- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Aðalkennari námskeiðsins er 1. flautuleikari Konunglegu Concertgebouw hljómsveitarinnar í Amsterdam, Emily Beynon. Emily er frá Wales og stundaði nám sitt hjá William Bennett við Konunglegu Akademíuna í London, Royal Academy of Music. Einnig munu Hallfríður Ólafsdóttir 1. flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Jón Guðmundsson flautukennari miðla nemendum úr þekkingarbrunni sínum á námskeiðinu.
Á námskeiðinu á Stokkalæk munu nemendur á framhalds- og háskólastigi á aldrinum 17 - 23 ára koma saman og leika fyrir Emily. Námskeiðið hefst á föstudagskvöld með yfirferð á grunnatriðum flautuleiks en á laugardag verða hóptímar með Emily Beynon kl. 10-13 og 14-17. Á sunnudag verður hóptími kl. 10.30 -12.00. Námskeiðið er fullbókað nemendum en hægt er að fá áheyrnarpassa að einstökum hóptímum. Í lok námskeiðsins verða haldnir tónleikar með nemendum og kennurum.
Á lokatónleikunum munu nemendur námskeiðsins leika kafla úr helstu verkum flautubókmenntanna eins og sónötum eftir J.S. Bach, Poulenc og Martinu auk annarra verka eftir frönsku meistarana Gaubert, Roussel, Ibert og Saint-Saens. Meðleikari á píanó er Anna Guðný Guðmundsdóttir og einnig munu kennarar námskeiðsins koma fram. Tónleikarnir verða um klukkustundar langir. Þeir eru öllum opnir og hefjast kl. 15.00. Aðgangseyrir er einungis 1.000 krónur.