Nú standa yfir breytingar á meðferð heimilissorps og endurnýtanlegs úrgangs í Rangárvallasýslu.  Í kjölfars útboðs Sorpstöðvar Rangárvallasýslu var gerður samningur við Gámakó ehf. (dótturfyrirtæki Gámaþjónustunnar hf.) um hirðingu á heimilsorpi frá og með 1. desember 2011.   Markmiðið með þessari skipulagsbreytingu  að auka þjónustu við íbúa um leið og endurvinnsla og endurnýting verður aukin, með því að leggja hverju heimili í sveitarfélögunum til svokallaða Blátunnu fyrir þurrt og hreint efni til endurvinnslu.  Einnig munu sveitarfélögin leggja til tunnu fyrir óflokkaðan heimilisúrgang fyrir þau heimili sem ekki eru með tunnu fyrir.  

 

Öll heimili með tvær tunnur

Tunnurnar verða tvær (240 l.) við hvert heimili. Önnur fyrir óflokkaðan úrgang – grá tunna með gráu loki.  Hin tunnan er einnig grá en með bláu loki og í hana á að setja þurrt, hreint efni til endurvinnslu.  Fyrst í stað verður eingöngu safnað í Blátunnuna blöðum og tímaritum, sléttum pappa, bylgjupappa og fernum.  Reiknað er með að flokkum endurvinnsluefnis muni í framtíðinni fjölga og verður það þá kynnt sérstaklega.   

 

Ný tækni- tvískiptur söfnunarbíll

Sveitarfélögin í Rangárvallasýslu eru fyrstu sveitarfélögin á Suðurlandi til að taka í notkun tvískiptan söfnunarbíl.  Með tvískiptum söfnunarbíl er hægt að tæma báðar tunnurnar í einni ferð og í því felst verulegt hagræði.   

 

Gámastæði og gámavellir

Fram til þessa hafa verið nokkur gámastæði í sveitarfélögunum, óvöktuð og opin. Sama er að segja um gámavelli í þéttbýliskjörnum, þeir hafa verið óvaktaðir og opnir allan sólarhringinn.  Gámavöllum verður fækkað á næstunni og þeir afgirtir og aðeins opnir á ákveðnum tíma.  Þeir verða nú tveir: Á Strönd og á Hvolsvelli.

Opnunartími á Strönd verður sem hér segir:

Mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og föstudaga  kl. 14-18 Laugardaga kl. 11-15  

Opnunartími á Hvolsvelli verður sem hér segir:

Þriðjudaga kl. 16-18 Fimmtudaga kl.  16-18 Laugardaga kl. 11-15  

 

Haldnir hafa verið kynningarfundir um þessar breytingar og gefinn út kynningarbæklingur, sem einnig er aðgengilegur á vefsíðum sveitarfélaganna og Sorpstöðvar Rangárvallasýslu.