- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Dagskrá:
1. Kynning á Skólaþjónustu, Edda Antonsdóttir
Edda kynnti Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu sem tók til starfa um síðustu áramót þegar Skólaskrifstofa Suðurlands var lögð niður. Skólaþjónustan er hluti af byggðasamlaginu. Á starfssvæðinu eru 10 skólar, 5 grunnskólar og 5 leikskólar. Heildarfjöldi nemenda er 773, 551 nemi í grunnskólum og 222 í leikskólum. Edda er í 100% stöðu sem forstöðumaður og kennsluráðgjafi. Sigríður Arndís Þórðardóttir, talmeinafræðingur er í 100% stöðu. Ragnar S. Ragnarsson, sálfræðingur er í 80% stöðu hjá skólaþjónustunni. Svava Björk Helgadóttir er í 30% stöðu sem leikskólaráðgjafi.
Skólaþjónustan hefur einnig umsjón með endurmenntun fyrir starfsmenn skólanna, en þeir eru um 200 á svæðinu. Starfsfólk skólaþjónustunnar keppist við að vera sýnilegt í skólunum á svæðinu. Í stærstu skólana kemur hver og einn starfsmaður u.þ.b. einu sinni í viku, en á hálfsmánaðarfresti í minni skólana. Skólaþjónustan leggur til að samstarf skólanna verði aukið og að styrkleikar hvers skóla fyrir sig fái notið sín betur. Bæta þarf ímynd skólanna og auka upplýsingastreymið til bæði foreldra og almennings. Ánægjulegt að þessi þjónusta sé komin nær okkur.
2. Sjálfsmatsskýrsla Hvolsskóla, Svava Björk Helgadóttir
Svava Björk kynnti skýrslu sjálfsmatshópsins frá síðasta skólaári. Farið var yfir kannanir sem lagðar voru fyrir og niðurstöður þeirra. Fram kom að það þyrfti að taka ítarlega umræðu um styttingu skólaársins í 170 daga úr 180. Ákvörðun er tekin eitt ár í senn.
Marka þarf stefnu í sérkennslumálum og varðandi námsverið. Farið var sérstaklega í skipulag kennslu á unglingastigi á síðasta skólaári og á þessu ári verður miðstigið tekið fyrir. Ánægjulegt að segja frá því að Hvolsskóli og leikskólinn Örk fengu viðurkenningu frá samtökum um Heimili og skóla fyrir samstarf skólastiganna.
Fyrirspurn kom um það hvort til væri áætlun varðandi viðbrögð við tilfinningalegum áföllum. Fræðslunefnd lýsir mikilli ánægju með störf sjálfsmatshópsins og jákvæðar niðurstöður skýrslunar.
3. Umbótaáætlun Leikskólans Arkar, Árný Jóna Sigurðardóttir
Árný Jóna kynnti umbótaáætlunina, sem gerð var í kjölfarið á niðurstöðum á ytra mati á vegum Námsmatsstofnunar. Áætlunin var áður kynnt fyrir fræðslunefnd í maí en í sumar var óskað eftir afstöðu nýs leikskólastjóra. Endurbætt umbótaáætlunin var send til Námsmatsstofnunar í ágúst. Til stendur að meta. Í júní á næsta ári hvernig til hefur tekist með umbæturnar.
Leikskólinn á sjálfur að sjá um að gera mat á innra starfi en svo er það hlutverk fræðslunefndar að sjá til þess að ytra mat verði gert. Umræður urðu um framkvæmd ytra mats skólanna.
4. Erindisbréf fræðslunefndar
Farið var yfir ný drög að erindisbréfi Fræðslunefndar.
Lagt er til að 5. grein verði breytt, þar yrði samræmt: fulltrúi starsmanna grunnskóla og fulltrúi starfsmanna leikskóla.
Fræðslunefnd bendir á að ekkert er um framhaldsmenntun í nýju erindisbréfi, en nefndin telur þörf á því að hafa það inni.
5. Ályktanir um vistun 12 mánaða barna, hámarksvistunartíma og opnunartíma leikskóla
Stefnumörkun vegna vistunar yngstu barna í leikskóla:
Fræðslunefnd leggur til að sveitarstjórn marki stefnu vegna vistunar yngstu barna í leikskóla og að áfram verði boðið uppá vistun frá 12 mánaða aldri. Í stefnumótun sé haft í huga að leikskólastarf á yngstu deildum er faglegt og þroskandi fyrir börnin. Einnig þarf að huga að lausnum v/húsnæðismála leikskólans fjölgi nemendum það mikið að það vanti rými fyrir 5. deildina. Að bjóða uppá leikskólavist fyrir börn frá 12 mánaða aldri er frábær þjónusta sem við megum vera stolt af. Það veitir foreldrum mikið öryggi að eiga kost á slíkri þjónustu og góðu faglegu starfi.
Ályktun um stefnumörkun fyrir vistun 12 mán barna samþykkt samhljóða.
Hámarks vistunartími leikskólabarna:
Fræðslunefnd leggur til að vistunartími barna í leikskóla sveitarfélagsins sé að hámarki 8,5 klst. Nefndinni þykir engan veginn forsvaranlegt að ung börn séu í 9 eða 9,5 klst vistun á dag.
Ályktun vegna hámarks vistunartíma leikskólabarna var samþykkt með fjórum atkvæðum, en einn sat hjá.
Opnunartími Leikskólans Arkar
Fræðslunefnd leggur til að opnunartími leikskólans sé óbreyttur
Ályktun vegna opnunartíma leikskólans Arkar var samþykkt með fjórum atkvæðum, en einn sat hjá.
Umræður sköpuðust um það af hverju ekki er hægt að greiða yfirvinnu á leikskólanum,
eins og gert er í öðrum stofnunum í sveitarfélaginu.
6. Framvinda í gerð skólastefnu
Arnar hjá Capacent kom hingað og sat fund með Arnheiði, Sigurlín, Árnýju Jónu og Birnu. Lesið var í gegnum þau drög sem komin eru og var þeim áherslum sem þótti vanta bætt inn í. Arnar vinnur áfram að málinu og er beðið eftir því að hann sendi ný drög tilbaka.
7. Önnur mál
Fræðslunefnd óskar eftir því að fá að koma í heimsókn í skólana. Sigurlín leggur til að nefndin komi í heimsókn strax í september, helst að morgni dags þegar skólastarfið er í fullum gangi. Lagt var til að nefndin færi í bæði grunnskólann og leikskólann mánudaginn 29. september, kl. 9 í leikskólanum og kl. 10 í grunnskólanum.
Fundargerð síðasta fundar var send í tölvupósti og er því nú borin undir atkvæði, samþykkt samhljóða.
Formaður las upp fundargerð þessa fundar ,samþykkt samhljóða
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 19:20