- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Nr. 633 - 27. júní 2007
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir Rangárvallasýslu.
I. KAFLI
Um stjórn fjallskilamála.
1. gr.
Rangárvallasýsla er eitt fjallskilaumdæmi og hefur héraðsnefnd yfirstjórn allra fjallskila-mála samkvæmt lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., en sveitarstjórnir eða stjórn afréttafélags annast stjórn og framkvæmd þeirra í hverju sveitarfélagi, eða í sameiningu þar sem svo hagar til. Fjallskiladeildir skulu vera starfræktar með sama hætti og verið hefur, þ.e. Holtamannaafréttur, Landmannaafréttur, Rangárvallaafréttur, Hvolhreppsafréttur (Emstr-ur), Fljótshlíðar-afréttur (Grænafjall) og Vestur-Eyjafjallaafréttur (Almenningar, Stakkholt, Steinsholt og Merkurtungur).
2. gr.
Hverri sveitarstjórn er heimilt að ráða mann til þess að hafa á hendi stjórn og umsjón fjallskilamála sveitarfélagsins og nefnist hann fjallskilastjóri. Þar sem starfandi eru upp-rekstrarfélög / fjallskiladeildir er sveitarstjórn heimilt að kjósa fjallskilanefnd í samráði við upprekstrarfélag / upprekstrardeild. Þá boðar sveitarstjórn, að afloknum sveitarstjórnar-kosningum, alla upprekstrarhafa á fund. Upprekstrarhafar tilnefna allt að þrjá fulltrúa í fjallskilanefnd, en sveitarstjórnir allt að tvo. Nefndin skiptir með sér verkum og ræður fjall-skilastjóra í samráði við sveitarstjórn. Hver fjallskiladeild skal rita gerðabók og gera tillögu til sveitarstjórnar um útjöfnun fjallskila.
3. gr.
Þar sem tvö sveitarfélög eru sameiginlegir eigendur að afrétti, sameinast þau um eina fjallskiladeild.
II. KAFLI
Um afrétti og notkun þeirra.
4. gr.
Allt land, sem fjallskilaframkvæmd tekur til, skiptist í afrétti og heimalönd. Það skulu vera afréttir, sem áður hafa verið. Þó geta sveitarstjórnir tekið upp nýja afrétti, breytt takmörkum afrétta og lagt til þeirra heimalönd eða landshluta einstakra jarða með samþykki landeiganda, umráðamanns og héraðsnefndar.
5. gr.
Fjallskilanefndum og sveitarstjórnum er skylt að hafa í samráði við gróðurverndarnefnd, samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 17/1965, og Landgræðslu ríkisins eftirlit með því, að gróðurlendi í heimahögum og afréttum sé ekki íþyngt um of.
6. gr.
Þar sem upprekstrarfélag á eitt aðild að afrétti, er sveitarstjórninni heimilt að leigja hann um tiltekinn árafjölda, og gera um það sérstakan, bindandi samning, enda liggi fyrir meiri-hlutasamþykkt félagsins. Óheimilt er að gera slíka samninga við utansveitarmenn.
7. gr.
Enginn má lána utansveitarmanni ítölu sína í afrétti, nema með leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, enda sé afréttarland viðurkennt nægilegt. Enginn má leyfa sumarbeit fyrir búfé í óskiptu eða óafgirtu heimalandi sínu, þar sem hætta er á að íþyngt yrði óréttilega öðrum sambeitarmönnum eða nágrönnum, án leyfis þeirra og sveitarstjórnar.
8. gr.
Fjallskilanefnd í umboði sveitarstjórna(r) skal í samráði við Landgræðslu ríkisins og/eða gróðurverndarnefnd setja reglur um hvenær reka má fé til afréttar, ennfremur á hvaða svæði í afrétti fjallféð skuli rekið eða flutt, og hve margt á hvert svæði. Ekki skal upprekstur leyfður fyrr en gróður er nægur að mati sveitarstjórnar, en henni er heimilt að leita álits Landgræðslu ríkisins og/eða gróðurverndarnefndar áður en leyfi er veitt.
Fjallskilanefnd hefur heimild til að skipa eða samþykkja eftirlitsmann með flutningi eða rekstri fjár á afrétt. Ber honum að sjá um að reglum sé hlýtt og vel með féð farið. Sérstaklega skal hann gæta þess að fénu sé haganlega dreift og ærnar látnar taka lömb sín. Eftir fyrstu leit að hausti, er óheimilt að reka eða flytja fé á afrétt og lönd sem að afrétti liggja og notuð eru sem sumarbeitilönd eða stuðla að því á nokkurn hátt að fénaður renni þangað.
9. gr.
Nú þykir einhverjum ofsett á afrétt nágrannasveitarfélags, og verður af þessum ástæðum fyrir tilfinnanlegum ágangi afréttarfjár, þá er hinum sama heimilt að krefjast þess, að héraðs-nefnd hlutist til um, að ítölunefnd ákveði tölu fjár á afréttinn. Ber afréttareiganda að haga tölu fjár á afréttinn eftir mati ítölunefndar.
10. gr.
Sveitarstjórn er heimilt, ef eigendur eða ábúendur jarða í sveitarfélagi telja sig verða fyrir tilfinnanlegum ágangi innansveitar eða utansveitar búpenings í heimalandi eða -löndum og ekkert leyfi eða heimild er fyrir, að fyrirskipa smölun á stærra eða minna svæði í sveitinni, þegar henni þykir þurfa, og reka til almenningsrétta. Þar er eigendum skylt að hirða fénað sinn. Þegar sveitarstjórn fyrirskipar smölun slíka og þá, er um ræðir, skal henni skylt, áður en smölun fer fram, að birta ráðstöfun sína til hlutaðeigenda, svo þeim gefist kostur á að hirða fé sitt.
11. gr.
Enginn má reka búfénað sinn í annarra lönd, án leyfis þeirra eða skilja þar eftir af rekstrum sínum eða flutningum. Annarra fé mega menn heldur eigi láta fara í rekstra sína til og frá afrétti og rétta.
12. gr.
Telji einhver ábúandi jarðar sig verða fyrir óhæfilegum ágangi búfjár nágranna síns, vegna þess að sá síðarnefndi hafi girt stærra eða minna svæði af beitilendi sínu og verji það að meira eða minna leyti, með því að sleppa hlutfallslega of miklu af fénaði sínum utan girðingar í þann hluta landsins, sem liggur ógirt að landi eða löndum nágranna hans, getur sá, sem telur sig verða fyrir áganginum, kært málið til sveitarstjórnar og er henni þá skylt að rannsaka málið. Þyki sveitarstjórn ástæða til, getur hún fyrirskipað þeim, sem hefur nokkuð af landi sínu afgirt, að hafa ákveðinn hluta búfjárins í hinu afgirta landi. Heimilt er hlutaðeigendum að skjóta úrskurði sveitarstjórnar til héraðsnefndar, sem fellir úrskurð um slík mál, en skylt er
hlutaðeigendum að hlýða úrskurði sveitarstjórnar, þótt málinu hafi verið vísað til héraðs-nefndar, uns hún hefur fellt úrskurð sinn.
III. KAFLI
Um ágang afréttarpenings o.fl.
13. gr.
Nú verða mikil brögð að ágangi búfjár af afrétti í heimahaga og getur þá sá, er fyrir honum verður, gert sveitarstjórn viðvart. Skal hún þá, ef um óeðlilegan ágang er að ræða, skipað fyrir um smölun og rekstur til skilarétta. Þar er eigendum skylt að hirða, eða láta hirða fénað sinn, þegar tilkynnt hefur verið. Að öðru leyti vísast til 31. gr. afréttarlaga.
IV. KAFLI
Um göngur og réttir.
14. gr.
Hverri sveitarstjórn, í samstarfi við viðkomandi fjallskilanefnd, er skylt að gera afréttar-skrá fyrir afréttinn sem send er héraðsnefnd til samþykktar. Afréttarskrá er skrá yfir grasnytjaréttarhafa og samanstendur af öllum lögbýlum viðkomandi afrétta. Þeir aðilar einir hafa grasnytjarétt á afrétti sem skráðir eru á afréttarskrá. Héraðsnefnd er skylt að láta liggja frammi afréttarskrá fyrir hvern afrétt, aðgengilega fyrir alla hlutaðeigandi aðila.
15. gr.
Sveitarstjórn reiknar fjallskilakostnaðinn ár hvert, með því að leggja í dagsverk og meta til verðs vinnu þá og annan kostnað er til þess þarf að afréttur sé fullsmalaður og það annað innt af hendi tilheyrandi fjallskilum, sem hún telur nauðsynlegt. Sveitarstjórn er heimilt að leggja til fjallskilasjóðs fjárhæð sem nemur kostnaði við hreinsun afréttarins, miðað við að ekki væri rekið til afréttar. Þeirri fjárhæð sem eftir stendur jafnar hún svo niður á hlutað-eigendur, skv. afréttarskrá sbr. 14. gr., þannig, að 1/3 hluti leggist á landverð, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda, með gjaldi sem sveitarstjórn ákveður í tveimur þrepum, þannig að lægra gjaldið komi á landverð allt að kr. 5.000.000 og hærra gjaldið komi á landverð yfir kr. 5.000.000. Sveitarstjórn ákveður upphæð gjaldsins í hvoru þrepi, en þó skal hærra gjaldið aldrei vera hærra en sem nemur 150% af lægra gjaldinu. 2/3 hlutar álagðra fjallskilagjalda komi á fjallskilaskylt fé, en allt ásett fé skv. forðagæsluskýrslu telst fjall-skilaskylt samkvæmt samþykkt þessari. Sveitarstjórn er heimilt að leggja aukagjald á rekið fé, lömb og fullorðið, sem til afréttar er rekið eða flutt og í heimalönd sem að afrétti liggja og eru nýtt sem afréttur, allt að 100% miðað við grunngjald á hverja fjallskilaskylda kind.
Hverjum hlutaðeiganda er skylt að inna af hendi fjallskil þau, er á hann hafa verið lögð á þeim tíma og með þeim hætti, sem sveitarstjórn hefur ákveðið, hvort sem um fjallferðir, vinnuframlag eða peningagreiðslur er að ræða. Heimilt er honum þó að bera upp við sveitar-stjórnina aðfinnslur um hvernig fjallskilum er jafnað á aðra eða sjálfan hann eða einhverjum hafi ranglega verið sleppt. Skal kæra sú koma til sveitarstjórnar bréflega áður en fjórar vikur eru liðnar frá niðurjöfnun. Sveitarstjórn leggur síðan úrskurð á kæruna. Úrskurði sveitar-stjórnarinnar um fjallskilakæruna, má skjóta til sýslumanns og skal gera það skriflega fyrir árslok.
Enginn sá sem fjallskil eru lögð á, getur komist hjá því að inna þau af hendi, þótt hann hafi kært yfir þeim og lagt það mál undir úrskurð.
16. gr.
Fjallskilanefnd skal tilkynna hvenær göngur eiga að hefjast og láta þá sem gert er að senda í göngur vita með nægum fyrirvara.
Fyrsta leit skal við það miðuð, að fjallsafnsréttir séu haldnar í síðasta lagi fimmtudag í 23. viku sumars, nema óviðráðanlegar tafir verði við smölun. Fjallsafni verði réttað strax að loknum göngum. Í aðra leit skal farið viku til fimmtán dögum eftir fjallrétt.
Þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, getur fjallskilanefnd leyft að fjallferðir séu færðar fram eða aftur um nokkra daga.
17. gr.
Sveitarstjórn eða fjallskilanefnd ráða fjallkónga, einn eða fleiri eftir því sem hagar til á hverjum stað. Skulu fjallkóngar ráða fjallmenn, að teknu tilliti til óska upprekstraraðila um að vinna fyrir fjallskilagjöldum sínum, að fengnu samþykki viðkomandi fjallskilanefndar eða sveitarstjórnar. Fjallkóngar fara eftir fyrirskipunum sveitarstjórnar eða fjallskilanefndar, en í afrétti hafa þeir öll ráð og umsjón á hendi um allt það er að leitunum lýtur. Þeir skipa í leitir og stjórna leitum og rekstri fjár til rétta. Þeir hafa, með ráði sveitarstjórnar eða fjallskila-nefndar, umsjón við réttahald í aðalréttum. Fjallskilanefnd getur skipað réttarstjóra er sér um innrekstur við réttahald, kveður á um hvenær réttir skulu hefjast og ljúka og gætir þess að allt fari fram í sem bestri röð og reglu. Réttarstjóri úthlutar dilkum eftir því sem honum sýnist best henta hverju sinni.
18. gr.
Sérhver fjallmaður skal vera 16 ára eða eldri, vel útbúinn að fötum og öðrum búnaði. Fjallskilanefnd skal sjá fjallleitarmönnum fyrir viðhlítandi húsnæði á afrétti.
19. gr.
Séu færðar líkur fyrir því að fé leynist á afréttinum að lokinni annarri leit, skal það sótt á kostnað fjallskilasjóðs.
20. gr.
Sveitarstjórn er skylt að sjá um að fjallleitarmenn séu slysatryggðir meðan á smölun og skilum stendur. Kostnaður sem af því leiðir greiðist úr fjallskilasjóði.
21. gr.
Þar sem svo háttar til, að afréttarfé rennur í lönd eyðijarða sem liggja að afrétti, skulu fjallmenn smala þau sem afréttir væru. Heimilt er þó eigendum eða umráðamönnum að smala landið ef þeir óska þess, og þá að höfðu samráði við fjallskilanefnd þess afréttar, sem mestra hagsmuna hefur að gæta.
22. gr.
Haga skal svo fjallgöngum, þar sem því verður við komið, að ekki verði misgöngur afrétta á milli. Skulu fjallskilanefndir þær, er hlut eiga að máli, bera ráð sín saman um það.
V. KAFLI
Um byggingu og viðhald almenningsrétta.
23. gr.
Sveitarstjórn sér um að almenningsréttum sveitarfélagsins með tilheyrandi dilkum sé vel við haldið og að þær séu í góðu ástandi til notkunar. Byggingar- og viðhaldskostnaður almenningsrétta er í umsjá eignasjóða sveitarfélaganna.
24. gr.
Þyki þörf á því að færa almenningsréttir úr stað, skal hlutaðeigandi sveitarstjórn og fjallskilanefnd ná samkomulagi um staðarval.
25. gr.
Sérhver landeigandi er skyldur að leggja til land undir almenningsréttir og fjárgeymslu-hólf við þær eða í næsta nágrenni, valdi það ekki skemmdum á yrktu landi. Sanngjarna þóknun úr fjallskilasjóði ber að greiða hlutaðeigandi fyrir jarðrask og átroðning eftir mati tveggja óvilhallra manna, er sýslumaður útnefnir, hafi samkomulag ekki náðst.
26. gr.
Almenningsréttir fyrir afrétti í Rangárvallasýslu eru sem hér segir:
Holtamannaafréttur: Fyrir svæðið milli Köldukvíslar og Þjórsár er réttað í Haldréttum. Austan Köldukvíslar er réttað í Þóristungum.
Landmannaafréttur: Landréttir, við Áfangagil í Valafelli.
Rangárvallaafréttur: Reyðavatnsréttir.
Fljótshlíðarafréttur: Fljótshlíðarréttir.
Hvolhreppsafréttur: Emstrur.
Vestur-Eyjafjallaafréttur: Fitjamýrarréttir.
Smaladagar eru ákveðnir í samráði við héraðsnefnd og Landgræðsluna (landnýtingar-áætlun).
VI. KAFLI
Um byggðasmölun og byggðasafnsréttir.
27. gr.
Smölun heimalanda, byggðasmölun, skal fara fram eigi síðar en 25. október. Við byggðarsmölun er hver og einn skyldur til að smala allt heimaland sitt og hlýðnast þeim fyrirskipunum sveitarstjórnar, sem miða að því að vel sé smalað, og almenningur sé samtaka í smölun bæði innbyrðis og sveita á milli. Síðan skal varðveita vel allt óskilafé og koma því til skilarétta í tæka tíð næsta dag.
Gefa skal eigendum kost á að hirða sitt fé í heimaréttum, áður en það er flutt til skilarétta. Sé fyrirmælum um smölun heimalands ekki hlýtt og sterkur grunur leikur á að í viðkomandi landi sé um óskil að ræða, getur sveitarstjórn fyrirskipað smölun á kostnað umráðamanns viðkomandi jarðar.
28. gr.
Við niðurjöfnun fjallskilanna gæti sveitarstjórn þess í hvert sinn, að ákveða hverjir skuli, sveitar sinnar vegna, vera sendir í réttir nágrannasveita, til þess að hirða það óskilafé úr sveit sinni sem þar kann að koma fyrir. Mega aldrei vera færri en tveir saman slíkra erinda. Telst
þetta til fjallskila. Skulu þeir látnir vita, með svo góðum fyrirvara sem hægt er, hvenær við-komandi réttir verði haldnar.
29. gr.
Ef þurfa þykir skal skilarétt á hrossum haldin í hverju sveitarfélagi eigi síðar en í fyrstu viku í nóvember, eftir að fram hefur farið smölun á þeim, er búendur skulu leysa vel af hendi. Hver einstakur eigandi ber ábyrgð á að hross hans séu hirt í skilarétt.
30. gr.
Utansveitarfé sem ekki er hirt í réttum tekur réttarstjóri í sína vörslu og lætur eigendur eða forráðamenn viðkomandi sveitarfélags vita um það, enda sé leyfilegt að flytja féð heim, annars sendi réttarstjóri það til slátrunar.
Allir flutningar úr réttum sveita á milli eru háðir ákvæðum laga nr. 25/1993 um dýra-sjúkdóma og varnir gegn þeim. Rangárvallasýsla er eitt sóttvarnarsvæði (varnarhólf) og innan þess eru fjögur aukasóttvarnarsvæði.
31. gr.
Skylt er réttarstjóra ef sjáanlega eru sjúkar kindur í réttum, að sjá til þess að þær verði teknar og hafðar sér og gerðar viðeigandi ráðstafanir.
VII. KAFLI
Um meðferð ómerkinga og óskilafjár.
32. gr.
Kalineyrt, eyrnalaust fé, ómerkinga og með ólæsilegum mörkum, sem lambsmæður ekki helga sér í heimaréttum, skal reka til almenningsrétta, bæði í fjallsöfnum og byggðasöfnum, og skal réttarstjóri sjá um að slíkt fé sé dregið í sérstakan dilk. Síðan skal leiða ær í dilkana og leyfa mönnum með því eða öðru móti að reyna að sanna eignarrétt sinn. Fjárbragð eitt sker þó ei úr um eignarrétt. Ómerkingar þeir, er enginn helgar sér í lok hverrar réttar, eru eign fjallskilasjóðs.
33. gr.
Allar óskilakindur, sem ekki tekst að finna að eiganda, skulu færðar til slátrunar í slátur-hús. Skal fjallskilastjóri, að loknum öllum haustréttum, senda í hvert sveitarfélag sýslunnar skýrslu um mörk á hinu slátraða fé, og mega eigendur þess ganga eftir andvirðinu er tveir mánuðir eru liðnir frá söludegi, til septemberloka árið eftir, að frádregnum öllum kostnaði.
Sveitarstjórnir sjá um vörslu óskilapenings, svo sem hrossa og nautgripa, auglýsa eftir eigendum slíkra gripa og krefjast uppboðssölu á þeim finnist eigendur ekki. Opinbera uppboðssölu óskilapenings annast sýslumaður.
Förgun óskilafjár og sala óskilahrossa og nautgripa skal tilkynnt af sveitarstjórn til birtingar í Lögbirtingablaði fyrir árslok. Greina skal frá marki og auðkenni hverrar skepnu eftir því sem kostur er.
34. gr.
Hross sem eigandi finnst ekki að skulu jafnan talin í óskilum á hvaða tíma árs sem er.
Vakta skal þau í viku og fara síðan með sem annað óskilafé. Sýslumaður auglýsir óskila-hross og selur sem óskilafénað á opinberu uppboði með 4 vikna innlausnarfresti, ef enginn finnst eigandinn. Eigandi greiðir allan áfallinn kostnað, svo sem uppboðs-, fóður- og
beitarkostnað. Eigendur geta vitjað andvirðis seldra óskilahrossa innan árs frá söludegi, en að öðrum kosti færist það viðkomandi fjallskilasjóði til tekna.
35. gr.
Nú kemur fyrir kind eða hross með réttu marki ákveðins manns, en sá hinn sami veit sig ekki eiganda að, skal þá með fara sem óskilafé.
VIII. KAFLI
Um búfjármörk.
36. gr.
Búfjármörk eru: eyrnamörk, brennimörk, frostmerki, plötumerki í eyra og örmerki.
Sá sem tekur upp mark eða flytur inn í sveit með mark, sem er náið öðrum í sama sveitarfélagi, skal breyta marki sínu ef þess er óskað. Erfðamark og mark sem áður hefur verið notað í viðkomandi sveitarfélagi er rétthærra en nýupptekið mark að öðru jöfnu.
37. gr.
Allir búfjáreigendur skulu hafa merki á fé sínu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða.
38. gr.
Óheimilt er að draga sér búpening sem eigi ber hið rétta mark viðkomandi. Við sönnun á eign á búpeningi eru örmerki rétthæst, þá frostmerki, brennimark, plötumerki og síðast eyrna-mörk. Skylt er eiganda rétthærra marks að gera grein fyrir eignarrétti sínum, krefjist eigandi réttlægra marks þess.
39. gr.
Héraðsnefnd skal láta prenta markaskrá fyrir sýsluna áttunda hvert ár, og oftar ef þurfa þykir. Hver markeigandi skal koma marki sínu í skrána og greiða fyrir það gjald, er héraðs-nefnd ákveður. Hvert heimili, sem á eitt eða fleiri mörk í skránni, fær eitt eintak af henni, og skal það fylgja jörðinni eða býlinu, þegar búendaskipti verða. Þá skal formaður héraðsnefndar sjá um, að nægilega mörg eintök verði send ókeypis til allra sveitarfélaga utan sýslu, þar sem búast má við samgangi fjár, svo og til Bændasamtaka Íslands, Landbúnaðarstofnunar, marka-nefndar og sláturhúsa á Suðurlandi.
40. gr.
Héraðsnefnd skal fela ákveðnum manni, markaverði, umsjón með söfnun og upptöku marka og undirbúning prentunar markaskrár. Kosning markavarðar fer fram að lokinni útgáfu hverrar markaskrár. Héraðsnefnd ákveður markaverði þóknun fyrir störf hans. Við útgáfu markaskráa og birtingu marka skal markavörður fara eftir gildandi lögum og reglugerðum og hafa jafnframt samvinnu við Bændasamtök Íslands um þau efni.
41. gr.
Sveitarstjórnir skulu, hver í sínu sveitarfélagi, samkvæmt ákvæðum héraðsnefndar eða markavarðar, safna mörkum í sveitarfélagi og innheimta gjöld fyrir þau. Heimilt er að fela markaverði einum söfnun marka, ef hagkvæmara þykir.
Þegar markavörður hefur fengið markaskýrslur allra sveitarfélaga ber hann þær saman sín á milli, og þær allar saman við gildandi markaskrár innan sýslu og utan, þar sem búast má við fjársamgöngum.
Heimilt er honum að fella niður nýupptekin mörk, sem of lík eru eldri mörkum og þau sem bannað er að taka upp, ef nokkur eru á skýrslu.
Ákveði markavörður að fella niður mark eða breyta því, skal hann tilkynna það hlutaðeigandi og benda þeim á önnur mörk eða breytingar á marki, er geti komið í staðinn. Að öðru leyti ber honum að taka til greina óskir eða kröfur markeiganda, geti þær samrýmst ákvæðum afréttalaga nr. 6/1986, með síðari breytingum, og reglugerðar nr. 200/1998 með breytingum nr. 30/2000, 221/2002 og 1105/2005 um mörk, markaskrár og takmörkun á sam-merkingum búfjár. Vilji einhver taka upp mark milli þess að markaskrá er samin, ber honum fyrst að fá til þess samþykki markavarðar sem síðan skal senda það til birtingar í land-markaskrá Bændasamtaka Íslands. Markavörður sjái um að markið sé ritað inn í markaskrá. Þeir sem í sýsluna flytjast, fari eins að til þess að fá lögheimild fyrir marki sínu innan fjallskilaumdæmisins.
IX. KAFLI
Um fjallskilasjóði.
42. gr.
Sveitarstjórn er skylt að stofna og reka fjallskilasjóð, fyrir hvern afrétt, í þeim sveitarfélögum sem afréttarlönd eiga og renna þá til hans þessar tekjur:
1.
Andvirði óskilafjár.
2.
Niðurjöfnun fjallskila.
3.
Sektir fyrir brot á samþykkt þessari.
4.
Sannanlegar tekjur af afréttasmölun, og aðrar tekjur er sveitarstjórn samþykkir að renni í sjóðinn.
5.
Bætur fyrir gangnarof skv. 44. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl.
Tekjum fjallskilasjóðs má sveitarstjórn aðeins verja til að standa straum af smölunar-kostnaði heimalanda vegna ágangs búfjár af afrétti í heimahaga skv. 31. gr. fjallskilalaga, leitarkostnaði (fjallskilakostnaði) skv. V. kafla fjallskilalaga og réttarbyggingu skv. 51. gr. fjallskilalaga. Sjóðurinn er í ábyrgð sveitarstjórnar, sem gerir reikning hans árlega og lætur fylgja sveitarfélagsreikningum.
X. KAFLI
Ýmis ákvæði.
43. gr.
Skylt er sláturleyfishöfum að láta fara fram markaskoðun á öllu fé, sem þar er leitt til slátrunar, að sjá til þess að í húsum þar sem sláturfé er geymt þar til því er slátrað, sé loft gott, trekklaust og drykkjarvatn eftir þörfum.
44. gr.
Það er stranglega bannað að svelta fénað, frekar en minnst verður hjá komist, hundbeita hann að óþörfu eða misþyrma honum á nokkurn hátt við fjárréttir, í rekstrum eða gæslu, fjallgöngum eða við smölun heimalanda. Slík brot varða skaðabótum og hegningu að lögum.
45. gr.
Héraðsnefnd sker úr öllum ágreiningi sveitarstjórna út af fjallskilamálum, nema það sem lög ákveða að falla skuli undir ítölunefnd. Sömuleiðis heyra undir hana allar kærur og kröfur á hendur sveitarstjórnum og sýslumanni varðandi fjallskilamál. Ennfremur geta einstakir menn komið sér saman um að leggja slík ágreiningsmál undir úrskurð héraðsnefndar.
46. gr.
Brot gegn samþykkt þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum refsiheimildum. Mál, sem rísa út af brotum á samþykkt þessari, skal fara með að hætti opinberra mála.
Samþykkt þessi, sem héraðsnefnd Rangárvallasýslu hefur samið og samþykkt staðfestist hér með af landbúnaðarráðherra með vísun til 3. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld fjallskilasamþykkt fyrir Rangárvallasýslu, nr. 157, frá 22. mars 1990.
Landbúnaðarráðuneytinu, 27. júní 2007.
F. h. r.
Guðmundur B. Helgason.
Arnór Snæbjörnsson.
__________
B-deild – Útgáfud.: 12. júlí 2007