30.03.2016

Auglýsing um skipulagsmál í Rangárþingi eystra


Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er auglýst niðurstaða sveitarstjórnar vegna eftirfarandi deiliskipulagstillögu.   

Kirkjuhvolsreitur – Deiliskipulag 
Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti á fundi sínum 14. janúar deiliskipulagstillögu fyrir Kirkjuhvolsreitinn á Hvolsvelli. Með gildistöku deiliskipulagsins mun eldra deiliskipulag frá 2007 með áorðnum breytingum falla úr gildi. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir allt að 3000m² viðbyggingu við dvalarheimilið Kirkjuhvol. Byggingin getur verið tvær hæðir og kjallari. Byggingarreitir sem merktir voru S1 á gildandi skipulagi falla út. Einnig eru gerðar breytingar á bílastæðum og göngustígum. Óverulegar breytingar voru gerðar á tillögunni að lokinni auglýsingu. Núverandi byggingar Kirkjuhvols voru innmældar og var staðsetning þeirra leiðrétt m.v. það. Gangstéttar voru aðlagaðar nákvæmari staðsetningu bygginga. Gert er ráð fyrir göngustíg frá Kirkjuhvoli til austurs, í átt að kirkjunni. Tekin voru frá tvö svæði þar sem gert er ráð fyrir aðkomu vegna vörumóttöku. Bílastæði norðan við Kirkjuhvol voru stækkuð til austurs og samtals fjölgar því stæðum um 15. Þá verða fjögur stæði merkt hreyfihömluðum í stað þriggja áður. Lóð Kirkjuhvols stækkar lítillega til norðurs. Staðsetning sorpgáma er sýnd á uppdrætti og sett hnit á lóðir Kirkjuhvols og Heilsugæslu. Bætt var inn umfjöllun um lóð Heilsugæslu. Skipulagssvæðið var stækkað yfir lóð Stórólfshvols til samræmis við eldra skipulag. Skipulagsmörk norðan Kirkjuhvols voru dregin í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir Gilsbakka, Öldubakka og Dalsbakka. 

Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, eru auglýstar til kynningar eftirfarandi tillögur að breytingum á aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024. 

Hamragarðar/Seljalandsfoss – Aðalskipulagsbreyting ásamt umhverfisskýrslu. 

Sveitarstjórn Rangárþings eystra leggur til að gerð verði breyting á aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024. Afmarkað verði afþreyingar- og ferðamannasvæði við Hamragarða og Seljalandsfoss og legu Þórsmerkurvegar breytt þar sem hann fer um svæðið. Annars vegar er um að ræða breytingu á landnotkun við Hamragarða og Seljalandsfoss úr landbúnaðarsvæði (L) og afþreyingar- og ferðamannasvæði af óskilgreindri stærð (AF) í 90 ha afþreyingar- og ferðamannasvæði (AF). Hins vegar tekur breytingin til færslu Þórsmerkurvegar (nr.249) til vesturs að varnargarði Markarfljóts. Um er að ræða nýjan vegarkafla sem tengist Þjóðvegi 1, skammt austan Markarfljótsbrúar og liggur meðfram varnargarði Markarfljóts allt að Gljúfurá í norðri þar sem hann tengist núverandi Þórsmerkurvegi. Núverandi Þórsmerkurvegur frá Þjóðvegi 1 að Gljúfurá verður þar með lagður af sem tengivegur nema allra syðst þar sem stuttur vegarkafli sem tengist Þjóðvegi 1 verður aðkomuleið að skógræktarsvæði (SL-411). Legu göngu- og reiðleiðar um svæðið er breytt og aðlöguð breyttum aðstæðum. Enging breyting verður á skógræktarsvæðinu né heldur staðsetningu áningarstaða Kötlu jarðvangs.

Umhverfisskýrsla

Sámsstaðir / Réttarfit – Aðalskipulagsbreyting.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra leggur til að gerð verði breyting á aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024. Frístundasvæði í landi Sámsstaða 1  (F-318) ofan Fljótshlíðarvegar verði breytt í landbúnaðarsvæði. Frístundasvæði í landi Sámsstaða 1 (F-319), í greinargerð, stefnu og skipulagsákvæðum aðalskipulags Rangárþings eystra 2012-2024 féll niður ein lína í yfirlitstöflu í kafla 4.10.3, þar sem svæði F-319 er skilgreint. Ekki er um að ræða efnislega breytingu heldur aðeins leiðréttingu, þ.e. nýja línu í yfirlitstöflu í greinargerð, kafla 4.10.3. Lóðum á frístundasvæðinu Réttarfit (F356) verði fjölgað um tvær, eða úr 16 í 18 lóðir. 

Ofangreindar tillögur að breytingum á aðalskipulagi Rangárþings eystra verða kynntar fyrir almenningi með opnu húsi hjá skipulags- og byggingarfulltrúa, Ormsvelli 1, Hvolsvelli, föstudaginn 1. apríl 2016 kl. 10:00 – 12:00. Einnig eru tillögurnar aðgengilegar á heimasíðu Rangárþings eystra www.hvolsvollur.is 


F.h. Rangárþings eystra
Anton Kári Halldórsson
Skipulags- og byggingarfulltrúi 


Til baka