- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Einar Bárðarson er 40 ára og hefur starfað og búið með fjölskyldu sinni í Vík í Mýrdal undanfarin ár. Einar er rafeindavirki en hefur einnig meirapróf og vinnuvélaréttindi. Hann starfar nú við alhliða verktakastarfsemi hjá FB lögnum en sinnti áður viðhaldi dælubúnaðar hjá Olíudreifingu um árabil og fasteignaumsjón hjá Skaftárhreppi. Þá átti Einar og rak Krásir ehf og sinnti þar búrekstri og vöruflutningum. Hann hefur starfað sem bílstjóri við vöruflutninga hjá AVP ehf og olíudreifingu hjá Skeljungi ehf auk þess að sinna sjúkraflutningum í Vík og Klaustri. Þá var Einar framkvæmdastjóri hjá Jeppar og Allt ehf og starfaði einnig sem leiðsögumaður. Einar hefur verulega reynslu af félagsmálum, sat í sveitarstjórn Mýrdalshrepps og var formaður Björgunarsveitarinnar í Vík um árabil.
Starfið var auglýst í Morgunblaðinu, Dagskránni og Búkollu og á heimasíðum Ásahrepps, Rangárþings eystra og Rangárþings ytra með umsóknarfrest til 10. desember 2021. Umsækjendur voru 9 talsins. Umsóknir voru flokkaðar með tilliti til þess hversu vel umsækjendur uppfylltu menntunar- og hæfniskröfur og ljóst að mjög góðar umsóknir lágu fyrir. Í auglýsingu um starfið var tekið fram að leitað væri eftir öflugum einstaklingi sem væri tilbúinn að takast á við fjölbreytt og krefjandi starf og reiknað væri með að ráða í starfið í byrjun árs 2022. Helstu verkefni væru að hafa umsjón með rekstri og þróun Sorpstöðvar Rangárvallasýslu bs og sinna störfum móttökustöðvarinnar á Strönd og grenndarstöðva. Einnig að hafa umsjón með sorphirðu og rekstri og viðhaldi bifreiða og véla auk starfsmannamála. Gerðar voru þær menntunar- og hæfniskröfur að umsækjandi hefði menntun sem nýttist í starfi auk þess sem meirapróf væri skilyrði. Þá þyrfti viðkomandi að búa yfir þekkingu og reynslu af rekstri, upplýsingatækni og viðhaldi bifreiða og véla. Önnur atriði sem lögð voru til grundvallar voru m.a. þjónustulund og hæfni í mannlegum samskiptum auk góðra forystu-, og skipulagshæfileika. Hvatt var til þess að konur jafnt sem karlar myndu sækja um stöðuna. Ákveðið var af stjórn Sorpstöðvar Rangárvallasýslu bs að fela Ágústi Sigurðssyni, Ástu Berghildi Ólafsdóttur, Huldu Karlsdóttur og Lilju Einarsdóttur að taka viðtöl við umsækjendur. Umsækjendur mættu í viðtöl dagana 21. og 22. desember 2021 og 4. janúar 2022 og hvert viðtal tók allt að 1 klst. Viðtölin fóru fram á Hellu en einnig í gegnum Zoom fjarfund.
Það var samdóma álit þeirra sem viðtölin tóku að hæfastur til að gegna starfinu væri Einar Bárðarson. Haft var samband við samstarfsaðila úr fyrri störfum og fékk hann mjög góða umsögn þar til að gegna starfinu. Einar mun koma að fullu til starfa þann 1. júní n.k.