir, sá eini sinnar tegundar í heiminum svo vitað sé. Hann fylltist nú fyrir fáum árum af sandi og möl, væntanlega vegna klakastíflu í gilinu í vorleysingum. Nú hefur hins vegar verið mokað út úr hellinum og hann fær til skoðunar. Undir Þórólfsfelli er fjallakofi í eigu Rangárþings eystra.

 
 

Hellisvellir

Í Fljótshlíðarafréttum, litlu lengra en Fljótsdalur sem er innsti bær Fljótshlíðar, er að finna Hellisvelli. Fljótshlíðarvegurinn (261) er keyrður til enda og einhverja 8-9 kílómetra áfram inn Emstruleið (F261).


Á Hellisvöllum var gangnamannakofi sem nú er hruninn. Þessi kofi var lítill svo ekki rúmaði hann alla leitarmenn og gistu því ungsmalar í helli þar rétt hjá. Þar er einnig hellisskúti og höfðu þeir það til siðs að safna þar saman tómum fjallpelum leitarmanna og geyma í þessum skúta og heitir hann síðan Flöskuhellir. Fyrir framan kofann á vinstri hönd er smá dalverpi og neðst í því er hlaðin hestarétt. Úr henni var síðan girt fyrir dalverpið og myndaðist þá þar aðhald fyrir fjallsafnið.

 Fyrir ofan kofarústirnar eru tvö falleg gil sem gaman er að ganga í. Frá Hellisvöllum er gönguleið inn með Gilsárgljúfrum upp að Hesti og Meri og þaðan jafnvel yfir í gangnamannakofann á Einhyrningsflötum. Ef hins vegar er haldið áfram veginn inn á Einhyrningsflatir liggur leiðin um Tröllagjá. Tröllagjáin endar niður við Markarfljót á móts við Húsadal. Þar eru uppi hugmyndir um að setja göngubrú yfir fljótið og í Þórsmörk. Í Tröllagjá eru Valshamar og Valshamarsgil sem skemmtilegt er að skoða.

Einhyrningur

Einhyrningur er  í Fljótshlíðarafréttum. Fljótshlíðarvegur (261) er keyrður til enda og áfram inn Emstruleið (F261) framhjá Þórólfsfelli og Fauskheiði þangað til komið er að Einhyrningsflötum.


Það er talsvert um að gengið sé á Einhyrning, mjög sérstætt 651 metra hátt móbergsfjall. Fjallið er með sérkennileg horn, annað að norðan en hitt að sunnan, þau sjást yfirleitt ekki bæði í einu nema þá helst ofan frá Kanastöðum. Skepnan Einhyrningur er ekki ein þarna á svæðinu, því stutt frá eru fjöllin Hestur og Meri og við rætur fjallsins er svo Hrútkollur.

Hægt er að ganga upp á Einhyrning að sunnan og mótar fyrir göngustíg þegar ofar dregur. Að neðan má sjá gróðurtorfu sem farið er eftir og teygir hún sig upp snarbrattar skriður að klettabelti. Í því er skarð þar sem gengið er upp fyrir klettana og er haldið þaðan á toppinn. Toppurinn er ávalur og lausir steinar þar á móbergsklöpp og eru brúnirnar þverhníptar. Útsýni af toppnum er gott yfir á Eyjafjallajökul, Goðalandsjökul, Entujökul, Þórsmörk, Rjúpnafell, Mófell, Emstrur, Hattfell, Stórkonufell, Kaldaklofsfjöll og Torfajökul í fjarska. Þá sérst vel yfir smalalönd Fljótshlíðinga, Þverána og Hellra, en þar er hellisskúti sem hlaðið var fyrir og rúmaði 12 smala. Fjær eru Skiptingarhöfði og Stóra Grænafjall, síðan Lifrafjöll, Kerhausar, Hitagilsbrúnir og Botn og yfir þessu gnæfir Tindfjallajökull með Ými og Ýmu ásamt Tindfjöllunum. Hægt er síðan að fara niður fjallið grasbrekkurnar að vestan, eða öfugt, fara upp þær og koma niður skarðið. Í smali er maður ekki nema tæpan klukkutíma upp og niður aftur, en rétt er að ætla sér um tvo tíma í gönguna.

Á Einhyrningsflötum er gangnamannakofi sem er leigður út í eigu fjallskilasjóðs Fljótshlíðar. Kofinn heitir Bólstaður eins og bær Sighvats rauða er nam land á Einhyrningsmörk. Bílastæði eru við kofann og er lagt upp á fjallið frá honum.

Mögulegar gönguleiðir á Wikiloc


Emstrur-Þórsmörk

Emstrur er afréttarland í Rangárvallasýslu, norðvestan við Mýrdalsjökul. Um er að ræða síðasta hluta gönguleiðarinnar frá Landmannlaugum eða “Laugarvegarins” eins og hún er jafnan kölluð. Þá er göngufólk keyrt að morgni inn á Emstrur og genginn 15 – 16 km vegalengd niður í Þórsmörk. Þessi ganga tekur um 5-6 tíma. Leiðin er tiltölulega létt niðurámóti, en leiðin er samt mishæðótt og vaða þarf Þröngá. Hún er lítil jökulhvísl og allajafnan ekki mikið vatnsfall. Margir hafa með sér aukaskó til að vaða í yfir. Á Emstrum er göngumannakofi frá Ferðafélagi Íslands. Nálægt honum er Markarfljótsgljúfur - > sem vert er að skoða. Bent er á gönguleiðakort, t.d. Páls Ásgeirssonar um gönguleiðina Landmannalaugar – Þórsmörk.

Mögulegar gönguleiðir á Wikiloc

 

Markarfljótsgljúfur
Hrikalegt gljúfur sem skilur á milli Fljótshlíðarafréttar, Emstruafréttar og Almenninga og er ekki fært þangað nema á jeppum. Gljúfrið er einhverjir 200 metrar á dýpt þar sem hæst er. Ef við byrjum ferðina fyrir neðan Emstruskálann Fljótshlíðarmegin þá er þar merkt gönguleið niður með gljúfrinu um land er heitir Svartikrókur. Farið varlega því ólíklegustu menn kikna í hnáliðunum er komið er fram á brún og litið niður. Á þessari leið eru þrjár ofangöngur sem kallað er, en það eru staðir þar sem fé vill leita niður í gljúfrið og verða smalar þá gjarnan að síga eftir því. Gljúfrið endar nú samt ekki þar sem þessi gönguleið endar. Hægt er að ganga niður með gljúfrinu öllu og er á minnst tveimur stöðum neðar hægt að komast niður í gljúfrið í Litlaland og Stóraland og eru þar birkiskógar.

Þórsmörk
Þórsmörk er ein helsta náttúruperla þjóðarinnar en þangað er aðeins fært á öflugum jeppum. Fjöldamargar gönguleiðir eru í Þórsmörk, ýmist um náttúrulega skóga, á fjallstinda, inn í gljúfur eða upp á jökul. Þórsmörkin er endastöð á einni vinsælustu gönguleið landsins, 4 daga gönguferð eftir “Laugarveginum” frá Landmannalaugum. Einnig er Þórsmörk endastöð ef gengið er yfir Fimmvörðuháls frá Skógum. Gönguleiðir verða ekki frekar tíundaðar hér, en bent er á að til er gönguleiðakort í Þórsmörk.Merkurkerið

Merkurkerið er í Merkurnesi fyrir innan Stóru-Mörk undir Vestur-Eyjafjöllum. Hægt er að komast að kerinu á fólksbíl áleiðis inn Þórsmerkurveg (249) frá þjóðvegi 1. Frá þjóðveginum eru 12 km að kerinu.


Þetta er ker eða gil sem er hálffalið í fjallshlíðinni. Neðst er þröngt gljúfur sem Sauðá rennur um í hálfgerðum hamragöngum og helli. Framan við kerið sjálft er lágur hryggur sem lokar kerinu og er gengið yfir hann upp í kerið þar sem áin rennur fram eftir að hafa fallið fram hamrana í fossi.


Nauthúsagil

Eknir eru um 11 kílómetrar inn Þórsmerkurveg (249) frá þjóðvegi 1 og stoppað við Nauthúsaá, rétt innan við Merkurbæina undir Vestur-Eyjafjöllum


Hægt er að ganga töluvert inn eftir gilinu ef menn eru tilbúnir að vaða eða stikla ána nokkrum sinnum.  Það er vel þess virði því gilið á fáa sína líka.  Innst í gilinu er hár foss en það sem vekur hvað mesta athygli er hinn mikli trjágróður sem skreytir gilbarmana og fæstir búast við að sjá.

Inn í þessu gili stendur frægt reynitré, mjög gamalt og gríðarstórt. Það vex utan í klettasyllu og erfitt er að komast að því. Fyrir neðan það er svo hyldýpisgljúfur. Á einhverja tuga ára fresti er stofninn orðinn það stór að hefur ekki næga rótfestu og fellur yfir á gilbakkann hinum megin. Upp úr rótinni vex svo nýr stofn. Nú má sjá allavega sex gamla stofna sem liggja þarna yfir gilið og til eru sögur af mönnum sem hafa farið yfir gilið á stofnum sem eru nýfallnir. Nú eru þar fúnir stofnar, en líklega líða ekki mörg ár í að aðalstofninn sem er núna, falli. Þetta tré er líklega formóðir flestra reynitrjáa í landinu í dag. Til eru heimildir um það að Guðbjörg heitin í Múlakoti hafi fengið ber af þessu tré er hún var að koma upp garðinum í Múlakoti. Af þessum trjám og afkomendum þeirra hefur síðan Skógrækt Ríkisins í Múlakoti og síðan á Tumastöðum, árlega tekið ber í sitt uppeldi. Ef gengið er inn með gilinu er komið að 3-4 m háum fossi og undir honum er djúpur hylur sem fyllir á milli hamrana. Hægt er að klifra með hylnum og upp fossinn. Þetta er mikið ævintýri og ósjaldan er einhver sem dettur og lendir þá í hylnum og blotnar.
Stóra-Dímon

Á þjóðvegi 1 leiðinni til Vík frá Hvolsvelli, áður en að farið er yfir Markarfljótsbrúnna, er beygt til vinstri inn Dímonarveg (250). Þaðan eru nokkrir kílómetra að Stóru-Dímon. Á Fljótshlíðarveginum (261) er afleggjarinn rétt áður en komið er að Múlakoti, nokkurn veginn til móts við Gluggafoss.


Í Stóru-Dímon koma saman mörk Austur-Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur-Eyjafjalla. Stóra Dímon á sér systur sem er Litla Dímon. Nafnið er talið koma úr latínu og merkja tvífjöll, eða tveir eins. Þá er einnig sagt að orðið merki heysáta og vissulega minnir Dímon á heysátu, hér á bleikum ökrunum. Við rætur fjallsins er skilti frá Sögusetrinu sem segir frá húskarlavígum Hallgerðar og Bergþóru í Njáls sögu. Þar segir frá vígi Kols, verkstjóra hjá Gunnari á Hlíðarenda, en hann vó Svart sem var húskarl Njáls á Bergþórshvoli. Hann var þar í skógarhöggi í Rauðuskriðum, eins og fjallið hét þá. Fjallið er 178 metra hátt og er það verðugt verkefni, bæði hjá börnum sem fullorðnum að klifra upp á Dímon.Hamragarðaheiði–Skálahverfi

Á Þórsmerkurveginum (249), um 0,5 km frá þjóðvegi 1, hjá næsta flossi hliðin á Seljalandsfossi, eru Hamragarðar.  Þar er tjaldstæði og fossinn Gljúfrabúi sem vert er að skoða.

 Frá tjaldstæðunum í Hamragörðum er skemmtileg gönguleið upp Hamragarðaheiðina og fram á fjallsbrún fyrir ofan Seljaland. Þaðan er gengið eftir brúnunum og komið niður í Skálahverfið. Hægt er að létta sér leiðina með því að aka áleiðis upp brekkurnar, eftir slóðanum sem liggur upp á Eyjafjallajökul.

 

Einnig er hægt að ganga upp á Fagrafell eins og sjá má 

 

Við þjóðveg 1 undir Vestur-Eyjafjöllum, um 25 kílómetra frá Hvolsvelli, er lítið skilti merkt Paradísarhelli.


Við þjóðveg 1, 25 kílómetra frá Hvolsvelli er lítið skilti merkt Paradísarhelli. Frá gömlu Seljalandsréttunum er svo merkt gönguleið, um 700 metra löng, að Paradísarhelli. Hellirinn er nokkuð upp í klettunum og er nær lóðrétt 10 metra hátt klifur upp að hellisopinu. Til að létta klifrið hefur verið komið fyrir þar keðjum til að nota við klifrið og er það tæpast á færi allra. Hellirinn er ílangur og eru 7 metrar inn í hvorn enda og þar sem hann er breiðastur er hann 3,8 metrar.

Hellirinn er í bólstrabergslagi og er talinn hafa myndast sem hraunkvikurás sem varð síðar að gasrás.

Í sögunni um Önnu á Stóru–Borg kemur Paradísarhellir mjög við sögu. Anna sem var auðkona og af höfðingjaættum lagði ástir á smaladreng er Hjalti hét. Páll bróðir Önnu reiddist mjög þessar ástir og vildi ná til Hjalta. Hann faldist í Paradísarhelli í fjölda ára og sagt er að hann hafi getið með Önnu 8 börn þaðan. Sagan endar á því að Páll bróðir fellur með hesti í Markarfljóti og kemur þá Hjalti til og bjargar honum og var hann tekinn í sátt upp úr því.


Skógar-Skógá 

Við þjóðveg 1, undir austur-Eyjafjöllum, milli Hvolsvallar og Vík, eru Skógar. Um 50 kílómetrar eru frá Hvolsvelli til Skóga.

Á Skógum eru ágætir göngustígar upp í skóginn sem er fyrir ofan Héraðsskólann. Það eru tröppur fyrir norðan skólann og þegar upp er komið er stytta af Þorsteini Erlingssyni, skáldi. Aðeins síðar er nokkuð brattur stígur upp að rústum gömlu beitarhúsanna þar sem gott er að tylla sér. Þá tekur við annar brattur kafli og bekkur en að því loknu er sigurinn unnin og útsýnið frábært. Stígurinn heldur síðan í boga yfir gilið og liðast síðan niður brekkurnar í mjög fallegum greniskógi. Upp með Skógarfossi er stígur upp fyrir fossinn og í Skógánni fyrir ofan eru fallegir fossar sem vert er að skoða. Skógar eru byrjunarstöð fyrir göngu yfir Fimmvörðuháls.

Um 400 metra frá tjaldstæðinu á Skógum er Kvernugil. Fallegt er að ganga með því, þar sem meðal annars að finna Kvernufoss.Fimmvörðuháls
Mjög vinsæl gönguleið er frá Skógum milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls yfir Fimmvörðuháls yfir í Goðaland og Þórsmörk. Nafnið er dregið af fimm vörðum er stóðu þar nokkuð þétt til að vísa leiðina í dimmviðri. Þegar innar er komið er þar einnig Þrívörðusker. Fyrrum ráku bændur undir Austurfjöllum ær sínar þessa leið yfir í grösuga sumarhaga en því var hætt árið 1917. Jöklar ýmist hopa eða stækka og um miðja síðustu öld er þeir tóku að hopa, komu undan ísnum á þessari leið vörðubrot, kindabein og járningaáhöld. Ef gengin er öll leiðin þá er hún um 24 kílómetrar og hægt er að gista í skála á leiðinni og fara hana á tveimur dögum. Skálinn er í um 1100 metra hæð þannig að þetta er brött leið og allra veðra von og hafa menn orðið úti á þessari leið. Einnig er vinsælt að láta keyra sig upp að skála og ganga leiðina niður í Þórsmörk á einum degi. Gengið er eins og fyrr segir á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls og niður er farið eftir Heljarstíg um Heljarkamb og er hann það brattur að settar hafa verið keðjur þar til stuðnings.

Mögulegar gönguleiðir á Wikiloc

 

Ströndin-Skógafjara-Hallgeirseyjarfjara
Hægt er að komast niður í Skógafjöru fyrir þá sem vilja upplifa og ganga í fjörunni. Þá er beygt niður að brúnni hjá Skógum niður sandinn. Einnig er hægt að komast niður í Hallgeirseyjarfjöru í Landeyjum frá tjaldstæðunum í Grandavör í Austur-Landeyjum. Frá Hvolsvelli að Grandavör eru u.þ.b. 25 kílómetrar. Frá þjóðvegi 1 er beygt niður Aukureyjarveg (255) og hann keyrður að enda. Þá er beygt til vinstri (252) og sá vegur keyrður einhverja 5-6 km þangað til að komið er yfir Affalsbrúna en þá er beygt til hægri að Grandavör.