- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Að venju stikla ég hér á stóru um nokkur af þeim helstu verkefnum sem við hjá Rangárþingi eystra og aðrir í sveitarfélaginu okkar höfum verið að fást við að undanförnu. Sveitarstjórn er hér samankomin á ný, eftir sumarfrí, en byggðarráð hefur sinnt hennar störfum frá því í júní. Ég vil bjóða sveitarstjórnarmenn velkomna til starfa á ný og hlakka til áframhaldandi góðs samstarfs í þeim fjölbreyttu verkefnum sem fram undan eru. Eitt af þeim stóru verkefnum sem bíður sveitarstjórnar að hausti er gerð fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár. Sú vinna er umfangsmikil og krefjandi, en einnig mjög skemmtileg þegar hópurinn er samstilltur og allir með það meginmarkmið að vinna sveitarfélaginu og íbúum þess til heilla.
Verkefni sumarsins
Að venju voru verkefni sumarsins mörg og fjölbreytileg. Sumarið er stuttur gluggi til að sinna þessum verkefnum og ég tala nú ekki um þegar veðrið ákveður að vera ekki alveg með okkur í liði. En líklega getum við öll sammælst um að liðið sumar fari ekki í sögubækurnar sökum góðviðris. En allir lögðu hönd á plóg og gerðu sitt besta í að sinna umhirðu á fjölmörugm stöðum í okkar sveitarfélagi. Ber þar helst að nefna unglingavinnuna okkar og starfsmenn áhaldahúss og langar mig að færa sumarstarfsmönnum okkar kærar þakkir fyrir vel unnin störf. Við höfum saknað þess undanfarið að vera ekki með garðyrkjustjóra að störfum, en ekki tókst að ráða í þá stöðu síðastliðið vor. Verið er að undirbúa að auglýsa það starf að nýju og vonir standa til þess að okkur takist að ráða í starfið sem fyrst. Þetta starf hefur sannað sig í að vera mjög mikilvægt í að plana og stýra framkvæmdum við fegrun og betrumbætur á okkar fallega umhverfi síðastliðin ár.
Verklegar framkvæmdir
Verklegar framkvæmdir af hálfu sveitarfélagsins hafa verið í fullum gangi í sumar. Að venju var sumarlokunartími Hvolsskóla nýttur vel til hinna ýmsu viðhalds og endurbóta á skólahúsnæðinu. Í byrjun sumars, þegar hafist var handa, reyndust áætlaðar framkvæmdir umtalsvert meiri heldur en gert var ráð fyrir. Með öflugum iðnaðarmönnum náðist að vinna þau verk sem þurfti til að skólahald gæti hafist að nýju. Ljóst er að næsta sumar þarf einnig að fara í umfangsmiklar framkvæmdir á húsnæði skólans bæði á ytra byrði og eins gólfefnum innanhúss.
Hljóðvistarplötur á yngsta stigi |
Gatnagerð í 3. og 4. áfanga Hallgerðartúns var áframhaldið í sumar, þar sem götur voru malbikaðar. Stefnt er að því að gatnagerð í þessum áföngum ljúki að fullu næsta sumar með uppsteypu kantsteina og gerð gangstétta. Mikil og hröð uppbygging á sér stað þessi misserin í Hallgerðartúni þar sem hvert íbúðarhúsið á fætur öðru rís og skapar fallega götumynd. Ef áfram heldur sem horfir verður ekki langt í að Hallgerðartún verði fullbyggt og því nauðsynlegt að fara að huga að áframhaldandi gatnagerð og úthlutun lóða í Berþórugerði.
Uppbygging í Hallgerðartúni | Hallgerðartún malbikað |
Vinna við göngustíga sem tengja Hallgerðartún við græna svæðið í hjarta Hvolsvallar og áfram að Hvolsskóla stendur nú yfir. Fyrirhugað er að þeim framkvæmdum ljúki á næstu vikum.
Unnið hefur verið að úrbótum til að lagfæra aðgengi og auka öryggi vegfarenda á Vallarbraut við Hvolsskóla, leikskólann Ölduna og íþróttahús. Þeim framkvæmdum er ekki lokið og verður haldið áfram að vinna að þeim fram á haustið.
Steini í Steinasteini gerir þetta vel |
Starfsmenn áhaldahússins duglegir eins og venjulega |
Gangbraut við leikskólann |
Stærstu framkvæmd sumarsins, gerð nýs bílastæðis við Skógafoss, miðar vel áfram og gert er ráð fyrir því að bílastæðið verði fullbúið í næstu viku. Eins og áður hefur komið fram mun verða gjaldtaka á nýja bílastæðinu og verður gjaldið nýtt til áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu í kringum Skógafoss og innan þéttbýlisins í Skógum.
Starfshópur um fýsileika Þjóðgarðs í Þórsmörk
Í kjölfar erindis Rangárþings eystra til umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytis, skipaði ráðherra starfshóp sem hefur það hlutverk að kanna fýsileika þess að stofnaður verði þjóðgarður í Þórsmörk. Sá sem hér stendur ásamt Rafni Bergssyni eru fulltrúar Rangárþings eystra í umræddum starfshóp. Starfshópnum er falið að meta kosti og galla þess að stofnaður verði þjóðgarður á Þórsmerkursvæðinu, með tilliti til áhrifa á samfélag, þróun ferðaþjónustu á svæðinu, umhverfi og efnahag. Áætlað er að starfshópurinn skili tillögum til umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra eigi síðar en 15. nóvember 2024. Starfshópurinn hefur nú þegar átt nokkra fundi til að plana þá vinnu sem fram undan er. Hópurinn taldi mikilvægast í upphafi að boða alla hagaðila að borðinu til skrafs og ráðagerða, en hagaðilar eru mjög margir og nauðsynlegt að allar raddir fái að heyrast. Á næstu misserum munu því verða haldnir margir fundir með mismunandi hagaðilum. Að sjálfsögðu eru íbúar í Rangárþingi eystra stórir hagaðilar að málinu og verða haldnir opnir íbúafundir þar sem óskað verður eftir áliti almennings.
Til áréttingar þá vil ég taka það sérstaklega fram að í þessu umfangsmikla máli hafa engar ákvarðanir verið teknar og fulltrúar starfshópsins hafa á engan hátt myndað sér skoðun um fýsileikann. Hvort af þessum plönum verður, eða ekki, er því alls óvíst. En það er alveg kristaltært að skoðun íbúa og annarra hagaðila í Rangárþingi eystra vegur þungt og allir taka þátt í þessari vinnu með hag sveitarfélagsins Rangárþings eystra og íbúa þess að leiðarljósi.
Hátíðir sumarsins
Að venju fóru fram nokkrar veglegar hátíðir í Rangárþingi eystra þetta sumarið. Ber þar fyrst að nefna 17. júní hátíðarhöld sem haldin voru víðs vegar í sveitarfélaginu. Ef mig brestur ekki minni voru meira að segja sólarglætur þennan dag. Hátíðarhöld voru flest með veglegra móti í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins Íslands. Hin ýmsu sjálfboðaliðasamtök og félög eiga stórt hrós skilið fyrir sína aðkomu að hátíðunum og færi ég þeim mínar bestu þakkir fyrir.
Malarhjólakeppnin The Rift var haldin í júlí. Keppnin hefur vaxið ár hvert frá því hún fyrst var haldin sumarið 2019. Uppselt var í keppnina og tóku að þessu sinni 1200 keppendur þátt. Það er ávallt mikið umstang í kringum keppnina með alls konar raski á daglegu lífi okkar íbúa. En að sjálfsögðu tökum við því fagnandi að einn stærsti íþróttaviðburður á Íslandi skuli fara fram hjá okkur hér í Rangárþingi eystra. Sveitarfélagið hefur átt í mjög góðu samstarfi við keppnishaldara og það er til fyrirmyndar hversu gott skipulag og utanumhald er um viðburðinn. Nú þegar hefur verið óskað eftir heimild til að halda keppnina að ári, en þá verður gert ráð fyrir um 1400 keppendum.
The Rift | Tjaldið var fullt af fólki | Unnið að viðgerðum |
Kjötsúpuhátíðin okkar tókst með eindæmum vel, þrátt fyrir að veður og vindar hafi leikið okkur ansi grátt og litlu mátti muna að stóra tjaldið á miðbæjartúninu tæki flugið. Vikan var undirlögð fjölda viðburða sem voru allir vel sóttir og almenn gleði réð ríkjum. Sjálf hátíðardagskráin sem fram fór á laugardeginum var vel heppnuð og voru þar veittar hinar ýmsu viðurkenningar til íbúa sem allir áttu þann heiður skilið, innilega til hamingju öll með ykkar viðurkenningar. Brekkusöngurinn um kvöldið var alveg hreint magnaður undir dyggri stjórn Guðrúnar Árnýjar og ef það stóð tæpt um morguninn að tjaldið fyki, var það ekkert í líkingu við stemminguna sem myndaðist svo þakið tók næstum af í fjöldasöngnum. Dansleikur Stuðlabandsins fór vel fram og eftir því sem næst verður komist skiluðu allir sér heim sælir og sáttir. Það var svo vaskur hópur sem setti lokapunktinn við hátíðarhöldin í sögugöngu um Hvolsvöll með þeim Ísólfi Gylfa og Lárusi Bragasyni, en þar var ekki töluð vitleysan og þeir félagar miðluðu af stakri snilld sinni þekkingu um söguna okkar.
Ný Náttuverndarstofnun með höfuðstöðvar á Hvolsvelli
Þau gleðitíðindi bárust í sumar að höfuðstöðvar nýrrar Náttúruverndarstofnunar yrðu á Hvolsvelli. Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur talað fyrir störfum án staðsetningar og flutningi ríkisstofnana út á land, árum saman. Loks virðist árangur hafa náðst að einhverju leyti í þeim málum. Búið er að auglýsa stöðu forstjóra stofnunarinnar og er verið að vinna í ráðningarferli. Stofnunin mun taka til starfa frá næstu áramótum og mun aðsetur hennar vera í ráðhúsi Rangárþings eystra á Hvolsvelli. Skilyrt er að forstjóri hafi sína starfstöð á Hvolsvelli og munu allt að sex stöðugildi færast til okkar í Rangárþingi eystra þegar fram líða stundir. Helsta hlutverk nýrrar Náttúrverndarstofnunar er að sinna verkefnum á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar, friðlýstra svæða, þ.m.t. þjóðgarða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Þetta er virkilega stórt og gott skref í rétta átt og býð ég nýja stofnun hjartanlega velkomna í Rangárþing eystra og vona að sjálfsögðu að starfsemi hennar eigi eftir að blómstra hér um ókomin ár. Það sannar sig að litið er til okkar þar sem innviðir eru sterkir og samfélagið tilbúið að taka á móti góðu fólki sem hér vill setjast að.
Skipulags- og byggingarmál
Engin lágdeyða hefur ríkt yfir skipulags- og byggingarmálum þetta sumarið. Það er virkilega gaman að sjá framkvæmdagleðina sem ríkir og ný mannvirki rísa víðs vegar í sveitarfélaginu. Um er að ræða hin ýmsu mannvirki, íbúðarhús, sumarhús, gistihús, landbúnaðarbyggingar ofl. Skipulag er forsenda þess að unnt sé að framkvæma og eru ýmis áform þar í pípunum bæði þétt- og dreifbýli. Mörg spennandi verkefni eru á teikniborðinu og hvet ég íbúa til að fylgjast vel með auglýsingum um skipulagsmál og láta sig málin varða.
Að lokum
Nú er tekið að hausta hjá okkur, fullsnemma þykir sumum en við skulum vona að það fari um okkur mjúkum örmum. Skólahald er komið á fulla ferð og hlutirnir að falla í hefðbundna rútínu, sem flestum þykir gott. Haustin eru annasamur tími í stjórnsýslu sveitarfélagsins og verður gaman að fást við öll þau spennandi og krefjandi verkefni sem okkar bíða á næstu misserum. Að lokum er ekki hægt að leggja fram minnisblað í september án þess að minnast á smalamennsku og réttir. Það er fátt meira gefandi en að taka gott spjall við glaðan bónda og jafnvel að hlaupa smá af sér hornin í réttum á björtum haustdegi.
Anton Kári Halldórsson
Sveitarstjóri Rangárþings eystra