- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
• Sveitarfélögin vilja ítreka nauðsyn þess að framlögð gögn varðandi rammaskipulag Suðurhálendis, sem staðfest var af tilteknum sveitarfélögum í mars árið 2014, verði innleidd í stefnumarkandi umræður um miðhálendið og gerir athugasemdir við að það skyldi ekki hafa verið gert á fyrri stigum ferilsins við gerð tillögu að landsskipulagsstefnu. Benda má á að skv. 11. gr. skipulagslaga nr.123/2010 „skal Skipulagsstofnun hafa samráð við þau sveitarfélög sem kunna að þurfa að gera breytingar á skipulagsáætlunum sínum vegna landsskipulagsstefnunnar“ Það skal tekið fram að stefna rammaskipulags fyrir Suðurhálendið var grundvöllur áformaðra breytinga á aðalskipulagi tiltekinna sveitarfélaga. Afar lítið virðist hafa verið tekið tillit til áherslna í framlagðri stefnu um Suðurhálendið en ákveðið frekar að færa áherslur gildandi Svæðisskipulags Miðhálendisins yfir í Landsskipulagsstefnuna, vitandi þó, að áherslur í Svæðisskipulagi Miðhálendisins eru frekar orðnar úr sér gengnar sökum breyttra forsendna á hálendinu og að litlar sem engar breytingar hafa verið gerðar á Svæðisskipulagi Miðhálendisins síðan það öðlaðist fyrst gildi. Einnig vilja sveitarfélögin vekja athygli á því að skv. 10. gr. skipulagslaga „Þá skal eftir því sem við á hafa svæðis- og aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaga til hliðsjónar“ við vinnslu Landsskipulagsstefnu. Ekki verður séð á tillögunni með hvaða hætti eða hvort yfir höfuð það hafi verið gert við vinnslu hennar.
• Sveitarfélögin benda á nauðsyn þess að tillit sé tekið til nýtingar eignarréttar þeirra sem eiga beitarrétt og/eða veiðirétt á hálendinu á grundvelli úrskurða Óbyggðanefndar.
• Sveitarfélögin geta ekki unað því að Landgræðsla ríkisins verði leiðandi afl í Landsskipulagsstefnu og að áætlanir slíkra stofnana verði bindandi fyrir sveitarfélögin í ákvarðanatöku um landnýtingu. Bent er á, að nú þegar liggja fyrir samningar á milli bænda, landeigenda og annarra hagsmunaaðila við sveitarfélögin um verndun og nýtingu til að tryggð sé sjálfbærni til framtíðar.
• Sveitarfélögin vilja benda á að stefna um nýtingu annars vegar og verndun hins vegar þarf ekki að aðskilja og vinna í sitt hvoru lagi. Verndun og nýting geta alfarið virkað saman og oftar en ekki hefur nýtingin verið besta verndunin þegar upp hefur verið staðið.
• Varðandi áform um frekari flokkun landbúnaðarsvæða vilja sveitarfélögin benda á að nú þegar liggja fyrir margar skýrslur um slíkt, þar sem sveitarfélög, þar með talið Rangárþing eystra, hafa ákveðið skiptingu landbúnaðarsvæða í sínu skipulagi. Haft skuli samráð um tillögur til frekari flokkunar áður en öll vinnan sem unnin hefur verið og allt það fjármagn sem veitt hefur verið í flokkun svæða, verði eyðilagt.
• Sveitarfélögin vilja benda á að leiðandi stefna um þéttleika byggðar í dreifbýli hafi afar íþyngjandi áhrif á möguleika einstakra sveitarfélaga til að þróast og dafna. Það þurfi alfarið að vera í valdi hvers sveitarfélags að ákveða sína staði til uppbyggingar á þjónustu og búsetu. Mikil lífsgæði geta verið fólgin í búsetu í dreifbýli og í mörgum tilfellum er það ekki íþyngjandi fyrir rekstur sveitarfélagana og býður upp á mikinn fjölbreytileika.
• Sveitarfélögin taka heilshugar undir þær athugasemdir sem koma fram í umsögn Sambands Íslenskra sveitarfélaga um Landsskipulagsstefnu dags. 29. janúar 2015.
F.h. Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Skaftárhrepp
Anton Kári Halldórsson