Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 13. mars 2025.

Að venju stikla ég hér á stóru um nokkur af þeim helstu verkefnum sem við hjá Rangárþingi eystra og aðrir í sveitarfélaginu okkar höfum verið að fást við að undanförnu.

 

Fundur sveitarfélaga í Rangárvallasýslu með HSU

Þann 20. febrúar var haldinn sameiginlegur fundur sveitarfélaga í Rangárvallasýslu með forsvarsmönnum HSU, en fundurinn var haldinn til að upplýsa um stöðu mála varðandi mönnun lækna í Rangárvallasýslu. Fram kom á fundinum að búið er að manna með 2-3 læknum út ágúst. 2 norskir læknar skipta með sér einu stöðugildi og þá er gert ráð fyrir að einn norskur læknir bætist við í sumar. Upplýst var um að túlkaþjónustu yrði sinnt eins og hægt væri, bæði af hálfu starfsfólks og með sértúlkun þegar svo bæri undir. Áfram verða íslenskir verktakalæknar að störfum. Ekki hefur enn gengið að ráða yfirlækni eða lækna í fastar stöður á starfssvæði HSU í Rangárþingi en áfram verður haldið að auglýsa eftir þeim. Sveitarstjórnir í Rangárvallasýslu munu eftir sem áður gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að heilbrigðisþjónusta í sýslunni sé til staðar og að hún sé til fyrimyndar. Sameiginleg ályktun sveitarfélaganna til heilbrigðisráðherra hefur verið send og einnig hefur sveitarstjórn Rangárþings eystra óskað eftir fundi með ráðherra.

 

Undirritun kjarasamninga KÍ og sveitarfélaga

Það voru mikil gleðitíðindi sem bárust þegar undirritaður var kjarasamningur milli samninganefndar sveitarfélaga, ríkis og Kennarasambands Íslands. Eins og öllum er kunnugt um stóðu viðræður milli aðila yfir í langan tíma og talsvert hart tekist á, á köflum. Kjarasamningurinn er gerður á grundvelli kjarasamninga sem undirritaðir voru á almennum vinnumarkaði vorið 2024 sem og kjarasamninga sem gerðir hafa verið á opinberum vinnumarkaði. Samningurinn mun hafa einhver áhrif á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins en ekki liggur ljóst fyrir nú þegar hver þau áhrif verða. Sveitarfélagið er vel í stakk búið til að bregðast við þeim áhrifum, en fyrst og fremst ber að fagna því að samningar náðust sem báðir aðilar gátu sætt sig við.

 

Opnunarhátíð Náttúruverndarstofnunar á Hvolsvelli

Þann 27. febrúar var haldin opnunarhátíð Náttúruverndarstofnunar á Hvolsvelli. Stofnunin tók formlega til starfa þann 1. janúar 2025 og er starfsemi hennar vítt og breitt um landið, en höfuðstöðvar hennar eru hér í Ráðhúsinu okkar á Hvolsvelli. Sveitarstjórn Rangárþings eystra og sveitarstjórnir á landsbyggðinni heilt yfir hafa ötullega talað fyrir því að störf og stofnanir séu fluttar út á land í nálægð við verkefnin sem þau sinna og þar með styrkja stoðir búsetu á landsbyggðinni. Við í Rangárþingi eystra þökkum af heilum hug fyrir það að litið hafi verið til okkar við undirbúning og ákvarðanatöku um höfuðstöðvar Náttúruverndarstofnunar og teljum það sýna glöggt að innviðir okkar eru sterkir og samfélagið okkar tilbúið að taka á móti góðu fólki sem hér vill setjast að. Svona til að setja hlutina aðeins í samhengi og hversu mikilvægt það er fyrir sveitarfélag eins og Rangárþing eystra að fá höfuðstöðvar Náttúruverndarstofnunar á Hvolsvöll getum við leikið okkur aðeins að tölum. Ef við gerum t.d. ráð fyrir því að stöðugildi stofnunarinnar í Rangárþingi eystra verði fjögur árið 2025, samsvarar það miðað við íbúafjölda að stofnun með 268 starfsmenn tæki til starfa í Reykjavík, já og þá er ég bara að tala um Reykjavík, ekki höfuðborgarsvæðið í heild sinni. Það gefur því augaleið að þetta er fyrir okkur virkilega stórt mál. Hér verða til góð og mikilvæg störf sem krefjast menntunar og opnar það því mikla möguleika fyrir unga fólkið okkar sem hefur flutt að heiman til að mennta sig, til að flytja aftur heim í sína sveit, búa og starfa til framtíðar. Því jú, það er hvergi betra að búa en akkúrat hér í Rangárþingi eystra. Með tilkomu Náttúruverndarstofnunar á Hvolsvelli fjölgar eggjum í okkar körfu og styrkir stoðir samfélagsins.

 

Formleg opnun VISS í Örkinni

Formleg opnunarhátíð VISS vinnustaðarins okkar í Örkinni var haldin þann 13. febrúar. Hátíðin var einkar glæsileg og sótt af fjölda fólks til að fagna nýjum heimkynnum VISS með starfsfólki og leiðbeinendum. Það er frábært að sjá hversu vel starfsemi VISS blómstrar í Örkinni og hversu vel hefur tekist að útfæra húsnæðið undir starfsemina. Það er ekki langt síðan starfsemin opnaði í fyrsta skipti hér á Hvolsvelli, þá í gamla matsal Kirkjuhvols. Þótti sumum það ansi bratt og töldu litla sem enga þörf fyrir slíkan vinnustað í okkar samfélagi. Það er ánægjulegt að þær raddir voru svo sannarlega ekki sannar, því starfsemin hefur blómstrað og sprengdi loks utan af sér húsakostinn á Kirkjuhvoli. Nú eru starfsmenn VISS 11 talsins og starfa þar einnig þrír leiðbeinendur í 1,73 stöðugildum. Nú í febrúar var óskað eftir því við stjórn Bergrisans bs. að ráða inn fjórða leiðbeinandann í 0,55 stöðugildi vegna aukinnar þjónustuþyngdar á vinnustaðnum og fjölgunar starfsmanna. Stjórnin samþykkti beiðnina og starfa því hjá VISS á Hvolsvelli nú fjórir leiðbeinendur í 2,28 stöðugildum. Það er von mín að vinnustaðurinn haldi áfram að vaxa og dafna og hvet ég alla íbúa til að kíkja á VISS og sjá með eigin augum það frábæra starf sem þar er sinnt, samfélaginu okkar til mikils framdráttar.

 

Fundur með ÍSOR

Sveitarstjóri og formaður skipulags- og umhverfisnefndar funduðu á dögunum með nokkrum sérfræðingum ÍSOR (íslenskra orkurannsókna) þar sem fundarefnið var grunnvatn og grunnvatnsstraumar í Rangárþingi eystra. Um virkilega fróðlegan fund var að ræða. Grunnvatn og grunnvatnsstraumar gætu orðið mikilvæg auðlind í framtíðinni. Lítið er vitað um stöðu grunnvatns á undirlendi Rangárþings eystra og fáar borholur á stóru svæði sem gætu gefið einhverja mynd um þá auðlind sem þarna gæti leynst. Það sem helst væri horft til, til framtíðar, væri hvort möguleiki væri á því að nýta þetta grunnvatn til einhvers konar uppbyggingar t.d. fiskeldis eða jafnvel til orkuöflunar fyrir varmadælur, ásamt fleiri mögulegum þáttum. En allt er það háð hinum ýmsu breytum, t.d. varðandi gæði vatnsins, efnainnihalds, magns og hitastigs. Þessar upplýsingar liggja hins vegar ekki fyrir í dag en ljóst er að í framtíðinni gætu þarna leynst talsverðar auðlindir fyrir okkur hér í Rangárþingi eystra. Niðurstaða fundarins var sú að minnisblað yrði unnið um það sem vitað er og stillt upp áætlun um hvað þyrfti til, til að afla frekari upplýsinga.

 

Að lokum

Það styttist óðum í vorið og veðurblíðan undanfarin misseri gefur góð fyrirheit um það sem koma skal. Í það minnsta þá vonum við það. Njótum þessara fallegu daga í leik og starfi, það eru alltaf spennandi tímar fram undan í Rangárþingi eystra.

 

 

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.