Mikill hugur er í ferðaþjónustuaðilum í Rangárþingi eystra um þessar mundir. Veturinn hefur verið að koma vel út og sumarvertíðin virðist vera að lengjast í báðar áttir. Bókunarstaða fyrir sumarið er góð og í mörgum tilvikum er orðið fullbókað í júlí og ágúst. 


Vorverkin eru hafin

Sumir eru að breyta, stækka og bæta núverandi aðstöðu en svo eru einnig nokkrir nýir aðilar að koma inn í ferðaþjónustuflóruna. Nýir aðilar hafa tekið við rekstri í Húsadal og er mikill hugur í þeim félögum fyrir sumarið og komandi vertíð. Gamla fjósið undir Eyjafjöllum opnaði s.l. haust og hefur fengið góðar viðtökur. Unnar Garðarsson og Solveig Pálmadóttir hjá Óbyggðaferðum eru að flytja sitt aðsetur frá Hólaskógi inn á okkar svæði og hafa verið að gera út frá  Hamragörðum í samstarfi við Ársæl Hauksson og Þorgerði Guðmundsdóttur. Þau eru jafnframt að flytja með alla fjölskylduna inn á svæðið og fögnum við því. Nýir eigendur eru komnir að Hótel Skógum og hafa þeir jafnframt leigt félagsheimilið Fossbúð. Þar verður áfram lítil ferðamannaverslun og veitingasala. 

Þá er það alls ekki upptalið þær framkvæmdir og uppbygging sem ferðaþjónustuaðilar eru að leggja í fyrir sumarið en gaman verður að fylgjast með hvernig málin þróast. 

Hvað varðar framkvæmdir við áfangastaði í sveitarfélaginu þá verður farið í framkvæmdir við útsýnispall við Skógafoss og er reiknað með að hann verði tilbúinn í júní. Gönguleiðin frá Skógum upp að eldstöðvum á Fimmvörðuhálsi verður endurstikuð og merkingar lagaðar og þá verður áfram unnið við að bæta gönguleiðir í Þórsmörk og í Goðalandi.


Suðurland í sókn

Ferðasýningin Suðurland í sókn var haldin um s.l. helgi. Þar voru komin saman nokkur fyrirtæki af suðurlandi til að kynna sína starfsemi. Góð þátttaka var og mældist sýningin almennt vel fyrir. Sveitarfélagið tók þátt í sýningunni auk nokkurra ferðaþjónustuaðila og var gaman að sjá hversu margir af svæðinu mættu til að kynna sína starfsemi. Ársæll og Þorgerður stóðu vaktina fyrir sitt fyrirtæki South Coast Adventure, Ása fyrir Hótel Rangá og Sigurður fyrir Sögusetrið. Inga, Auður og Jens kynntu Kaffi langbrók og buðu gestum uppá nýbakaðar vöfflur og nýir rekstraraðilar fyrir Húsadal í Þórsmörk stóðu jafnframt vaktina um helgina. Með svo góðri þátttöku ferðaþjónustuaðila er hægt að sýna fram á hversu fjölbreytt og áhugavert svæðið er. 


Katla Geopark

Nokkur verkefni eru hafin innan jarðvangsins og má þar nefna verkefnið Kötluafurðir, þar sem verið er að vinna að vöruþróun innan jarðvangsins og möguleika framleiðanda til að koma sinni vöru á framfæri. Þá tekur Hvolsskóli þátt í samstarfsverkefni fyrir hönd Kötlu jarðvangs við aðra jarðvanga erlendis að þróun svokallaðs "apps" fyrir snjallsíma. Það verkefni verður sérstaklega kynnt í jarðvangsvikunni 23.-28. apríl nk.