2. Fundur Samgöngu- og umferðarnefndar Rangárþings eystra, haldinn í Hvoli miðvikudaginn 17. desember kl. 20:00.
Mættir eru: Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir, formaður, Anton Kári Halldórsson skipulags- og byggingarfulltrúi, Linda Rós Sigurbjörnsdóttir, Christiane L. Bahner og Elimar Hauksson, varaformaður, sem ritaði fundargerð.
1. Erindsbréf nefndarinnar.
Erindisbréf nefndarinnar rætt og eftirfarandi breytingar lagðar til:
a) Að í 2. gr. erindisbréfsins verði bætt við að fjarskiptamál í sveitarfélaginu heyri einnig undir nefndina.
b) Að í 1. málslið 5. gr. orðist „samgangna” í stað orðanna „samganganna”.
c) Að 6. gr. og 10. gr. verði sameinaðar þar sem fyrri málsliðir 10. gr. fela í sér endurtekningu á 6. gr. Þá leggur nefndin til að 6. og 7. gr. verði færðar inn í 2. kafla , um skipan fundi og starfshætti, á eftir 9. gr. þar sem greinarnar heyra fremur undir þann kafla. Nefndin leggur til að 6. gr. orðist með eftirfarandi hætti:
„Formaður samgöngu- og umferðarnefndar, eða varaformaður í forföllum hans, boðar fund. Fundarboð skal berast nefndarmönnum ekki síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund. Boðun fundar samgöngu- og umferðarnefndar skal fara fram með rafrænni tilkynningu á netfang nefndarmanna. Með fundarboðinu skulu fundargögnin fylgja rafrænt.
Boða ber til aukafundar ef þriðjungur eða fleiri aðalmanna æskir þess. Komi upp mál sem krefst skjótrar úrlausnar samgöngu- og umferðarnefndar getur fyrirvari um fundarboðun verið skemmri.
Aukafund skal boða ekki síðar en tveimur virkum dögum eftir að ósk þar um barst þeim er boða skal fund. Fundarboð vegna aukafundar skal berast nefndarmönnum svo fljótt sem auðið er og ekki síðar en sólarhring fyrir fund. Fundarboði skal fylgja dagskrá fundar og þau gögn sem eru nauðsynleg til að nefndarmenn geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind.“
d) Að í 7.gr. verði skipulags- og byggingafulltrúa falið að tilkynna aðilum um niðurstöður nefndarinnar í stað formanni. Slíkt sé eðlilegt þar sem skipulags- og byggingafulltrúa er falið að framfylgja ákvörðunum nefndarinnar.
e) Að í 13. gr. orðist „samgöngu- og umferðanefnd” í stað „velferðarnefnd”.
f) Að í 15. gr. sé tveggja daga fresti breytt í þriggja daga frest til þess að formaður hafi sólarhring til að móttaka slíka tillögu áður en hann þarf að senda út fundarboð.
Ákveðið að senda erindisbréfið með framangreindum breytingum til sveitarstjórnar til staðfestingar. Tillagan samþykkt samhljóma.
2. Fjarskiptamál: umræða um fjarskipti í sveitarfélaginu
Formaður nefndarinnar kynnti stöðu fjarskiptamála í sveitarfélaginu sem eru í góðum farvegi að mati nefndarmanna. Einhugur var hjá nefndarmönnum um það að reyna þá tengingu sem 365 miðlar uppá í stað þess að horfa til ljósleiðaravæðingar.
3. Vegamál: Umræður um vegi
Hugmynd rædd um vettvang eða stað þar sem ábendingum um vegamál í sveitarfélaginu eru tekin saman. Fundarmenn sammála um að skrifstofa byggingafulltrúa væri hentugur vettvangur fyrir slíkt. Nefndin telur að hentugt væri að netfangi byggingafulltrúa væri komið á framfæri við íbúa t.d. á vefsíðu sveitarfélagsins og í fréttabréfi, til þess að taka við slíkum ábendingum.
Rætt var um að koma þyrfti að breytingum á Hlíðarvegi, t.d. að setja gangbrautir við bæjarskrifstofu og Sláturfélagið, þar sem umferð hefur aukist mikið. Þá voru gatnamótin við Nýbýlaveg rædd og lagt til að breytingar verði gerðar þar sem mikil slysahætta skapast á gatnamótunum að mati nefndarmanna.
Rætt var um Austurveg og að þörf væri á breytingum á veginum til að auðvelda umferð í gegnum þorpið. Nefndin telur mikilvægt að ákvörðun verði tekin um hvort Austurvegur eigi að liggja eins og hann liggur nú eða hvort færa eigi veginn suður fyrir Hvolsvöll. Endanleg ákvörðun um slíkt leiði af sér að hægt verði að ráðast í breytingar til að létta á umferð og tryggja umferðaröryggi vegfarenda.
Anton Kári upplýsti nefndina um áætlanir sveitarfélagsins um aðgerðir til að stuðla að bættu umferðaröryggi, meðal annars Vallarbraut og Stóragerði næsta sumar auk þess sem stefnt er að því að halda áfram að því loknu.
Þá voru vegir í dreifbýli auk þess ræddir. Nefndin leggur til að sveitarstjórn leggi til við Vegagerðina að merkja þau útskot sem eru á Suðurlandsvegi með skiltum, til þess vekja athygli á þeim með góðum fyrirvara. Þá er það mat nefndarinnar að slíkum útskotum mætti fjölga til að koma í veg fyrir að vegfarendur leggi bifreiðum sínum í vegköntum með tilheyrandi slysahættu á Suðurlandsvegi.
Fundagerð lesin upp og samþykkt.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 22:00