Viðurkenning fyrir sveitarlistamann Rangárþings eystra er nú afhent í 10. sinn en bæði einstaklingar og hópar hafa fengið þessa viðurkenningu síðustu ár. Menning og listir í Rangárþingi eystra njóta sín með tónleikum og viðburðum um allt sveitarfélagið.

Sveitarlistamaður Rangárþings eystra 2023 að þessu sinni er Jens Sigurðsson gítarleikari.

Jens er menntaður gítarkennari og kenndi í Tónlistarskóla Rangæinga í 25 ár. Hann hefur þannig miðlað þekkingu og áhuga til ungrar kynslóðar í áratugi.

Jens hefur spilað í fjölmörgum hljómsveitum og þar má helst nefna hina geysivinsælu hljómsveit Hjónabandið sem stofnuð var 1995, gaf út 3 diska og nokkrar smáskífur, þar sem Jens semur meðal annars lögin. Önnur þekkt hljómsveit sem kennd er við Jens er hljómsveitin Vinir Jenna sem skipuð er 10 hressum mönnum úr Rangárþingi. Hljómsveitin spilar bæði þekkta slagara og frumsamin lög.

Jens Sigurðsson eða Jenni eins og hann er oftast kallaður hefur einnig verið ötull í kórastarfi á svæðinu og sungið með meðal annars með Karlakór Rangæinga, Samkórnum og Öðlingunum. Hann hefur einnig spilað undir á gítar með Barnakór Hvolsskóla og fjölda annarra kóra og hljómsveita.

Við óskum Jenna innilega til hamingju með viðurkenninguna og hlökkum til að heyra fleiri fagra tóna frá honum í framtíðinni.