Einu sinni á ári leggja nemendur og kennarar í leikskólanum Örk á Hvolsvelli niður allt hefðbundið starf og eru með vísindaviku. Kennarar útbúa ýmsar tilraunir með börnunum og fá þau að prófa og kanna eðli efna og hluta. Má þar nefna eldgos, búa til slím, kanna flothæfni hluta, sulla með raksápu og matarlit, búa til hvirfilbyl og margt fleira. Þetta er orðin skemmtileg hefð sem hefur skapast í leikskólanum, myndirnar tala sínu máli.