Jenný safnar fyrir Nepal á Hvolsvelli föstudaginn 8. maí klukkan 13-19
Jenný Zaremba er búin að vera á Íslandi í fjögur ár og unnið á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli í þrjú ár. Jenný eignaðist vin í Þýskalandi sem er frá Nepal og árið 2010 bauð fjölskylda hans í Nepal henni í heimsókn og dvaldi hún hjá þeim í þrjá mánuði. Hún kynntist fjölskyldunni hans mjög vel og hefur haldið góðu sambandi við þau alla tíð frá heimsókn hennar. Eftir jarðskjálftann sem var þann 24 apríl síðast liðinn hefur fjölskyldan búið í garðinum sínum af ótta við að húsið þeirra hrynji. Auk þeirra býr fleira af vinum þeirra og ættingjum í garðinum og allir hjálpast að við að gera lífið bærilegt við erfiðar aðstæður.
Jenný á einnig annan vin sem býr í Kathmandu en hann missti allt sitt í jarðskjálftanum og býr við mjög erfiðar aðstæður.
Jenný vill aðstoða íbúa í Nepal og stendur fyrir söfnun fyrir Nepal föstudaginn 8. maí í A sumarhúsinu sem er í miðbæ Hvolsvallar frá klukkan 13.00 – 19:00.
Jenný hefur undirbúið kökubasarinn og tombóluna með aðstoð vinnufélaga sinna og vina í sveitarfélaginu. Allur ágóði fer til samtakanna https://www.betterplace.org/en en vinur hennar sem hún kynntist í Þýskalandi starfar fyrir þau samtök í dag. Um er að ræða þýsk hjálparsamtök sem eru mjög virt í þýskalandi og víðar.
Þeir sem vilja leggja málefninu lið, með því að baka köku eða koma með muni á tombóluna, geta haft samband við Jenný í síma 7769118. Allir velkomnir og hjálpumst að við að koma aðstoð frá Rangárþingi eystra til Nepal.