22. júní sl. opnaði veitingavagninn Seljalandsveitingar við Seljalandsfoss. Það eru tvenn hjón sem standa að vagninum, þau Elísabet Þorvaldsdóttir og Heimir Hálfdanarson annars vegar og Kristín Guðbjartsdóttir og Atli Már Bjarnason hins vegar. Frá því að opnað var hefur verslunin gengið vonum framar og þeir sem koma og heimsækja fossinn eru ánægðir með að geta keypt sér eitthvað í gogginn, regnslá til að blotna ekki þegar gengið er bak við fossinn og handverk úr héraði. Hjá Seljalandsveitingum er einnig hægt að fá Seljalandsfoss súkkulaði í fallegum umbúðum.

Vagninn er opinn út október frá 10:00 - 18:00 og ef veður leyfir verður einnig opið í nóvember.