Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 12. Janúar 2023.

Nýtt ár

Í upphafi þessa minnisblaðs vil ég óska samstarfsfólki mínu hjá Rangárþingi eystra og íbúum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það liðna. Ég er fullur bjartsýni á að hið nýja ár verði sveitarfélaginu Rangárþingi eystra og íbúum þess heillavænt. Það eru mörg járn í eldinum og spennandi tímar framundan við uppbyggingu sveitarfélagsins til framtíðar.

Sorpmál

Um áramót tóku gildi breytingar á lögum um úrgangsmál sem varða samræmingu á flokkun, gjaldtöku og fleira. Sorpstöð Rangárvallasýslu var vel í stakk búin fyrir þessar breytingar og í raun talsvert langt á undan sinni samtíð með því að fyrir nokkrum árum hófst sérsöfnun á þeim 4 úrgangsflokkum sem lögin segja til um við hvert heimili. Ljóst er þó að talsverð vinna er framundan í að búa til enn frekari hvata fyrir íbúa og fyrirtæki til að standa betur að flokkun og gera verðmæti úr því sem til fellur. Einnig eru alltaf tækifæri í að bæta þjónustu við íbúa og er það okkar markmið að þjónustan sé góð og gjaldtaka í lágmarki. Sú vinna er í fullum gangi hjá stjórn Sorpstöðvar Rangárvallasýslu og verður spennandi að sjá hverju hún skilar.

Seljalandsfoss

Undanfarin ár hefur sveitarfélagið unnið að stofnun félags um rekstur aðstöðu við Seljalandsfos í samvinnu við aðra landeigendur á svæðinu. Vinnan hefur reynst mun umfangsmeiri og tímafrekari en áætlað var í upphafi. Nú er hins vegar farið að sjá til lands og vonir standa til þess að hið nýja félag geti hafið störf á næstu vikum. Fyrstu verkefni hins nýja félags er að hefja vinnu við frarmkvæmdir á svæðinu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Þar er m.a. gert ráð fyrir nýjum bílastæðum, gönguleiðum og uppbyggingu gamla bæjarins í Hamragörðum.

Hækkun útsvars – Málefni fatlaðra

Sveitarstjórn Rangárþings eystra var boðuð til aukafundar á milli jóla- og nýárs. Eini tilgangur fundarins var að samþykkja hækkun á útsvarsprósentu sveitarfélagsins. Það hljómar oft illa í eyru almennings þegar talað er um einhverjar hækkanir t.d. á útsvarsprósentu sveitarfélaga. Til áréttingar vil ég koma á framfæri að ekki er um auknar álögur á íbúa sveitarfélagsins að ræða, heldur einungis skipting á milli ríkis og sveitarfélagsins. Tilgangur hækkunarinnar er að minka taprekstur sveitarfélaga landins á undanförnum árum við þjónustu við fatlað fólk.

Snjómokstur

Eins og flestum er kunnugt hefur vertrarríki geysað í Rangárþingi eystra frá því um jól. Langur og mikill frostakafli hófst og sér ekki enn fyrir endan á honum. Einnig höfum við þurft að glíma við talsvert meiri snjó heldur en gengur og gerist undanfarin ár. Frá því á jóladag hafa starfsmenn okkar hjá Rangárþingi eystra og verktakar staðið í nánast linnulausum snjómokstri. Um er að ræða mikið og stórt svæði og fjöldann allan af vegum, stígum, bílastæðum ofl. sem unnið hefur verið að, að halda opnu eins vel og kostur er. Það hafa allir lagst á eitt og vil ég hrósa sérstaklega þeim sem unnið hafa baki brotnu við snjómokstur síðustu vikur. Einnig vil ég hrósa íbúum fyrir þolinmæði og skilning á umfangi verksins. Vissulega er alltaf eitthvað sem betur má fara og reynum við ávalt að bæta okkar þjónustu. Nú er hafin vinna við hreinsun allra helstu gönguleiða skólabarna á Hvolsvelli, en um mikið verk er að ræða þar sem þarf að keyra öllum snjónum burt úr götunum. Í þessu mikla frosti undanfarið hefur einnig mætt mikið á vatnsveitum okkar. Talsvert hefur verið um að lagnir hafi frostsprungið sem hefur þá valdið vatnsleysi eða lágum vatnsþrýstingi á nokkrum svæðum. Ljóst er að umfang þeirra frostskemmda verður ekki ljóst fyrr en það fer að þiðna að ráði, en viðbúið er að um þó nokkrar skemmdir sé að ræða.

Jólaskreytingar

Rangárþing eystra ásamt nokkrum aðilum réðust í það skemmtilega verkefni að koma upp jólaseríum á mastrið okkar hér á Hvolsvelli rétt fyrir jól. Þessi gjörningur hefur vakið talsverða athygli víða og er að flestra mati mikil bæjarprýði. Ég vil þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu skemmtilega verkefni með okkur, en þó sérstaklega Björgunarsveitinni Dagrenningu, en þeirra fólk hékk lipurlega í mastrinu í nokkra daga við að koma upp seríunum og gerðu það einstaklega vel. Vonandi er hér verkefni sem er komið til með að vera og jafnvel mætti þróa lengra á næstu árum.

Framkvæmdir í gangi

Sveitarstjórn Rangárþings eystra fór á milli jóla- og nýars í skoðunarferð um nýjan leikskóla. Fæstir höfðu gert sér grein fyrir umfangi og stærð verkefnisins og einnig hversu langt það er komið. Á næstu misserum hefst vinna við uppsetningu innréttinga og annarra innanstokksmuna. Engan bylbug var á verktöum að finna og gera þeir enn ráð fyrir að afhenda sveitarfélaginu bygginguna á tilsettum tíma, eða í byrjun maí. Í Hvolsskóla var jólafrí nemenda og kennara nýtt vel í framkvæmdum við að koma í veg fyrir raka og myglu. Gólfefni voru fjarlægð og rakaskemdir í veggjum lagfærðar og komið í veg fyrir að þær endurtækju sig. Kynningarfundur varðandi myglumál skólans, sem hugsaður var gagngert til upplýsing fyrir foreldra skólabarna var haldinn þann 11. janúar. Þar var farið yfir helstu atriði skýrslu Eflu um myglugreiningu í Hvolsskóla ásamt því að fara yfir það sem nú þegar hefur verið gert til að bregðast við og það sem framundan er. Í kjallara húsnæðis sveitarfélagsins á Austurvegi 4 hafa staðið yfir framkvæmdir við að stúka af geymslur og aðstöðu fyrir skotíþróttafélagið Skyttur. Þeirri framkvæmd er að mestu lokið og kjallarinn verður tekin formlega í notkun í næstu viku. Framkvæmdir við gatnagerð í miðbæ Hvolsvallar hafa verið í stoppi vegna vetrarveðurs síðustu vikna. Ljóst er að þær framkvæmdir munu ekki hefjast aftur fyrr en að veðurfar leyfir.

Þorrablót

Nú fer í hönd tími þorrablóta í sveitarfélaginu. Þorrablót verða haldin í öllum gömlu hreppum sveitarfélagsins. Líklegt er að íbúar komi til með að fjölmenna á þær skemmtanir eftir skemmtanabann undanfarinna tveggja ára. Það eru skemmtilegir tímar framundan, munum að njóta og göngum hægt um gleðinnar dyr.

 

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra