Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 26. mars sl. breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hvolsvallar.

Breytingar á deiliskipulaginu hljóða upp á að eldra deiliskipulag, þar sem gert var ráð fyrir verslunar- og þjónustueiningum í miðbænum, verði fellt úr gildi og nýtt skipulag, þar sem bygging lúxushótels var samþykkt.

Nýja hótelið verður 28 herbergja hótel á fjórum hæðum með þyrlupalli á þaki. Björgvin Örn Þórólfsson fer fyrir fjárfestum sem standa á bak við byggingu hótelsins en það eru sömu aðilar og hafa tekið þátt í mikilli uppbyggingu í ferðaþjónustu á bæði Raufarhöfn og Þórshöfn síðustu ár. Björgvin segir að mikil spenna sé fyrir verkefninu, þetta sé fyrsta verkefni hópsins á Suðurlandi og mikil tilhlökkun sé að sjá hvernig tekið verði í verkefnið. ,,Það er ljóst að það er vöntun á hótelherbergjum á Suðurlandi, ásókn á svæðið er mikil og fjölbreytni gististaða ekki í samræmi við það. Við hlökkum til að takast á við þetta verkefni og opna glæsilegt hótel í hjarta Hvolsvallar,“ segir Björgvin. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á næstu vikum og að hægt verði að taka á móti fyrstu gestum vorið 2026.

Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri segist einnig vera spenntur fyrir því að loksins sé að hefjast uppbygging á miðbæjarsvæðinu á Hvolsvelli. ,,Uppbygging svæðisins hefur tafist og það er fagnaðarefni að komnir séu fjárfestar með stórar hugmyndir sem geta hafist handa strax. Það hefur verið ljóst í töluverðan tíma að gistipláss á Hvolsvelli nær ekki að anna eftirspurn yfir mesta ferðamannatímabilið og því er það mikið fagnaðarefni að fá nýtt glæsilegt lúxushótel í miðbæ Hvolsvallar.“

Nýtt deiliskipulag á miðbæ Hvolsvallar verður til sýnis á skrifstofu Rangárþings eystra á opnunartíma skrifstofu en þar að auki mun skipulags- og byggingarfulltrúi halda íbúafund þar sem farið verður ítarlega í nýtt deiliskipulag á næstu vikum.