- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Samþykkt um hundahald
Samþykkt
Um hundahald í Rangárþingi eystra
1. gr.
Hundahald í Rangárþingi eystra, að undanteknu hundahaldi þarfahunda á lögbýlum og hunda sem notaðir eru til leitar- og björgunarstarfa, svo og aðstoðarhunda blindra og fatlaðra, sætir þeim takmörkunum sem fram koma í samþykkt þessari. Fyrir hönd sveitarstjórnar annast eftirlitsmaður á hennar vegum framkvæmd og eftirlit samkvæmt samþykkt þessari í umboði og undir eftirliti Heilbrigðisnefndar Suðurlands.
Sveitarstjórn skal halda skrá yfir hunda sem veitt er leyfi fyrir, þar sem fram koma upplýsingar um hundinn og eiganda hans eða forráðamann. Skráin skal vera aðgengileg lögreglu, heilbrigðiseftirliti og dýraeftirlitsmanni, sé hann starfandi.
2. gr. Takmarkanir á hundahaldi
Sveitarstjórn er heimilt að veita lögráða einstaklingum sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu leyfi til hundahalds. Leyfið er bundið við nafn og heimilisfang viðkomandi og er ekki framseljanlegt. Leyfið er einnig bundið við þann hund sem það er gefið út fyrir. Tilkynna ber eigendaskipti og sækja um nýtt leyfi.
a. Skráning
Allir hundar skulu skráðir á skrifstofu Rangárþings eystra að Austurvegi 4 á Hvolsvelli. Þar fá eigendur gjaldskyldra hunda afhenta merkta plötu, sem jafnan skal vera í ól um háls hundsins. Hundur sem færður er til skráningar skal vera merktur með örmerki skv. reglugerð um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni nr. 1077/2004.
Skrá skal hund eigi síðar en mánuði eftir að hann er tekinn inn á heimili og hvolpa eigi síðar en þeir verða sex mánaða gamlir. Hundaeiganda ber að tilkynna skrifstofu um aðsetursskipti og dauða hunds innan mánaðar. Ræktun og sala hunda er háð ákvæðum reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni og leyfi Umhverfisstofnunar.
Við skráningu hunds skal greiða skráningargjald samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins í samræmi við 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eftir það er greitt árlegt leyfisgjald.
Ekki er leyfilegt að hafa fleiri en tvo hunda eldri en þriggja mánaða á sama heimili. Hægt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði í sérstökum tilfellum, svo sem ef hundar eru ræktaðir í atvinnuskyni sbr. reglugerð um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni nr. 1077/2004. Ef undanþága er veitt fyrir starfsemi hundaræktunar skal hún fara fyrir grenndarkynningu.
Ræktun hunda í atvinnuskyni er bönnuð í þéttbýli.
b. Gjald fyrir hundahald
Árlega skal sveitarsjóði greitt leyfisgjald fyrir þá hunda, sem leyfi er veitt fyrir. Gjaldið sem sveitarstjórn ákveður í sérstakri gjaldskrá skal renna til að standa straum af öllum kostnaði vegna hunda í þéttbýli og skal upphæð þess við það miðuð.
Gjaldið skal í fyrsta sinn greitt við skráningu hunds og síðan árlega. Gjalddagi er 1. október ár hvert. Í gjaldskrá skal einnig ákveðið handsömunargjald sbr. 3. gr í samþykkt þessari.
Við greiðslu leyfisgjalds ber leyfishafa að framvísa vottorði dýralæknis um að hundurinn hafi verið ormahreinsaður á undangengnum 12 mánuðum, en gjald fyrir ormahreinsun er innifalin í leyfisgjaldi.
Hafi leyfisgjald ekki verið greitt innan þriggja mánaða frá gjalddaga er heimilt að afturkalla leyfið og fjarlægja hundinn að undangenginni skriflegri viðvörun, sama gildir ef ormahreinsun hunda er ekki framkvæmd eftir settum reglum eða ef önnur ákvæði er varða samþykkt þessa, eru ekki virt.
c. Ábyrgðatrygging
Skylt er hundaeiganda að hafa hund sinn ábyrgðartryggðan hjá viðurkenndu tryggingafélagi.
Fyrir gjaldskylda hunda gerir sveitarfélagið heildarsamning við tryggingarfélag um slíka tryggingu. Iðgjald er innifalið í skráningargjaldi og síðan árlegu leyfisgjaldi.
d. Almennar skyldur hundaeigenda
Hundaeiganda ber að sjá til þess að hundur hans sæti ekki illri meðferð. Umhirða hunds skal vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni.
Hundur skal aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í taumi í fylgd með aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Hundaeigandi skal gæta þess, eftir því sem framast er unnt, að hundur hans valdi ekki óþrifum, hættu eða raski ró manna eða verði mönnum til óþæginda á neinn annan hátt.
Eigi er leyfilegt að hafa með sér hunda þó í taumi séu inn í opinberar stofnanir, skólahús, matvöruverslanir eða aðra þá staði sem um ræðir í fylgiskjali 3 í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002, matvælafyrirtæki, samkvæmt ákvæðum reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla nr. 522/1994 eða við vatnsveitur, vatnsból og verndarsvæði þeirra, brunna og sjóveitur.
e. Hundahald í fjöleignarhúsum
Um hundahald í fjöleignarhúsum fer samkvæmt 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þannig er skilyrði fyrir hundahaldi í fjöleignarhúsum þar sem inngangur er sameiginlegur að fyrir liggi skriflegt samþykki hlutaðeigandi íbúðareigenda við skráningu hundsins. Þegar íbúð umsækjanda hefur sérinngang, þótt um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsrými eða sameiginlega lóð, þá er veiting leyfis til hundahalds ekki háð samþykki annarra eigenda, enda er öll viðvera og/eða umferð hunds um slíkt rými stranglega bönnuð. Brot á því telst alvarlegt brot á samþykkt þessari og skilyrðum leyfisins og varðar sviptingu þess.
f. Hundahald í dreifbýli og hundar undanþegnir skráningar og leyfisgjaldi
Bændum á lögbýlum er heimilt að hafa þarfahunda án greiðslu leyfisgjalds svo og hundar sem notaðir eru til leitar- og björgunarstarfa svo og hundar sem að læknisráði eru notaðir til aðstoðar blindu fólki og fötluðu. Þá ber þó að skrá og leggja fram vottorð um að hundurinn sé ábyrgðartryggður, örmerktur og hreinsaður, allt á kostnað eiganda. Hundar á lögbýlum mega ganga frjálsir á landareign eigenda sinna. Að öðru leyti skulu slíkir hundar háðir ákvæðum þessarar samþykktar. Skylt er bændum á lögbýlum og eigendum hunda sem nefndir eru í 1. gr. hér að framan að sjá til þess að hundar þeirra séu ekki lausir á almannafæri innan þéttbýlis.
g. Bannaðar hundategundir
Pit Bull Terrier, Fila Brasileiro, Tosu Inu, Dogo Argentino, blendinga af fyrrtöldum tegundum, blendinga af úlfum og hundum, og aðrar þær tegundir sem hættulegar eða óæskilegar teljast af fenginni reynslu eða að mati sérfróðra aðila.
3. gr. Handsömun hunda
Hundar sem fangaðir eru skal færa í viðurkennda hundageymslu.
Hundar, sem ganga lausir utan húss í þéttbýli, skal handsama og færa til hundageymslu.
Sé ekki unnt að greina hver eigandinn er, með örmerki eða öðru skýru auðkenni, skal auglýsa eftir eiganda. Gefi sig ekki fram eigandi innan 7 sólarhringa frá birtingu auglýsingar er heimilt að láta lóga viðkomandi hundi án frekari fyrirvara.
Sé hundur merktur skal tilkynna eigenda ástæðu handsömunarinnar. Dýraeftirlitsmaður heldur skriflega skýrslu um ástæðu föngunar og ber eiganda að kvitta á sömu skýrslu þegar hundurinn er sóttur til dýraeftirlitsmanns. Ef eigandi hunds vitjar hans ekki innan 7 sólarhringa og gengst ekki við broti á samþykkt þessari, sé um slíkt að ræða er heimilt til að láta lóga hundinum að þeim tíma liðnum.
Eigandi hundar sem fluttur er í hundageymslu skal greiða handsömunar-, fóður- og vistunargjald skv. gjaldskrá um hundahald í viðkomandi sveitarfélagi áður en honum er afhentur hundurinn á ný. Sé hundur ekki örmerktur skal eigandi hans greiða fyrir örmerkingu og skráningu hundarins áður en hann er afhentur og fær gegn því beiðni sem nýta má hjá dýralækni til greiðslu fyrir örmerkingu.
Hunda, sem ráðast á menn eða skepnur, skal fjarlægja og lóga tafarlaust í samráði við dýralækni. Óski hunda-eigandi þess er honum þó heimilt að leita álits héraðsdýralæknis áður en ákvörðun um aflífun er tekin.
4. gr. Eftirlit og refsiviðurlög
Dýraeftirlitsmenn í umboði sveitarstjórnar, hafa eftirlit með hundum samkvæmt samþykkt þessari og skulu þessir aðilar tilkynna sveitarfélaginu um kærur sem þeim berast vegna meintra brota á samþykktinni.
Berist kærur vegna meintra brota á samþykktinni til lögreglu og heilbrigðisnefndar skulu þessir aðilar tilkynna það dýraeftirlitsmanni og sveitarstjórn.
Dýraeftirlitsmaður getur leitað aðstoðar lögreglu við framkvæmd starfa sinna, ef hundur er að mati eftirlitsmanns telst hættulegur umhverfi sínu og/eða vörsluaðili hundsins tálmar starfi eftirlitsmanns samkvæmt samþykkt þessari og almannahagsmunir og/eða heilbrigðissjónarmið valda því að nauðsynlegt er að leita atbeina lögreglu við að fjarlægja hund.
Með brot á samþykkt þessari skal fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum.
Við minniháttar brot á samþykkt þessari skal eigandi hundsins sæta skriflegri áminningu. Endurtekin eða alvarleg brot geta leitt til leyfissviptingar.
Leyfishafa er skylt að greiða kostnað sem leiðir af brotum á samþykkt þessari.
5. gr. Afturköllun leyfis
Sveitarstjórn er heimilt hvenær sem er að afturkalla leyfi fyrir einstökum hundum eða öll veitt leyfi, telji hún þess þörf. Um slíkar ákvarðanir skal gætt ákvæða stjórnsýslulaga.
6. gr. Lagagrundvöllur
Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir m.s.br. og öðlast gildi þegar við birtingu. Jafnframt fellur þá úr gildi eldri samþykkt nr. 261 um hundahald í sveitarfélaginu frá 24. júní 1985.
Samþykkt þessi tekur gildi 1. janúar 2013.
Samþykkt á fundi byggðarráðs Rangárþings eystra 28. júní 2012
Samþykkt um kattahald
Samþykkt um kattahald í Rangárþingi eystra
1. gr. Kattahald í Rangárþingi eystra sætir þeim takmörkunum sem fram koma í samþykkt þessari. Heilbrigðisnefnd Suðurlands fer með eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Fyrir hönd sveitarstjórnar annast eftirlitsmaður á hennar vegum framkvæmd og eftirlit samkvæmt samþykkt þessari í umboði og undir eftirliti heilbrigðisnefndar Suðurlands. Sveitarstjórn skal halda skrá yfir ketti sem veitt er leyfi fyrir, þar sem fram koma upplýsingar um köttinn og eiganda hans eða umráðamann. Skráin skal vera aðgengileg heilbrigðisnefnd og dýra-eftirlitsmanni, sé hann starfandi.
2. gr. Um kattahald í dreifbýli.
Kattahald í dreifbýli sætir að öllu jöfnu ekki takmörkunum. Þó getur sveitarstjórn, telji hún og héraðsdýralæknir brýna þörf á, takmarkað kattahald í dreifbýli. Sveitarstjórn er heimilt að beita ákvæðum samþykktar þessarar um kattahald í dreifbýli valdi viðkomandi kettir áreiti eða ónæði og telji héraðsdýralæknir eða dýraeftirlitsmaður þörf á.
3. gr. Um kattahald í þéttbýli.
Sveitarstjórn er heimilt að veita lögráða einstaklingum, sem búa í þéttbýli í sveitarfélaginu leyfi til kattahalds. Leyfið er bundið við nafn og heimilisfang viðkomandi einstaklings og óheimilt að framselja það. Leyfið er einnig bundið við þann kött sem sótt er um heimild fyrir hverju sinni. Ef köttur drepst eða er fluttur af svæðinu ber að tilkynna það. Ef eigendaskipti verða á ketti þarf að tilkynna það og sækja um nýtt leyfi fyrir köttinn.
a. Eigendum katta ber að sækja um leyfi vegna kattahalds og að láta skrá ketti sína á skrifstofu Rangárþings eystra. Eigendur eða umráðamenn katta skulu merkja ketti sína í þéttbýli með hálsól með bjöllu og annaðhvort húðflúri í eyra eða örmerkingu, þar sem fram koma upplýsingar um skráningarnúmer kattar og símanúmer eiganda. Eigandi eða umráðamaður greiðir allan kostnað vegna skráningar og merkingar kattar síns.
b.Við skráningu skal eigandi/umráðamaður framvísa vottorði frá dýralækni um örmerkingu eða húðflúrmerkingu, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni.
c.Ketti skal ormahreinsa og bólusetja reglulega skv. leiðbeiningum dýralækna. Skylt er að ormahreinsa alla ketti fjögurra mánaða og eldri. Eigendur skulu halda til haga vottorðum um reglulega ormahreinsun katta.
d.Skilyrði fyrir kattahaldi í fjöleignarhúsum, ef um sameiginlegan inngang eða stigagang er að ræða, er að skriflegt samþykki sameigenda fjöleignarhúsa, sbr. ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, liggi fyrir og skal leggja það fram við skráningu kattarins.
e.Umhirða katta skal vera í samræmi við lög nr. 15/1994 um dýravernd og ákvæði reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni.
f.Kattareiganda er skylt að gæta þess að köttur hans valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna. Leyfishafa ber að greiða það tjón sem köttur hans veldur, svo og allan kostnað við að fjarlægja dýrið gerist þess þörf.
g.Óheimilt er að láta kött dvelja lengur en þrjá mánuði á heimili án þess að sótt sé um leyfi fyrir hann. Það fríar þó eiganda ekki ábyrgð á því tjóni sem kötturinn kann að valda meðan hann er óskráður.
h.Ekki er leyfilegt að hafa fleiri en tvo ketti eldri en þriggja mánaða á sama heimili. Hægt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði í sérstökum tilfellum, svo sem ef kettir eru ræktaðir í atvinnuskyni, sbr. reglugerð nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni.
i.Gelda skal alla fressketti sex mánaða og eldri sem ganga lausir utan dyra.
j.Leyfishafar skulu taka tillit til fuglalífs og ber að sjá til þess að kettir séu innandyra á nóttinni frá og með 20. apríl til 20. júlí.
4. gr. Óheimilir staðir.
Óheimilt er að hafa ketti í opinberum stofnunum, skólahúsum, matvöruverslunum, vatnsveitum, vatnsbólum og verndarsvæðum þeirra, brunnum og sjóveitum eða öðrum þeim stöðum sem til-greindir eru í fylgiskjali 3 í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Einnig er óheimilt að hleypa köttum inn í húsnæði matvælafyrirtækja, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, og inn í húsnæði vatnsveitna, sbr. reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn og reglugerð nr. 405/2004 um náttúrulegt ölkelduvatn og átappað lindarvatn.
5. gr. Handsömun katta.
Ef köttur hverfur frá heimili sínu skal eigandi eða umráðamaður gera ráðstafanir til að finna hann. Sveitarstjórn er heimilt að láta veiða ketti í búr í eftirfarandi tilfellum:
a.þegar köttur er ómerktur, hvort sem er án hálsólar og/eða varanlegs merkis
b.þegar ítrekað er kvartað undan ágangi katta á tilteknu svæði
c.þegar köttur er haldinn án samþykkis í fjöleignarhúsi.
Meiriháttar föngun villikatta í sveitarfélaginu skal auglýsa með a.m.k. sjö sólarhringa fyrirvara með tilmælum um að heimilisköttum sé haldið innandyra. Ketti sem fangaðir eru skal færa í viðurkennda kattageymslu. Ef ómerktur köttur er fangaður og ekki unnt að bera kennsl á hann skal auglýsa eftir eiganda hans. Gefi eigandi sig ekki fram innan sjö sólarhringa frá birtingu auglýsingar er heimilt að ráðstafa kettinum til nýs eiganda eða selja hann fyrir áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skal hann aflífaður eða honum ráðstafað til nýs eigenda. Sé kvartað undan ágangi katta í sveitarfélaginu er dýraeftirlitsmanni heimilt að veiða í búr og láta aflífa ómerkta ketti, sbr. ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 1077/2004, án þess að það sé auglýst sérstaklega. Ef merktur köttur sem lendir á flækingi er handsamaður af dýraeftirlitsmanni skal hann strax hafa samband við skráðan eiganda sem fær köttinn afhentan gegn greiðslu áfallins kostnaðar. Hafi eigandi kattarins ekki vitjað hans innan sjö sólarhringa og greitt áfallinn kostnað vegna handsömunar og vörslu dýrsins, skal dýrið aflífað. Kattareigandi skal greiða handsömunar-, vörslu-, fóður- og aflífunargjald, ef til þess kemur skv. gjaldskrá um kattahald í sveitarfélaginu.
6. gr. Dýraeftirlitsmaður.
Fyrir hönd sveitarstjórnar annast dýraeftirlitsmaður framkvæmd og eftirlit með kattahaldi í sveitarfélaginu Rangárþingi eystra. Dýraeftirlitsmaður starfar undir eftirliti og á ábyrgð heilbrigðis-nefndar við sín eftirlitsstörf. Eftirlitsmaður getur leitað aðstoðar lögreglu við framkvæmd starfa sinna, ef köttur er að mati eftirlitsmanns hættulegur umhverfi sínu og/eða vörsluaðili kattarins hindrar starf eftirlitsmanns samkvæmt samþykkt þessari og almannahagsmunir og/eða heilbrigðis-sjónarmið valda því að nauðsynlegt er að leita atbeina lögreglu við að fjarlægja dýrið.
7. gr. Gjaldtaka.
Greiða skal skráningargjald sem nemur sannanlegum kostnaði vegna skráningar kattarins. Leyfisgjald fyrir kattahald skal greiða árlega til sveitarfélagsins, eftir gjaldskrá sem sveitarstjórn setur að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar Suðurlands samkvæmt ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gjaldið skal ekki vera hærra en sem nemur rökstuddum kostnaði fyrir veitta þjónustu og eftirlit. Gjaldskrá skal birta í B-deild Stjórnartíðinda. Veittur er 15% afsláttur af leyfisgjaldi gegn framvísun vottorðs um ófrjósemisaðgerð hvort sem um er að ræða fress eða læðu. Gjald skal greitt í fyrsta sinn við skráningu kattar, og síðan árlega. Gjalddagi er 1. október ár hvert. Hafi gjaldið ekki verið greitt innan þriggja mánaða frá gjalddaga fellur leyfið sjálfkrafa úr gildi og heimilt er að fjarlægja köttinn að undangenginni skriflegri viðvörun. Innifalið í skráningargjaldinu er ormahreinsun og merkispjald. Eigandi dýrs ber kostnað af örmerkingu þess, hálsól með bjöllu o.þ.h.
8. gr. Þvingunarúrræði og viðurlög.
Um valdsvið og þvingunarúrræði vísast til VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng-unarvarnir. Við minniháttar brot á samþykkt þessari skal eigandi/leyfishafi kattarins sæta skriflegri áminn-ingu og gefinn hæfilegur frestur til úrbóta. Ef um ítrekað eða meiriháttar brot er að ræða gegn ákvæðum þessarar samþykktar eða öðrum reglum sem um kattahald gilda getur sveitarstjórn aftur-kallað leyfi og bannað viðkomandi að halda dýr og látið fjarlægja dýrið. Skal eigandi/leyfishafi þá afhenda dýrið dýraeftirlitsmanni. Sinni eigandi/leyfishafi samkvæmt samþykkt þessari ekki skriflegri áminningu eða brjóti endur-tekið af sér er sveitarstjórn heimilt að svipta hann leyfi til gæludýrahalds. Um brot gegn samþykkt þessari fer samkvæmt VIII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Um málskot fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
9. gr. Lagagrundvöllur.
Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 155/2006 um kattahald í Rangárþingi eystra.
Samþykkt í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu 15. mars 2013