Póstkort af Múlakoti tekið fyrir 1928
Póstkort af Múlakoti tekið fyrir 1928

Nú á laugardagskvöld, 7. september, verður haldið Ljósakvöld í Guðbjargargarði við gamla bæinn í Múlakoti í Fljótshlíð.

Vinafélag gamla bæjarins stendur fyrir viðburðinum og býður Björn Bjarnason formaður gesti velkomna. Pétur Hrafn Ármansson arkitekt og starfsmaður Minjastofnunar Íslands segir frá verndun Múlakots og Ísólfur Gylfi Pálmason, fyrrverandi alþingismaður og sveitarstjóri, stjórnar fjöldasöng með gítarleik. Kaffiveitingar verða í boði í garðinum.

Nafnið er dregið af því að ljós eru kveikt í garðinum og efnt til samkomu til stuðnings endurreisnar Múlakots sem unnið hefur verið að í nú 10 ár.

Húsakynnin í Múlakoti eru byggð í mörgum áföngum en í stórum dráttum má skipta þeim í þrennt, íbúðarhúsið frá 1897, veitingahúsið frá 1928 og gistihúsið frá 1946. Húsið var aðeins um 40 fermetrar að grunnfleti, að viðbættri skúrabyggingu og var heimilisfólkið 8-10 manns, fullorðnir og börn, og gestagangur mikill.

Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti hefur frá snemma 2015 stutt Sjálfseignarstofnunina Múlakot, sem var stofnuð 8. nóvember 2014.

Nú hefur tekist að tryggja varanlega varðveislu gömlu húsanna og endurnýja Guðbjargargarð sem á rætur til ársins 1897.

Í sumar hefur verið unnið að ísetningu glugga í vesturhluta gamla bæjarins og suðurhlið hans verið klædd bárujárni.

Við hvetjum sem flesta að mæta á Ljósakvöldið, njóta kvöldsins með vinafélaginu og heimsækja þennan fallega sögulega stað.

Ljósakvöldið er liður í fjáröflunarstarfi Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti, aðgangseyrir er litlar 1000 kr. en einnig er tekið við frjálsum framlögum.

Sjálfseignarstofnunin Gamli bærinn í Múlakoti https://mulakot.is/