Fundargerð
17. fundur í Skipulagsnefnd Rangárþings eystra haldinn 
mánudaginn 24. febrúar 2014, kl. 15:00, Ormsvelli 1, Hvolsvelli.

Mætt: Guðlaug Ósk Svansdóttir, formaður nefndarinnar, Elvar Eyvindsson, Kristján Ólafsson, Guðmundur Ólafsson og Anton Kári Halldórsson skipulags- og byggingarfulltrúi. Þorsteinn Jónsson boðaði forföll og í hans stað er mættur Ísólfur Gylfi Pálmason.

Fundargerð ritaði Anton Kári Halldórsson

Efnisyfirlit:


SKIPULAGSMÁL:


1310016 Ytri-Skógar – Aðalskipulagsbreyting
1304018 Ytri-Skógar – Deiliskipulagsbreyting 
1301004 Aðalskipulag Rangárþings eystra 2012-2024


SKIPULAGSMÁL

1310016 Ytri-Skógar - Aðalskipulagsbreyting
Svæði S15 (Fossbúð og nágrenni) sem skilgreint er sem svæði fyrir þjónustustofnanir, verði breytt í svæði fyrir verslun og þjónustu (V5) og jafnframt stækkað til suðurs á kostnað opins svæðis til sérstakra nota. Aðrar breytingar verða ekki á landnotkun. Tillagan hefur áður verið samþykkt í skipulagsnefnd en vegna breytinga á afmörkun svæðisins er tillagan tekin fyrir að nýju.
Breyting frá áður samþykktri tillögu tekur til stækkunnar verslunar og þjónustusvæðis V5, úr 3,8 ha. í 4,9 ha. Skipulagsnefnd leggur til að sveitarstjórn samþykki tillöguna og eftir yfirferð Skipulagsstofnunar verði hún auglýst skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 
 


1304018 Ytri-Skógar – Deiliskipulagsbreyting
Helstu breytingar sem tillagan tekur til eru að lóð gamla barnaskólans er stækkuð til suðurs og byggingarreitur stækkaður. Gert er ráð fyrir nýrri lóð undir hótel/þjónustumiðstöð, sunnan við lóð gamla barnaskólans þar sem áður var gert ráð fyrir tjaldsvæði. Tvær ferðaþjónustulóðir sunnan við Fossbúð verða sameinaðar í eina og mun hún ná lengra til suðurs en áður. Hætt er við rútu- og bílastæði norðan og vestan við gamla barnaskólann og þau staðsett sunnan við skólann auk stæða austan við áætlað hótel og vestan við lóð fyrir ferðaþjónustu. Afmörkun tjaldsvæðis og allri þjónustu við það, auk bílastæða er færð að öllu leyti  sunnan við Fosstún.


Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði auglýst i samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin telur ekki ástæðu til meðferðar skv. 1. og 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem að allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagsbreytingu sem auglýst verður samhliða tillögunni. Samþykkt með tveimur atkvæðum. EE, GÓ og KÓ sátu hjá við afgreiðslu málsins.  


Bókun frá Elvari, Guðmundi og Kristjáni:
Í ljósi þess að Skógar eru einn áhugaverðasti ferðamannastaður landsins og þess að sveitarstjórn Rangárþings eystra og jarðareigendur hafa ekki gert sér fyllilega grein fyrir með hvaða hætti frekari uppbyggingu verður háttað á Skógum leggjum við til að Sveitarstjórn fresti ákvörðun um frekari úthlutun nýrra lóða á svæðinu.  Á gildandi skipulagi eru tvær lóðir sunnan við Fossbúð sem við bendum á og teljum við að sem málamiðlun megi bjóða upp á þann möguleika að þær verði sameinaðar. Jafnframt leggjum við til að hugmyndum um frekari stækkun lóðar við Farfuglaheimilið í Skógum verði frestað.  Nauðsynlegt er að gerðir verið fyrirvarar við væntanlega framkvæmdaraðila um útlit og gerð, sem og að- og fráveitur, bílastæði o.þ.h.  Ekki er verjandi að sveitarfélagið leggi fjármuni í þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru nema að tryggt sé með hvaða hætti þær standa undir sér.


Víðast hvar í heiminum er þróunin sú að þjónusta og mannvirki eru sett fjær náttúruperlum en við höfum gert.  Er það gert til að þær njóti sín sem allra best í ósnortnu umhverfi, en ósnortin náttúra er aðalsmerki okkar.  Á Skógum má segja að orðið hafi ákveðið skipulagsslys sem erfitt er að taka til baka, en við teljum að óþarfi sé að bæta í það frekar.
Það er því skoðun undirritaðra að ekki sé skynsamlegt að samþykkja hugmyndir Skóga fasteignafélags, um hótelbyggingu á þeim stað nærri Skógá, sem rætt hefur verið um, að svo komnu máli.  


Vitað er að mjög skiptar skoðanir eru um málið og viljum við leggja áherslu á að vafasamt er að leggja í slíka vegferð án þess að hafa þokkalega djúpa sannfæringu fyrir gildi þess.  Bendum við jafnframt á að mikil uppbygging varðandi gistiaðstöðu fer nú þegar fram á svæðinu og teljum við ekki að hafa þurfi áhyggjur af því að áhugi á Skógum minnki, þvert á móti.


Leggjum við til að efnt verði til samkeppni um framtíðar skipulag á Skógum.  Þar verði tekið tillit til framtíðar íbúðabyggðar, þjónustusvæða, útvistar, útsýnis o.s.frv.  Þá verði hugað að því hvernig samfélag verði byggt upp í kringum þá starfssemi sem kemur á svæðið, þannig að hún gagnist sem best heimamönnum, sveitarfélaginu sem og þeim ferðamönnum sem munu koma.



Bókun:
Að gefnu tilefni vill formaður skipulagsnefndar benda á að undirbúningur fyrir skipulagið í Skógum  hefur verið góður og síðustu misseri hefur skipulagsnefnd og sveitarstjórn unnið saman að því að finna skipulaginu í Skógum farsæla lausn og leiðir til þess að geta tekið vel á mótum ferðamönnum sem fer ört fjölgandi. Ásamt því að gæta að umhverfi og ásýnd svæðisins.
Vert er að geta þess að ekki er verið að úthluta lóðum í Skógum en það er hlutverk landeigenda sem eru héraðsnefndir Rangæinga og V- Skaftfellinga. Auk þess er ekki verið að taka ákvörðun um kostnað vegna frárennslismála og vatnsmála í Skógum. 

Guðlaug Ósk Svansdóttir.



1301004 Aðalskipulag Rangárþings eystra 2012-2024
Aðalskipulag Rangárþings eystra 2012-2024 var sent Skipulagsstofnun til yfirferðar fyrir auglýsingu. Erindi hefur borist frá Skipulagsstofnun dags. 5. febrúar 2014 þar sem fram koma nokkrar ábendingar og athugasemdir sem þarf að bregðast við áður en tillagan verður auglýst.
Farið yfir athugasemdir Skipulagsstofnunar. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún feli skipulagsfulltrúa að vinna að úrbótum í samráði við skipulagsráðgjafa til að koma til móts við athugasemdir stofnunarinnar. 


Guðlaug Ósk Svansdóttir
Ísólfur Gylfi Pálmason
Kristján Ólafsson
Elvar Eyvindsson
Guðmundur Ólafsson
Anton Kári Halldórsson




Fundi slitið kl. 15:55