Á fundi byggðarráðs Rangárþings eystra þann 1. október 2015 var ákveðið að fara í framkvæmdir á sparkvellinum árið 2016. Íþrótta- og æskulýðsfulltrúa var falið að sjá um framkvæmd verksins. Ástæða þessara framkvæmda er umræða um skaðsemi gúmmíkurls á sparkvöllum landsins. Þessi umræða hefur skotið upp kollinum frá árinu 2005 þegar fyrstu vellirnir voru lagðir. Frá þeim tíma hafa margar rannsóknir verið gerðar á skaðsemi gúmmíkurlsins en ennþá hefur engin þeirra sýnt fram á skaðsemi þess.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur samt sem áður ákveðið láta börnin og notendur sparkvallarins njóta vafans og gert ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun.

Nokkrir möguleikar eru í boði. Einn möguleikinn er að skipta um gúmmíkurlinu fyrir annað sem talið er umhverfisvænna. Annar möguleikinn er að skipta um gras og setja setja nýtt gervigras með sandi í stað gúmmí. Þriðji möguleikinn er sá að vera með gervigras þar sem hvorki er gúmmí kurl né sandur.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað verður fyrir valinu en framkvæmdir munu hefjast þegar frost er farið úr jörðu og skólanum er lokið. Sparkvöllurinn á Hvolsvelli var tekinn í notkun árið 2005 og við erum að meta það hvort við þurfum að skipta alveg um gras eða hvort nóg sé að skipta um gúmmí. Þess má geta að á síðustu fjórum árum hefur völlurinn tvisvar sinnum verið verið hreinsaður og gúmmíi bætt á völlinn. Það gúmmí er umhverfisvottað. 

Ólafur Örn Oddsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.


 

Myndin er tekin frá vígslu sparkvallarins á Hvolsvelli í desember 2005.