Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 11. maí 2023.

Ársreikningur

Ársreikningur sveitarfélagsins Rangárþings eystra fyrir árið 2022 er á dagskrá fundar okkar í dag til síðari umræðu. Það er ljóst að staða sveitarfélagsins er sterk, rekstrarniðurstaða samantekinna reikningsskila er jákvæð um 166 m.kr. og er afkoman 119 m.kr. betri en áætlun gerði ráð fyrir. Þessu ber m.a. að þakka aukinni ásókn í búsetu í Rangárþingi eystra, öflugu atvinnulífi, mikilli uppbyggingu og ekki hvað síst öflugu starfsfólki og forstöðumönnum sveitarfélagsins. Sveitarstjórn er einhuga um að í ljósi jákvæðra niðurstöðu ársreiknings verði auknu fjármagni varið til fjárfestinga í innviðum, t.d. gatnagerð og annarri þjónustu við íbúa.

Fundur um vindorkumál

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra bauð til opins fundar um orkuskipti með áherslu á hlutverk vindorku þann 24. apríl sl. Fundurinn var haldinn í félagsheimilinu Hvoli og var mjög vel sóttur. Á fundinum var kynnt ný útkomin skýrsla starfshóps um helstu álitaefni sem ramma inn umræðuna um nýtingu vindorku á Íslandi. Rangárþing eystra ásamt fleiri sveitarfélögum hafa í gegnum árin ítrekað óskað eftir nánari umræðu um þessi mál og því er það mikið fagnaðarefni að loksins virðist það vera að raungerast. Rangárþing eystra er eitt af fáum sveitarfélögum á landinu sem hafa markað einhverja stefnu um nýtingu vindorku í sínu aðalskipulagi. Ljóst er að mikil umræða og samráð á enn eftir að eiga sér stað varðandi þessi málefni áður en skýr rammi fæst.

Menningar- og viðskiptaráðherra í Odda

Oddafélagið tók á móti Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra í Odda, þann 5. maí sl. Sveitarstjórum í Rangárvallasýslu var boðið til móttökunnar. Þar var farið yfir það helsta í starfi Oddafélagsins ásamt því að viðstaðddir fengu virkilega góðan fyrirlestur um þær fornleifarannsóknir sem eiga sér stað í Odda. Ljóst er að mikil tækifæri felast í Odda og hans merku sögu fyrir okkur Rangæinga í heild. Það verður spennandi að sjá og taka þátt í að ræða og móta framtíð þessa mikilvæga sögustaðar til framtíðar.

Menningar-, æskulýðs- og íþróttamál

Þann 1. maí var haldin Æskulýðssýning hestamannafélagsins Geysis. Sýninging var haldin í Rangárhöllinni að viðstöddu margmenni og var hin glæsilegasta í alla staði. Fjöldi barna og ungmenna tóku þátt í sýningunni og voru atriði fjölbreytt, frumleg og umfram allt virkilega skemmtileg. Það er frábært að sjá hversu vel hestamannfélaginu hefur gengið að byggja upp sitt æskulýðsstarf og heiður fyrir sveitarfélagið að fá að taka þátt í því.

Eldri söngnemendur við Tónlistarskóla Rangæinga réðust ekki á garðinn þar sem hann er lægstur nýverið. Farið var af stað með uppsetningu á söngleiknum Litla Hryllingsbúðin í Hvolnum á Hvolsvelli. Óhætt er að segja íbúar hafi kunnað vel að meta það uppátæki, því það seldist upp á allara sýningar og hlaut hópurinn mikið lof fyrir. Það er virðingarvert að sjá og upplifa það sem hægt er að gera í samfélagi eins og okkar, þegar allir leggjast á eitt og taka þátt af lífi og sál. Ég vil koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra þeirra sem að sýningunum stóðu og stóru framlagi þeirra til eflingar menningarstarfs í sveitarfélaginu. Ég veit ekki með ykkur en ég get ekki beðið eftr því hvaða verk verður fyrir valinu á næsta ári.

Hvolsskóli tók að venju þátt í undankeppni Skólahreysti nú nýverið. Óhætt er að segja að liðið hafi komið séð og sigrað, því krakkarnir lögðu allt í sölurnar og stóðu uppi sem sigurvegar kvöldsins. Það er magnað að sjá þessi ungmenni okkar, það geislar af þeim hreystið, orkan og þau framkvæma hluti sem flest okkar myndum ekki láta okkur dreyma um að gera. Þann 20. maí mun svo Hvolsskóli taka þá í sjálfri úrslitakeppninni. Ég efast ekki um að lið Hvolsskóla ætli sér stóra hluti í þeirri keppni og við hin styðjum þau að sjálfsögðu alla leið. Áfram krakkar, vel gert, þið eruð til fyrirmyndar.

EKKO – Kynning

Rangárþing eystra samþykkti á síðasta ári EKKO stefnu sína. EKKO stefna er forvarna- og viðbragðsáætlun sveitarfélagsins vegna eineltis, kynbundins áreitnis, kynferðislegri áreitni og ofbeldis á vinnustöðum sveitarfélagsins. Mikill metnaður var lagður í gerð áætlunarinnar og var hún unnin af Auðnast í samvinnu við forstöðumenn sveitarfélagsins. Markmið hennar er að tryggja að úrræði séu til staðar og stuðla að forvörnum og verkferlum komi upp mál af þessum toga á vinnustöðum sveitarfélagsins. Kynningarfundir vegna stefnunnar voru haldnir nýverið fyrir starfsmenn sveitarfélagsins. Fundirnir voru virkilega vel sóttir og voru bæði fróðlegir og gagnlegir. Það er nauðsynlegt fyrir okkur öll að þekkja einkennin og þá ferla sem unnið er eftir ef slík mál koma upp. Ég hvet alla sem ekki hafa kynnt sér stefnuna að gera það, en hún er aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.

Framkvæmdir í gangi

Líkt og áður hefur komið fram í framlögðum minnisblöðum, ganga framkvæmdir við leikskólann Ölduna ljómandi vel. Þeim áfanga verður náð nú föstudaginn 11. maí að gerð verður lokaúttekt á húsnæðinu. Samið hefur verið við verktakafyrirtækið Grjótgás um framkvæmdir og frágang á lóð leikskólans. Þær framkvæmdir munu hefjast á næstu dögum og eru áætluð verklok þann 15. ágúst. Þegar framkvæmdum verður lokið mun leikskólinn Aldan að sjálfsögðu verða vígður og öllum íbúum boðið til hátíðarhaldanna og til að kynna sér aðstæður í þessu nýja glæsilega húsi okkar.

Nú er í undirbúningi auglýsing lóða í þriðja áfanga Hallgerðartúns. Framkvæmd við gatnagerð var boðin út og alls bárust þrjú tilboð. Samþykkt var að ganga til samninga við lægstbjóðanda, Gröfuþjónustuna ehf/ Smávélar ehf um framkvæmdina. Vonast er til þess að framkvæmdir geti hafist sem fyrst, en verkinu skal að fullu lokið þann 15. september 2023.

Nú fer sumarvertíðin í áhaldahúsinu okkar að byrja. Verkefnalistinn er langur og fjölbreyttur. Fyrir liggur að unnið verði talsvert við framkvæmdir aðgengismála svo sem gangstéttar, aðgengi fyrir hreyfihamlaða og fleira. Einnig verður unnið í fjöldanum öllum af verkefnum sem snúa að snyrtingu og fegrun umhverfis.

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra