- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Ingibjörg Erlingsdóttir valin Sveitarlistamaður Rangárþings eystra 2015.
Í tilefni þess að Ingibjörg var valin Sveitarlistamaður sveitarfélagsins þá er gaman að rýni aðeins betur í þessa flottu konu og skoða hennar bakgrunn aðeins betur.
Ingibjörg hóf tónlistarnám hjá Tónlistarskóla Rangæinga á uppvaxtarárunum hennar en hún ólst upp á Hellu í góðum systkinahópi. Hún lærði á píanó hjá Önnu Magnúsdóttur og á flautu hjá Guðmundi Eiríkssyni, lék í lúðrasveit, kammersveit og söng með kór skólans. Á menntaskólaárunum lærði hún svo áfram á flautu hjá Martal Nardeau í Tónskóla Sigurveins D. Kristinssonar og hóf söngnám hjá Árna Sighvatssyni.
Ingibjörg hefur unnið við annað en tónlist en árin 1988-92 og sumrin 1993 og 1994 starfaði hún hjá Iðnaðarbankanum í bókhaldi, lánadeild og sem gjaldkeri.
Ingibjörg lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskóla Reykjavíkur (B.Ed.) vorið 1995 og lærði þar jafnframt kórstjórn, söng, píanóleik og gítarleik. Árið 2011 lauk hún B.A. gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og sótti auk þess píanótíma hjá doktor Nínu Margréti Grímsdóttur. Hún kenndi í Tónlistarskóla Rangæinga frá 1995-2008 á píanó, blokkflautu, þverflautu, gítar og sá um ýmis samspil.
Ingibjörg hefur leikið og sungið með ýmsum hljómsveitum, tónlistarhópum og kórum í gegnum tíðina. Síðastliðin ár spilaði hún og söng ásamt tveimur stöllum sínum í Bakkatríóinu GG&Ingibjörgu og komu þær m.a. fram á sundlaugarbökkum á Suðurlandi. Þá hefur hún tekið að sér útsetningar og tónlistarstjórn fyrir ýmsa aðila, m.a. Leikfélag Rangæinga. Hún hefur sett upp söngleiki og séð um tónlist í söngleikjum í ýmsum grunnskólum Suðurlands. Þar má nefna Grunnskólann á Hellu, Þykkvabæjarskóla, Barnaskólann í Gunnarshólma, Barnaskólann Goðalandi og Ljósaborg í Grímsnesi.
Ingibjörg hefur stjórnað kórum, hljómsveitum og ýmsum tónlistarviðburðum um allt Suðurland og víðar og er það mikill happafengur fyrir sveitarfélag okkar að eiga svona hæfileikaríkan einstaklinga eins og hana Ingu.
Ingibjörg Erlingsdóttir tekur á móti viðurkenningu frá Ísólfi G. Pálmasyni sveitarstjóra fyrir að vera valin Sveitarlistamaður Rangárþings eystra
Bakkatríóið spilaði í Orgelsmiðjunni í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri 2014. Bakkatríóið tók á móti styrk.
Vortónleikar Barnakórs Hvolsskóla 2015 Lilja Einarsdóttir oddviti færði Ingibjörgu blómvönd