Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti samhljóða á síðasta fundi sínum að styrkja útgáfu á ljóðamálum Helgu Pálsdóttur á Grjótá í Fljótshlíð. Styrkupphæðin er kr. 100.000-. 

Helga orti um sveitina sína og ófá erfiljóð samdi hún um sveitunga sína. Bókinni fylgir bæði formáli og eftirmáli auk viðtals sem Þórður Tómasson í Skógum tók við Helgu. Þar segir hún frá horfnum heimi Fljótshlíðarinnar en Helga var á yngri árum seljastúlka og sat yfir ám og vann við að breyta mjólk í mat. 
Ásta Þorbjörnsdóttir bóndi á Grjótá safnaði saman ljóðum Helgu og ýtti útgáfunni úr vör. Hún ritstýrir einnig bókinni ásamt Hörpu Rún Kristjánsdóttur frá Hólum á Rangárvöllum sem nú á vormánuðum lýkur námi í bókmenntafræði við Háskóla Íslands.
Helga Pálsdóttir á Grjótá í Fljótshlíð, var fædd að Arngeirsstöðum í sömu sveit, 27. apríl 1877. Þegar hún var átta ára gömul flyst hún að Tungukoti, sem var lítið kot í Arngeirsstaðalandi. Frá 17 ára aldri fór hún að vinna fyrir sér. Lengst af var hún á Grjótá, einnig um tíma vinnukona í Teigi og Litla-Kollabæ og árið1959 lá leiðin aftur að Grjótá, þar sem hún var búsett til æviloka.
Helga ólst upp í sárri fátækt og var skólaganga hennar aðeins örfáar vikur við erfiðar aðstæður. Þess má geta að kennslan fór fram í kirkjunni í Teigi. Börnin lágu á hnjánum á gólfinu og kirkjubekkirnir nýttir sem skólaborð, slíkur var oft kuldinn í kirkjunni að blekið fraus í byttunum. Stutt skólaganga, kom ekki í veg fyrir að Helga náði fljótt einstökum tökum á móðurmálinu, eins og sjá má á ljóðagerð hennar.
Eftir hana liggur allmikið ljóðasafn um margvíslegt efni. Hún orti mikið af erfiljóðum fyrir og í orðastað vina og sveitunga sinna. Lítið hefur birst eftir hana á prenti, hún á þó ljóð í bókunum: Ljóð Rangæinga, Vængjatök- hugverk Sunnlenskra kvenna og í Goðasteini.
Þess má einnig geta hér að Helga vann sér frægðarorð fyrir hagleik og listfengi í tóvinnu, kembdi og spann af mikilli list, hárfínt band, sem tvinni væri. Heklaði og prjónaði úr því fram í háa elli. Féll aldrei verk úr hendi.
Helga giftist ekki og var barnlaus. Alla tíð vann hún öðrum af óeigingirni og mikilli samviskusemi. Helga lést 1. janúar 1973.
Þeir sem vilja eignast eintak af bókinni eða styrkja útgáfu hennar geta haft samband við Ástu Þorbjörnsdóttur bónda á Grjótá (grjota@simnet.is).