- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Miklar og ánægjulegar breytingar urðu nýlega á þjónustu við börn með málþroskafrávik á þjónustusvæði Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.
Heilbrigðisráðherra undirritaði í sumar rammasamning um talmeinaþjónustu á milli Sjúkratrygginga Íslands og sveitarfélaga eða stofnana þeirra. Samningurinn gerir sveitarfélögum nú kleift að ráða talmeinafræðinga sem sinna, auk greininga og ráðgjafar, einnig mál- og talþjálfun leik- og grunnskólabarna. Þetta fyrirkomulag er sérstaklega hugsað til þess að mæta þörf fyrir talmeinaþjónustu víðs vegar um landið þar sem aðgengi að slíkri þjónustu hefur verið stopult.
Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu gerði í framhaldinu, fyrst skólaþjónusta á landinu, samning við Sjúkratryggingarnar um kostnaðarþátt-töku ríkisins í mál- og talþjálfun leik- og grunnskólabarna. Fram til þessa höfðu Sjúkratryggingarnar eingöngu gert slíka samninga við sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga en ekki við sveitarfélög sem réðu til sín talmeinafræðinga.
Vinna við málið fór af stað í upphafi ársins og naut skólaþjónustan mikils og góðs liðsinnis starfsmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga, en uppfylla þurfti ákveðin skilyrði til að mögulegt væri að fá aðild að samningnum.
Þjónustusvæði Skólaþjónustunnar nær yfir sveitarfélögin fimm frá Þjórsá í vestri og að Lómagnúp í austri, Ásahrepp, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp. Á svæðinu eru 10 skólar; fimm leikskólar og fimm grunnskólar, með samtals rúmlega 750 nemendur.
Talmeinaþjónusta við börn á svæðinu, með alvarlegan málþroskavanda, hefur til skamms tíma verið lítil. Samkvæmt lögum um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla hefur sérfræðiþjónustan séð um greiningar á málþroskavanda barna og ráðgjöf í framhaldinu til foreldra og starfsfólks skólanna. Ekki var boðið upp á mál- og talþjálfun á vegum sérfræðiþjónustunnar og hér var heldur enginn sjálfstætt starfandi talmeinafræðingur sem hægt var að leita til með börn sem þurftu á slíkri þjálfun að halda. Undantekning frá þessu var að um eins árs skeið réðu sveitarfélögin þrjú í Rangárvallasýslu til sín sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga í verktöku sem sinntu alvarlegustu málunum.
Foreldrar þurftu því í langflestum tilvikum að sækja mál- og talþjálfun fyrir börn sín á Reykjavíkursvæðið. Langt frá því allir foreldrar höfðu tök á því, bæði vegna mikilla vegalengda og eins vegna umtalsverðs kostnaðar og vinnutaps. Fullyrða má að mörg börn með alvarlegan málþroskavanda hafi alls ekki fengið þá þjónustu og þjálfun sem þau sannarlega hefðu þurft.
Þann 1. ágúst 2014 var nýútskrifaður talmeinafræðingur, Sigríður Arndís Þórðardóttir, ráðinn til starfa hjá Skólaþjónustunni í 100% starf. Samkvæmt ákvörðun stjórnar Byggðasamlags um félags- og skólaþjónustu var ákveðið að verkefni talmeinafræðingsins yrðu, auk lögbundinna greininga og ráðgjafar, einnig þjálfun, bæði barna sem falla undir verksvið sveitarfélaga samkvæmt samningi Sambands sveitarfélaga og Velferðarráðuneytisins (frá því í júni 2014, um verkaskiptingu þeirra aðila vegna barna með málþroskavanda), en einnig barna með alvarlegri vanda sem eiga að fá þjálfun með kostnaðarþátttöku ríkisins.
Talmeinafræðingur Skólaþjónustunnar fer nú reglulega í alla leik- og grunn-skólana á svæðinu, gerir greiningar og veitir þjálfun innan skólanna á skólatíma, þeim börnum sem á þurfa að halda. Foreldrar greiða sérstakt foreldragjald, sem er ákveðinn hluti kostnaðar við þjálfunina (23%), samkvæmt gjaldskrá sem Sjúkratryggingarnar gefa út.
Hér er um algjöra byltingu að ræða í þjónustu við börn og foreldra á þessu sviði. Nú fá öll leik- og grunnskólabörn, sem á þurfa að halda, fulla þjónustu talmeinafræðings í sínum heimaskóla burtséð frá búsetu eða öðrum ytri að-stæðum. Mikil og almenn ánægja er með þessa breyttu og bættu þjónustu hjá þeim sem hún varðar, bæði foreldrum og skólafólki.
Edda G. Antonsdóttir forstöðumaður og kennsluráðgjafi hjá Skólaþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu vann samninginn fyrir hönd Skólaþjónustunnar.
Á myndinn er Edda G. Antonsdóttir forstöðumaður Skólaþjónustunnar
Á myndinni er Sigríður Arndís Þórðardóttir talmeinafræðingur