Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði. Það er gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Með börnum er átt við einstakling undir 18 ára aldri. Þjónustan er í samræmi við barnaverndarlög nr. 80/2002 og önnur lög, eftir því sem við á hverju sinni. Starfsmenn Félagsþjónustunnar eru ávallt til viðtals við foreldra varðandi uppeldisráðgjöf. Börn geta ávallt leitað sjálf til félagsráðgjafa Félagsþjónustunnar vegna aðstæðna sinnar eða líðan. Ein barnaverndarnefnd er fyrir svæðið sem nær frá Þjórsá að Lómagnúp og eru starfsmenn Félagsþjónustunnar jafnframt starfsmenn nefndarinnar og sinna eftirliti með aðbúnaði og aðstæðum barna í umboði nefndarinnar.

 

Barnaverndarlög nr. 80/2002 leggja þær skyldur á almenning að gera barnaverndarnefnd viðvart ef þess verður vart að barni sé misboðið, uppeldi þess vanrækt eða aðbúnaði þess svo áfátt að því geti stafað hætta af. Sérstakar skyldur eru lagðar á lögreglu og þá sem hafa afskipti af börnum, s.s. kennara, dagmæður, presta, lækna, ljósmæður, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa um að tilkynna slík mál til barnaverndarnefndar. Starfsmenn Félagsþjónustunnar taka við tilkynningum í síma 487 8125.

Almenningur sem tilkynnir um vanrækslu barns eða óviðunandi misfellur á uppeldi þess getur óskað nafnleyndar. Það á þó ekki við gagnvart barnaverndarnefnd og starfsmönnum nefndarinnar.