Ratleikur Rangárþings eystra 2016

25. maí - 1. september 

 

 

Gönguleiðirnar

 

1. Hvolsfjall. 2 km ganga

Hvolsfjall er 127 metra hátt fjall við Hvolsvöll og er auðvelt uppgöngu og hentar því vel fjölskyldufólki. Gengið er upp á Hvolsfjall frá Bjallanum hjá Stórólfshvolskirkju og þaðan inn eftir fjallinu eftir göngustíg sem þar hefur verið lagður. Af toppnum heldur síðan stígurinn áfram niður í miðja hlíðina og þar er farið yfir tröppur og genginn stígurinn í gegnum skóginn sem þar er að vaxa upp. Sá stígur nær inn að girðingunni við sumarhúsin í Miðhúsalandi og er þar gengið niður á göngustíg eftir að af fjallinu er komið meðfram Nýbýlaveg.


2. Flókastaðagil. 2,4 km ganga

Ekinn er Fljótshlíðarvegur (261). Beygt er upp hjá Breiðabólstað í Fljótshlíð, um 5 km frá Hvolsvelli. Best er að leggja bílnum við safnaðarheimilið og fylgja  girðingu í vesturátt að gilinu. Um er að ræða gönguleið sem er að mestu eftir  kindagötum. Það er mjög skemmtilegt að ganga upp Flókastaðagil frá  Breiðabólstað. Þetta er ekki erfiður gangur en ævintýraleg ferð að fara í með  börn. Í gilinu er mikið fýlavarp. Efst í gilinu var uppistöðulón og rafstöð hér  áður fyrr og var þá vinsælt að fara þangað á sumrin til að synda í lóninu. Þegar  upp er komið er yfirleitt gengið beint í suður fram á brún fyrir ofan Staðinn. Þar  eru bæjarrústir sem heita Háakot og sést þar vel yfir Staðarhverfið, Eyjahverfið  og til Vestmannaeyja.
Rétt er að hafa samband við landeigendur og fá leyfi.


3. Tunguskógur. Mismunandi lengd eftir leiðum

Tunguskógur er í Fljótshlíð, um 9 km frá Hvolsvelli. Þetta er vinsæll útivistarstaður í Rangárþingi eystra. Hér hafa heimamenn ræktað upp allmikið skóglendi, lagt þar göngustíga og komið fyrir borðum og bekkjum. Þarna er fallegt umhverfi, skjólsamt og mikið fuglalíf. Hægt er að velja um mislangar gönguferðir en á svæðinu eru kort af hinum ýmsu gönguleiðum á þremur stöðum við skógarjaðarinn. 


4. Gluggafoss. 1 km ganga

Stutt og auðveld ganga og hentar því fyrir alla fjölskylduna. Rétt fyrir innan Þorsteinslund, um 21 km frá Hvolsvelli, er fagur foss að nafni Gluggafoss. Hann er í Merkjá, smáá sem merkir landaskilin milli Hlíðarenda og Múlakots. Fossarnir eru í raun tveir, sá neðri breiður og lágur, sá efri er Gluggafoss, tignarlegur og hár, u.þ.b 45 metrar á hæð. Saman nefnast þeir Merkjárfossar.


5. Þríhyrningur. 7 km ganga

Þríhyrningur er í um 18 km fjarlægð frá Hvolsvelli. Fljótshlíðarvegurinn (261) er ekinn að Tumastöðum en þar er keyrt upp þangað til komið er að Fiská. Hjá Fiská er svo beygt til hægri upp á grasbala og hefst gangan þaðan, upp á fjallið að suð-vestan. Í nágrenni við veginn að fjallinu er Vatnsdalshellir sem vert er að skoða.
Þríhyrningur er 678 metrar á hæð og útsýni mjög gott til allra átta þaðan. Fjallið dregur nafn sitt af þremur hornum og á milli þeirra er dalur sem heitir Flosadalur. Segir í Njáls sögu að þar hafi Flosi á Svínafelli og brennumenn falið sig eftir Njálsbrennuna. Í fjallinu framanverðu eru tvö hamragil, Katrínargil og Tómagil. Eðlilegt er að gefa sér tvo til þrjá tíma í fjallgönguna. Gönguleiðin hefur verið stikuð.

 

 

6. Stóri-Dímon. 1 km ganga

Á þjóðvegi 1, leiðinni til Víkur frá Hvolsvelli, áður en að farið er yfir Markarfljótsbrúna, er beygt til vinstri inn Dímonarveg (250). Þaðan eru nokkrir kílómetrar að Stóra-Dímon. Á Fljótshlíðarveginum (261) er afleggjarinn rétt áður en komið er að Múlakoti, nokkurn veginn til móts við Gluggafoss. Stóri-Dímon á sér systur sem er Litli-Dímon. Nafnið er talið koma úr latínu og merkja tvífjöll, eða tveir eins. Fjallið er 178 metra hátt og er það verðugt verkefni, bæði hjá börnum sem og fullorðnum, að klifra upp á Dímon.


7. Efra-Hvolshellar. 200 m ganga 

Fljótshlíðarvegur (261) er keyrður örlítið út úr Hvolsvelli og síðan er beygt inn Vallarafleggjara. Hellarnir eru í bakkanum fyrir neðan sumarbústaðinn við veginn að Þórunúpi. Efra-Hvolshellanir eru þrír, tveir samliggjandi og einn stakur sem er talinn næst lengsti manngerði hellir á landinu, eitthvað nálægt 45 metra langur. Ekki er þó hægt að komast nema inn í einn þriðja af honum, sökum moldar við hrun á hlöðnu loftopi fyrir um 100 árum. Ekki er talin nein hætta á frekara hruni. 
Efra-Hvolshellar eru friðlýstir.


8.  Rútshellir.
Stutt ganga frá Þjóðvegi 1 

Rútshellir er í Hrútafelli undir Eyjafjöllum, rétt áður en komið er á Skóga, 44 km frá Hvolsvelli. Þetta er heljar hellir og ofantil í honum er afhellir með það hátt til lofts, að eins og sjá má af holum í vegg, þá hefur einhvern tíman hefur verið sett upp í honum milligólf. Innst í þessum helli er silla, sem má ímynda sér að hafi verið svefnstaður manna. Þar fyrir ofan má sjá úthöggvinn kross. Í þessu bæli er gat niður í hellinn fyrir neðan og gæti það hafa verið gert til þess, að hitinn af skepnunum í neðri hellinum hafi leitað þar upp og yljað þeim er á sillunni sváfu. Minjastofnun hefur unnið að varðveislu hellisins.

Rútshellir er friðlýstur.


9. Völvuskógur. Mismunandi lengd eftir leiðum

Á Skógum eru ágætir göngustígar í Völvuskógi sem er fyrir ofan Héraðsskólann. Það eru tröppur fyrir norðan skólann og þegar upp er komið er fyrst stytta af Þorsteini Erlingssyni skáldi. Síðan kemur nokkuð brattur stígur upp að rústum gömlu beitarhúsanna en þar er gott að tilla sér niður. Síðan kemur annar brattur kafli og bekkur og er þá erfiðið búið, en útsýnið unnið. Stígurinn heldur síðan í boga yfir gilið og liðast síðan niður brekkurnar í mjög fallegum greniskógi hinum megin.


10. Nauthúsagil. Stutt ganga frá bílastæði og inn gilið.

Eknir eru um 11 kílómetrar inn Þórsmerkurveg (249) frá þjóðvegi 1 og stoppað við Nauthúsaá, rétt innan við Merkurbæina undir Vestur-Eyjafjöllum.
Hægt er að ganga töluvert inn eftir gilinu ef menn eru tilbúnir að vaða eða stikla ána nokkrum sinnum.  Það er vel þess virði því gilið á fáa sína líka.  Innst í gilinu er hár foss en það sem vekur hvað mesta athygli er hinn mikli trjágróður sem skreytir gilbarmana og fæstir búast við að sjá. Inn í þessu gili stendur frægt reynitré, mjög gamalt og gríðarstórt. Ef gengið er inn með gilinu er komið að 3-4 m háum fossi og undir honum er djúpur hylur sem fyllir á milli hamrana.