Umsókn í Umhverfissjóð Íslenskra Fjallaleiðsögumanna
11.03.2016
Í ört vaxandi ferðaþjónustu á Íslandi þarf að sýna ábyrgð og huga að því hvernig hægt sé að lágmarka umhverfisspor greinarinnar. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn stofnuðu á 20 ára afmæli sínu Umhverfisjóð til að fjármagna verndun íslenskrar náttúru. Þannig vill fyrirtækið stuðla að því að komandi kynslóðir, geti notið gæða hennar um ókomin ár.
Umhverfissjóður Íslenskra Fjallaleiðsögumanna veitir styrki á tveggja ára fresti til verndunar náttúru Íslands.
Tilteknum hluta styrkjanna er úthlutað verkefni tengdu gönguleiðinni frá Landmannalaugum til Skóga því gestir okkar sem ferðast um þá leið greiða sérstakt umhverfisálag. Einnig er hægt að sækja um verkefni á öðrum stöðum á landinu til uppbyggingar, viðhalds og endurbóta mannvirkja, stígagerð og uppgræðslu.
Leitast skal við að uppbygging sé í stíl við íslenskar hefðir og falli vel að umhverfinu.
Hverjir eru styrkhæfir:
Fyrirtæki, einstaklingar, eignarhaldsfélög, félagasamtök, sveitarfélög og opinberar stofnanir geta fengið framlög frá sjóðnum. Umsóknaraðilar geta einnig verið samstarf nokkurra aðila.
Takmarkanir á styrkveitingum:
Sjóðnum er ekki heimilt að;
1.Bera rekstrarkostnað mannvirkja eða svæða.
2.Styrkja rekstur ferðamannastaða.
3.Veita fjármagni til verkefna sem er lokið.
Gögn sem þurfa að fylgja umsóknum
1.Tilgreina þarf markmið verkefnis.
2.Áætlun um fjármögnun á verkefninu.
3.Samþykki landeiganda og/eða viðkomandi yfirvalda fyrir framkvæmdum.
4.Greinargóð lýsing á verkefni, staðsetning á korti og/eða myndir.
5.Skila skal inn myndum af svæði og staðsetningu þess með GPS hnitum.
Ef umsókn fylgja ekki umbeðin gögn, telst umsóknin ekki gild.
Hámark styrkveitingar:
Til úthlutunar í ár eru: 1.500.000 kr.
Greiðsla styrkja:
Styrkur greiðist út í þrennu lagi. 30% greiðist út eftir undirskrift samnings, 40% eftir samþykkta framvinduskýrslu og 30% eftir að fullnægjandi lokaskýrsla og reikningar hafa borist styrkveitanda.
Verkefnislok:
Skila þarf inn skýrlsu við lok verkefnis með myndum tengdu verkefni og framkvæmd þess fyrir, á meðan og eftir að framkvæmdum lýkur auk afrita af öllum kvittunum vegna kostnaðar verkefnisins. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn áskilja sér allan rétt til þess að nýta gögn þessi í kynningarefni og á heimasíðum fyrirtækisins án þess að sérstök greiðsla komi fyrir myndefni.
Skil Umsókna:
Umsóknum skal skilað fyrir 10. april 2016 í tölvupósti á netfangið umhverfissjodur@fjallaleidsogumenn.is Þeim gögnum sem ekki er unnt að skila rafrænt má skila bréfleiðis til Umhverfisjóðs ÍFLM, Stórhöfða 33, 110 Reykjavík.
Úthlutað er úr sjóðnum fyrir 10. maí 2016.
Fyrri úthlutanir
2014 var í fyrsta skipti úthlutað úr Umhverfissjóðnum. Skógrækt ríkisins fékk styrk til að laga og fyrirbyggja frekari uppblástur á þeim hluta gönguleiðarinnar um Laugaveg sem liggur á milli Emstra og Þröngár.