Á Hvolsvelli er hægt að fara með jólatré á losunarstað fyrir garðaúrgang norðan við Hallgerðartún. Sjá má móttökustaðinn á meðfylgjandi mynd hér fyrir neðan. Trjástofnar og stórar greinar verða síðar kurlaðar og notaðar í gróðurbeð á grænum svæðum í þorpinu og í göngustíga á opnum svæðum í sveitarfélaginu. Má nefna að undanfarin ár hefur kurlið ma. farið í göngustíga um Tunguskóg, Þorsteinslund, Trjásafnið í Múlakot og á önnur svæði sem til falla ár hvert.

Mikilvægt er að þarna fari aðeins trjástofnar og stærri greinar. Ekki lauf úr görðum, tré með rótum, afklippur limgerða, gras, mold, sandur eða annað það sem gæti skemmt bit í kurlara sem kemur til með að vinna úr efniviðnum. Slíkt á að fara í gryfjurnar sem eru við hliðina og vera alltaf sá valkostur ef menn eru í vafa.

Mikilvægt er að passa upp á að það fari aðeins garðaúrgangur á þetta svæði og ekki annar úrgangur með eins og t.d. plast, pappi og þ.h. Einnig á steypa, járn og annar grófúrgangur ekki heima í þessu svæði heldur aðeins á Strönd.
Hjálpumst að við að halda svæðinu til fyrirmyndar og lang flestir íbúa hafa staðið sig frábærlega vel og sveitarfélagið er þakklátt fyrir það.