- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 14. desember 2023.
Áfram halda annasamir tímar í stjórnsýslunni og sveitarfélaginu öllu. Það er ýmislegt sem er á döfinni og þarfnast afgreiðslu fyrir áramót og byrjað er að leggja drög að plönum fyrir næsta ár sem nálgast óðfluga.
Fjárhagsáætlun Rangárþings eystra 2024-2027
Fjárhagsáætlun Rangárþings eystra 2024-2027 er hér á dagskrá fundar í dag til síðari umræðu. Mikil og góð vinna hefur verið lögð í áætlunina á undanförnum vikum af sveitarstjórnarmönnum, fjármálastjóra og forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins. Eins og lagt var upp með var byrjað fyrr en vanalega að vinna að áætluninni og hefur það gefist vel og vonandi skilar sér í vandaðri áætlanagerð. Það er að mörgu að hyggja við gerð slíkrar áætlunar og margir þættir sem þurfa að ganga upp svo vel takist til. Ég vil koma á framfæri kærum þökkum til allra sem lagt hafa hönd á plóginn, þið eigið stórt hrós skilið. Áætlunin lítur vel út, sveitarfélagið stöndugt og vel í stakk búið fyrir þá uppbyggingu sem framundan er. Nánar mun ég fjalla um fjárhagsáætlun Rangárþings eystra síðar á þessum fundi þar sem hún verður borin upp til samþykktar.
Fundur með Veitum
Undirritaður ásamt skipulags- og byggingarfulltrúa áttu góðan fund með Veitum í liðnum mánuði. Farið var yfir stöðuna á heitavatnsöflun og flutningi í sveitarfélaginu. Einnig voru rædd framtíðaráform sveitarfélagsins varðandi uppbyggingu og vilja Veitur vera sem best upplýst til að geta undirbúið sínar framkvæmdir. Heitavatnsöflun á Laugarlandi og Kaldárholti gengur vel og ekki er búist við mikilli röskun á afhendingu heits vatns þennan veturinn. Verið er að kanna möguleikann á því að koma fyrir rafmagnskötlum í húsnæði veitna á Hvolsvelli sem myndu nýtast við að skerpa á hitastigi vatnsins sem hingað er flutt, með það að markmiði að draga úr notkun. Á fundinum kom einnig fram að Veitur lýstu yfir áhuga á því að kanna í samstarfi við sveitarfélagið með frekari heitavatnsleit í nágrenni Hvolsvallar. Þó nokkrar rannsóknarholur eru víðsvegar í sveitarfélaginu en til þess að fá sem gleggsta mynd af mögulegri heitavatnsöflun er nauðsynlegt að ráðast í frekari rannsóknir.
Sorpstöð Suðurlands
Stjórn Sorpstöðvar Suðurlands, þar sem undirritaður fer með formennsku héldu stjórnarfund sinn í ráðhúsi Rangárþings eystra í síðasta mánuði. Helstu verkefni sem framundan eru hjá stjórn eru að finna farveg til aukinnar fræðslu um flokkun, endurnýtingu og endurnotkun fyrir aðildarsveitarfélögin. Einnig er eitt af áhersluverkefnum stjórnar að finna farveg fyrir úrgang úr fituskiljum á starfssvæðinu. Stjórnin fór í vettvangsheimsókn á Strönd þar sem framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Rangárvallasýslu tók á móti hópnum og kynnti þá starfsemi sem þar á sér stað. Óhætt er að segja að stjórn var virkilega hrifin af þeirri starfsemi og framtíðarsýn sem sveitarfélög í Rangárvallasýslu standa fyrir. Enda gengur starfsemin á Strönd einkar vel sem t.d. sést með því að ekki var nauðsynlegt að hækka gjaldskrár sorphirðu- og sorpeyðingargjalds hjá aðildarsveitarfélögum. Í þessum málum stöndum við Rangæingar okkur vel og eru mörg önnur sveitarfélög sem líta til okkar með lausnir, þar sem á mörgum stöðum hefur þurft að ráðast í umtalsverðar gjaldskrárhækkanir til að bregðast við auknum kostnaði.
Samkomulag vegna uppbyggingar miðbæjarkjarna á Hvolsvelli
Þann 16. nóvember var skrifað undir samkomulag milli Rangárþings eystra og VHT ehf. um uppbyggingu miðbæjarkjarna á Hvolsvelli. Framkvæmdum verður áfangaskipt í fimma áfanga og um er að ræða bæði íbúðir og verslunar- og þjónusturými. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fljótlega á næsta ári og að fyrsta áfanga verði lokið fyrir 1. mars 2025. Stefnt er að því að fimmti og síðasti áfangi verði fullkláraður eigi síðar en 1. júní 2027. Um að ræða virkilega spennandi verkefni sem gaman verður að fylgjast með rísa á næstu árum.
Jólaljósin tendruð á miðbæjartúni
Jólaljósin í Rangárþingi eystra voru tendruð að venju við hátíðlega athöfn á miðbæjartúninu á Hvolsvelli. Þessi athöfn er orðinn fastur liður í undirbúningi jólanna fyrir marga og ánægjulegt að sjá hvað þátttaka er góð og fólk nýtur samverunnar. Mig langar einnig að minnast á hversu aðdáunarvert það er hvað íbúar hafa verið duglegir að skreyta hjá sé með jólaljósum nú í aðdraganda jólanna, alveg til fyrirmyndar og lýsir upp hjá okkur svartasta skammdegið. Það er tilvalið fyrir fjölskylduna að fá sér góðan göngutúr, já eða bíltúr um þorpið og drekka í sig birtuna og gleðina sem skreytingarnar veita.
VISS í Örkina
Nú standa yfir endurbætur á Örkinni sem kemur til með að hýsa starfsemi VISS fljótlega eftir áramót. Verið er að bæta aðgengismál m.t.t. aðgengis fyrir alla, skipta um gólfefni á hluta húsnæðis auk annarra smávægilegra viðhaldsverkefni. Það verður gríðarlegt framfaraskref fyrir VISS vinnustaðinn okkar að komast í nýtt húsnæði þar sem hægt verður að þróa þá starfsemi áfram með bættri vinnuaðstöðu og tækifærum til að taka að sér fleiri og umfangsmeiri verkefni. Þangað til Örkin verður klár er starfsemi VISS þó í fullum gangi á Kirkjuhvoli og hvet ég íbúa til þess að kíkja þangað ef einhverjum vantar góða gjöf fyrir jólin.
Samráðsfundur með Vegagerðinni
Undirritaður ásamt skipulags- og byggingarfulltrúa áttu fínan fund með Vegagerðinni fyrir skömmu. Um er að ræða svo kallaða samráðsfundi sem haldnir eru að hausti og vori. Á fundunum er farið yfir helstu mál er snúa að vegagerð og örðum málum er tengjast vegakerfinu okkar hér í Rangárþingi eystra. Ánægjulegt er að segja frá því að líklegt er að framkvæmdum við að setja bundið slitlag á Dímonarveg verður líklega flýtt um eitt ár og verður væntanlega farið í þær næsta sumar. Að sama skapi munu þá framkvæmdir við að koma á bundnu slitlagi milli Gunnarshólma og Njálsbúðar færast fram um eitt ár og verða því á áætlun 2025. Fleiri vegamál voru einnig til umræðu t.d. þjóðvegur 1 í gegnum Hvolsvöll, umferðaröryggismál, þverun reiðvega ofl.
Menningar- og listalíf
Það hefur verið mikið að gera í menningar- og listalífi innan sveitarfélagsins á undanförnum misserum. Má þar meðal annars nefna leiksýninguna „Maður í mislitum sokkum“ sem sett var upp af leikfélagi Austur-Eyfellinga, Jólatónleikar barnakórs Hvolsskóla, nemendatónleikar Tónlistarskóla Rangæinga, Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands ásamt kórum úr sýslunni, aðventuhátíðir og messur í kirkjum sýslunnar og svo lengi mætti telja. Þetta er algjörlega ómetanlegt, flestir viðburðir skipulagðir og framkvæmdir af íbúum í sjálfboðavinnu sem leggja allt sitt í að auðga menningarlíf sveitarfélagsins okkur öllum til mikillar gleði og ánægju. Hafið kærar þakkir fyrir.
Endurskoðun laga um almannavarnir
Nokkrir fundir hafa verið haldnir að undanförnu í tengslum við endurskoðun á lögum um almannavarnir. Farið hefur yfir það sem hefur gengið vel í núverandi umhverfi almannavarnarlaga og hvað það er sem helst má bæta. Það er okkur í Rangárþingi eystra mikilvægt að almannavörnum séu gerð góð skil enda búum við á svæði þar sem við þurfum að vera vel í stakk búin til þess að bregðast við hinni ýmsu náttúruvá t.d. flóðum, eldgosum og jarðskjálftum. Við höfum upplifað margt í gegnum tíðina, en eitt er víst að náttúran er alltaf að koma okkur á óvart og því er það á okkar ábyrgð að vera eins vel undirbúin og kostur er.
Barna- og ungmennaþing Rangárþings eystra
Ungmennaráð Rangárþings eystra stóð fyrir barna- og ungmennaþingi í Hvolsskóla þann 25. nóvember. Þingið tókst með eindæmum vel og var mjög vel sótt af börnum og ungmennum í sveitarfélaginu. Ég vil koma á framfæri sérstökum þökkum til Ungmennaráðs og annarra sem tóku þátt í þinginu fyrir þeirra framlag. Það er mikilvægt fyrir okkur og hlusta vel og vandlega á það sem unga fólkið okkar hefur fram að færa og það verður gaman að fá í framhaldinu að vinna úr niðurstöðum þingsins.
Mjólkurkvóti í Rangárþingi eystra
Landbúnaður og ferðaþjónusta eru stærstu atvinnuvegir í Rangárþingi eystra. Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt undanfarin ár og miðað við fjölda skipulagsmála er snúa að uppbyggingu ferðaþjónustu virðist ekki verða mikið lát á því á næstu árum. Í landbúnaði í Rangárþingi eystra eru einnig gríðarleg tækifæri til framtíðar litið. Gott ræktarland til matvælaframleiðslu er held ég að öðrum ólöstuðum hvergi meira en hér í okkar sveitarfélagi. Það kom mér skemmtilega á óvart við lestur Bændablaðsins í lok nóvember að hæsta hlutfall mjólkurkvóta miðað við sveitarfélög á Íslandi er í Rangárþingi eystra, eða 10,32% af heildinni. Miðað við alla þá landkosti sem við búum yfir, dugnaði og elju okkar bænda eru gríðarleg tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar í greininni. En til þess að svo megi verða þurfum við að standa þétt við bakið á okkar bændum og beita okkur fyrir því að innlend matvælaframleiðsla geti áfram vaxið og dafnað.
Að lokum
Líkt og áður er í þessu minnisblaði stiklað á stóru um verkefni og viðburði síðustu vikna og af nægu að taka. Ég vil þakka sveitarstjórn og öðrum samstarfsmönnum mínum hjá Rangárþingi eystra fyrir frábært samstarf á árinu sem er að líða og hlakka til allra þeirra verkefna sem bíða okkar á komandi ári. F.h. sveitarstjórnar óska ég öllum íbúum Rangárþings eystra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Anton Kári Halldórsson
Sveitarstjóri Rangárþings eystra