Á Kjötsúpuhátiðinni 2024 var íþróttamaður ársins í Rangárþingi eystra tilkynntur. Íþróttafélögin og Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi eiga möguleika á að tilnefna íþróttamenn en það er svo Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefnd sem velur úr þeim sem eru tilnefndir.

Bjarki Oddsson fulltrúi heilsu- íþrótta og æskulýðsnefndar tilkynnti um valið í ár og var Elmar Þormarsson valinn íþróttamaður ársins.

Elvar Þormarsson hefur átt frábæru gengi að fagna síðustu ár og var þetta tímabil engin undantekning. Á árinu 2023 stóð Elvar uppi sem Íslands- og heimsmeistari í gæðingaskeiði og heimsmeistari í 250m skeiði á glæsi hryssunni Fjalladís frá Fornusöndum. Elvar átti frábæru gengi að fagna á 2023 þar sem hann tók þátt með frábærum árangri í hverju mótinu á fætur öðru. Árið 2024 heldur áfram að vera Elvari farsælt og stendur þar hæðst að hann varð í 4. sæti í B-flokk á Landsmóti hestamanna á hestinum Pensli frá Hvolsvelli. Elvar sigraði fimmgang á sterku Reykjavíkurmeistaramóti á hestinum Djáknari frá Selfossi.

Elvar er frábær fyrirmynd innan sem utan vallar og er frábær félagsmaður fyrir sitt félag.

Heimsmeistaratitlar

2023

  • Elvar Þormarsson og Fjalladís frá Fornusöndum (Heimsmeistarar í gæðingaskeiði)
  • Elvar Þormarsson og Fjalladís frá Fornusöndum (Heimsmeistarar í 250 m skeiði)

Íslandsmeistaratitlar

2023

  • Elvar Þormarsson og Fjalladís frá Fornusöndum (Íslandsmeistari í gæðingaskeiði)

 

Aðrir sem fengu tilnefningu eru:

Elín Kristín Ellertsdóttir

Elín Kristín byrjaði að æfa loftskammbyssu í byrjun árs 2023 og sýndi mikinn metnað og var dugleg að æfa.

Hún bætti sig markvisst á árinu og vann silfur á landsmóti í loftskammbyssu í stúlknaflokki og varð svo Íslandsmeistari í loftskammbyssu í stúlknaflokki í lok árs 2023

 

Ívar Ylur Birkisson

Ívar Ylur er mikill íþróttamaður og ber af í öllum þeim greinum sem hann hefur stundað hjá Dímon þó einkum frjálsum íþróttum.

Ívar hefur náð góðum árangri í mörgum greinum hann hefur náð lágmörkum í Úrvalshóp unglinga (unglingalandslið Íslands) í fjölda greina og unnið til verðlauna á innahústímabili og utanhústímabili 2023 og 2024.

Auk þess að vinna með liði sínu HSK, Íslandsmeistara, og bikartitla í flokki 15 ára árið 2023 inni og úti, og Íslandsmeistarar inni og úti í flokki 16-17 ára auk Íslandsmeistara titla í samanlögðu (drengir og stúlknaflokkar samanlagt) auk þess að vera í Íslands- og bikarmeistara boðhlaupssveitum HSK á tímabilinu. Ívar hefur náð lágmörkum fyrir Úrvalshóp FRÍ fyrir næsta ár.

 

Andri Már Óskarsson

Andri Már hefur tekið þátt helstu stórmótum GSÍ og staðið sig mjög vel, átti gott Íslandsmót 2024

 

Helgi Valur Smárason

Helgi Valur Smárason hefur spilað knattspyrnu með KFR upp alla yngri flokka og hefur spilað 90 leiki með meistaraflokk karla og skorað 53 mörk.

Helgi Valur mjög metnaðarfullur og mikilvægur leikmaður á æfingum og keppnum og einnig í klefanum. Hann er frábær fyrirmynd og KFR er mjög stolt af því að hafa hann í sínum röðum. Hann hefur einnig lagt mikið af mörkum undanfarin ár til þess að bæta og viðhalda knattspyrnuaðstöðu KFR á Hvolsvelli góðri, allt frá því að dreifa áburð, slá og merkja velli fyrir leiki. Hann hefur líka verið mjög virkur þegar kemur að yngri flokkum KFR. Hann hefur dæmt fjölda leikja og komið inn sem þjálfari, bæði til þess að leysa af og einnig verið partur af tilraunaverkefni í sumar þar sem boðið var upp á fríar tækniæfingar fyrir yngri iðkendur.

 

 Rangárþing eystra óskar Elvari innilega til hamingju með nafnbótina og öðrum tilnefndum með árangurinn.