Það var mikið um að vera í morgun á skrifstofunni okkar þegar Guðlaugur Þór, umhverfis- orku og loftlagsráðherra kom ásamt gestum til að kynna nýja stofnun sem staðsett verður á Hvolsvelli. Náttúruverndarstofnun verður með höfuðstöðvar í ráðhúsi Rangárþings eystra og munu alls 75 starfsmenn vinna hjá stofnuninni víðsvegar um landið. Þá var líka sagt frá því að Gestur Pétursson yrði nýr forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar.
Alþingi samþykkti í júlí frumvörp um nýja Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun. Ný Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar, en Náttúruverndarstofnun tekur við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar auk lífríkis og veiðistjórnunarhluta hennar.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur talað fyrir störfum án staðsetningar og flutningi ríkisstofnana út á land, árum saman og nú er þessi nýja stofnun orðin að veruleika í sveitarfélaginu.
„Við erum búin að tala um það í áraraðir og tala fyrir þessu að færa ríkisstofnanir út á land og festa störf úti á landi. Þannig að við erum alsæl með þetta og hlökkum til að fá Náttúruverndarstofnun hingað til okkar,” segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Sigrún hefur verið forstjóri Umhverfisstofnunar frá árinu 2020 og hefur starfað að umhverfismálum í rúm 20 ár. Hún var sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun frá árinu 2008 og var auk þess staðgengill forstjóra áður en hún var skipuð í embætti forstjóra stofnunarinnar. Þá starfaði hún sem lögfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á árunum 2000 – 2008. Sigrún lauk cand.jur. prófi frá Háskóla Íslands árið 1995.
Sigrún hefur sinnt prófdómarastörfum og stundakennslu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík meðfram öðrum störfum, m.a. í umhverfisrétti og stjórnsýslu umhverfismála. Þá hefur hún starfað að alþjóðamálum á vettvangi umhverfismála um árabil.
Eiginmaður Sigrúnar er Davíð Pálsson leiðsögumaður og eiga þau tvö börn.
Við óskum Sigrúnu innilega til hamingju með nýja starfið og bjóðum Náttúruverndarstofnun innilega velkomna í Rangárþing eystra.