Stofnfundur Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti verður haldinn klukkan 14.00 laugardaginn 21. febrúar í Goðalandi í Fljótshlíð. Fundurinn er opinn öllum sem vilja gerast stofnfélagar. Tilgangur félagsins er að styðja við endurgerð gamla bæjarins í Múlakoti.

Á fundinum verða samþykktir félagsins kynntar og bornar undir atkvæði og kosin stjórn félagsins auk skoðunarmanna.

Sigurður Sigurðarson dýralæknir og frú Margrét Ísleifsdóttir Hvolsvelli flytja ávörp.

Greint verður frá höfðinglegri gjöf sem borist hefur.

Hinn 8. nóvember 2014 var ritað undir samkomulag um sjálfseignarstofnunina Gamli bærinn í Múlakoti í Fljótshlíð. Hlutverk stofnunarinnar er að tryggja eftir mætti varðveislu menningarminja og minjalandslags í Múlakoti. Um er að ræða bæjarhúsin sem risu árin 1897 til 1946 og innbú þeirra, rústir hesthúss, hlöðu og súrheysturns, málarastofu og verkstæði Ólafs Túbals, lystigarð Guðbjargar Þorleifsdóttur og lysthús auk annarra rústa sem tilheyra bæjarkjarnanum. Aðild að sjálfseignarstofnuninni eiga sveitarfélagið Rangaárþing eystra, Byggðasafnið á Skógum og eigendur Múlakots, Sigríður Hjartar og Stefán Guðbergsson.

Á málstofu sem haldin var í tilefni undirritunar samkomulagsins var boðað að stofnað yrði Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti.

 

Tilgangur vinafélagsins er að styðja sjálfseignarstofnunina Gamli bærinn í Múlakoti til að endurbæta, varðveita og sjá um rekstur gamla bæjarins í Múlakoti á þann veg að sem mest starfsemi geti farið fram í húsinu og tengdum mannvirkjum  til að standa undir rekstrarkostnaði. Þá skal stefnt að því að komið verði fyrir í húsinu myndum og munum sem tengjast sérstaklega sögu hússins og e.t.v. fleiru sem vel þykir fara innan húss og utan.

Fjár til starfseminnar skal afla með félagsgjöldum og frjálsum framlögum félagsmanna ásamt styrkjum frá opinberum aðilum.

Félagar geta orðið einstaklingar, fyrirtæki, félög, stofnanir og sveitarfélög sem leggja því lið að varðveita og reka gamla bæinn í Múlakoti samkvæmt skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar Gamli bærinn í Múlakoti.