- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Auglýsing um skipulagsmál í Rangárþingi eystra
Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er kynnt lýsing að breytingu á aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024.
Nýr Ofanbyggðarvegur – Aðalskipulagsbreyting
Meginmarkmið breytingarinnar er að skilgreina nýjan veg, svokallaðan Ofanbyggðarveg, sem mun liggja frá þjóðvegi 1, norður fyrir nýju íbúðabyggðina á Hvolsvelli og tengjast við Nýbýlaveg. Hinn nýi vegur mun tengja betur byggðina á Hvolsvelli við íþróttasvæði ásamt því að létta á umferð um þjóðveg 1 í gegnum þéttbýlið, og þannig auka umferðaröryggi.
Ofangreind skipulagslýsing verður kynnt fyrir almenningi með opnu húsi hjá skipulags- og byggingarfulltrúa, Austurvegi 4, Hvolsvelli, mánudaginn 20. apríl 2020 kl. 10:00 – 12:00. Einnig verður tillagan aðgengileg á heimasíðu Rangárþings eystra www.hvolsvollur.is. Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemd við skipulagslýsinguna og er frestur til að skila inn athugasemdum til og með 30. apríl 2020.
Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru auglýstar eftirfarandi tillögur að deiliskipulagi í Rangárþingi eystra.
Grenstangi – Deiliskipulagsbreyting
Breytingin felst í því að frístundabyggð með átta lóðum er breytt í íbúðabyggð. Auk þess breytast mörk skipulagssvæðisins þannig að Grenstangi 2 L187664 verður innan skipulagssvæðis. Á svæðinu eru skilgreindar alls níu lóðir undir íbúðarhús. Lóðir Í1-Í8 eru hver um sig um 2.200 m2 og lóð Í9 er 3.181 m2. Á hverri lóð má byggja allt að þrjú hús, þ.e.a.s. íbúðarhús, bílskúr og gestahús/geymsluhús, samtals að hámarki 300 m2.
Brú – Deiliskipulagstillaga
Deiliskipulagstillagan nær til 4,0 ha landskika í landi Brúar L163848. Gert er ráð fyrir íbúðarhúsi, tveimur gestahúsum, geymsluhúsi og gróðurhúsi. Form húsa er frjálst, mænishæð frá gólfi er 6,0 m og verða hús klædd að utan með timbri eða málmi.
Ofangreindar deiliskipulagstillögur er hægt að skoða á heimasíðu Rangárþings eystra, www.hvolsvollur.is og á skrifstofu skipulags- og byggingarfulltrúa frá 20. apríl 2020. Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar, og er frestur til að skila inn athugasemdum til 27. maí 2020. Athugasemdum skal skila skriflega á skrifstofu skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra, Austurvegi 4, 860 Hvolsvelli.
F.h. Rangárþings eystra
Guðmundur Úlfar Gíslason
Skipulags- og byggingarfulltrúi