- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Kæru íbúar
Nú er vorið komið með öllum sínum tækifærum, birtu og gleði. Náttúran fer að lifna við og vorboðarnir, farfuglarnir, koma til landsins hver á fætur öðrum. Það er skemmtilegt að fylgjast með fuglafréttum úr Rangárvallasýslu á facebook þar sem íbúar greina frá þeim fuglum sem nú eru farnir að sjást hér í sveitarfélaginu og sýna myndir af þeim.
Starfsmenn áhaldahúss og garðyrkjustjóri eru komin á fullt í vorverkin, bæði þau hefðbundnu en auk þess höldum við áfram að leggja áherslu á að bæta og fegra umhverfið okkar, bæði í þétt- og dreifbýlinu. Íbúar mega gjarnan nýta sér ábendingarhnappinn á heimasíðu sveitarfélagsins vilji þeir koma á framfæri hugmyndum og ábendingum um t.d. hvar megi taka til hendinni.
Vorið er líka tíminn þar sem að við þurfum að gæta sérstaklega að okkur í umferðinni þar sem að búast má við aukinni umferð leik- og grunnskólabarna sem nú njóta betri veðráttu með útivist. Í þessu samhengi má líka nefna að verið er að leggja lokahönd á umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið sem og vinnu við að bæta umferðaröryggi sérstaklega í þéttbýli með hraðatakmarkandi aðgerðum.
Það er ekki bara ungviðið okkar sem að gleðst þegar sólin tekur að ylja og náttúran vaknar úr vetrardvala. Starf eldri borgara blómstrar nú á ný þegar allar samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldursins eru úr gildi. Félagsstarfið hjá Félagi eldri borgara í Rangárvallasýslu er fjölbreytt og m.a. er hægt að taka í spil, fá leiðsögn í útskurði, sinna ýmsu handverki og stunda boccia.
Rangárþing eystra hefur auk þess boðið upp á gjaldfrjálsa leiðsögn í hreyfingu fyrir aldurshópinn 60+ um árabil og hittist hópurinn tvisvar í viku, á þriðjudögum í göngu í íþróttasalnum og á fimmtudögum í sundleikfimi. Eldri borgarar hafa einnig gjaldfrjálsan aðgang að íþróttamiðstöðinni og sundlauginni og ég hvet aldurshópinn til að nýta sér aðstöðuna og tækifærið til að efla bæði líkamlega og félagslega heilsu sína. Skiljanlega er erfitt að koma sér af stað eftir þær aðstæður sem hafa verið uppi sl. 2 ár, en hreyfing og félagsleg samskipti geta skipt sköpum, sérstaklega fyrir þá sem ekki eru lengur á vinnumarkaði.
Árið 2021 fórum við af stað með markaðsherferð fyrir sveitarfélagið undir slagorðinu Velkomin heim og tókst það virkilega vel. Hægt er að merkja að áhugi á sveitarfélaginu okkar hefur aukist umtalsvert eftir að herferðinni var hrint af stað sem er afar ánægjulegt. Nú er önnur lota farin af stað með birtingu á markaðsefninu og bjóðum við verðandi íbúa velkomna heim. Tökufólk frá sjónvarpsstöðinni N4 verða á ferð í sveitarfélaginu á næstunni þar sem Rangárþing eystra verður eitt af þeim sveitarfélögum sem fá umfjöllun í þáttum þeirra, Að sunnan, en það er m.a. hluti af markaðsátaki sveitarfélagsins.
Á síðasta fundi sveitarstjórnar var sex lóðum í Hallgerðartúni úthlutað og mikil eftirspurn er eftir lóðum nú þegar vorið og sumarið er framundan sem er afar ánægjulegt og gríðarlega gott að vera með tilbúið deiliskipulag bæði að nýjum íbúðahverfum sem og miðbæ þar sem bæði er pláss fyrir íbúðir sem og verslun og þjónustu.
Í ljósi þeirra hörmunga sem nú eru í gangi í Úkraínu lýsti Rangárþing eystra yfir vilja sínum til að leggja lóð á vogarskálarna. Þegar auglýst var eftir húsnæði og öðru er gæti létt undir með flóttafólki þá létu viðbrögðin ekki á sér standa enda einstaklega hjálpsamt og gestrisið fólk sem býr hér í Rangárþingi eystra. Nú þegar eru tvær úkraínskar fjölskyldur komnar til okkar og er von mín að velferð þeirra sé vel borgið hér í okkar góða sveitarfélagi.
Rangárþing eystra er heilsueflandi og barnvænt sveitarfélag í stöðugri sókn þar sem lögð er rík áhersla á samvinnu, virðingu og vellíðan allra íbúa. Það kemur því ekki á óvart eins og áður sagði, að hingað vilji fólk flytjast og búa, hvor heldur sem er íslenskir ríkisborgarar eða erlendir.
Megi vorið færa okkur öllum birtu og gleði.
Lilja Einarsdóttir
Sveitarstjóri