Nú liggur niðurstaða endurskoðaðs ársreiknings fyrir og er ljóst að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins byggir á traustum grunni og er sterk.

Heildarvelta sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta 2023 nemur 3.195 m.kr. og er 265 m.kr. yfir áætlun. Samtals eru rekstrartekjur A hluta 2.989 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 2.731 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um 243 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 23 m.kr. Rekstrarniðurstaða samantekinna reikningsskila sveitarfélagsins er jákvæð um 288 m. kr. og er afkoman 247 m. kr. betri en áætlun gerði ráð fyrir.

Í rekstri sveitarfélaga er sérstaklega mikilvægt að skila jákvæðri rekstarniðurstöðu á A-hluta, til að tryggja fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélagsins. Hefur það verið eitt af markmiðum núverandi sveitarstjórnar að svo sé og má segja að á árinu 2023 hafi það svo sannarlega tekist.

Tekjur ársins voru töluvert yfir áætlun, þá einkum og sér í lagi tekjur úr jöfnunarsjóði sem voru nær 200 milljónum yfir upphaflegri áætlun. Tekjuaukning ársins ásamt því að útgjöld sveitarfélagsins voru að mestu leyti í samræmi við áætlun ársins skilar því að rekstrarhagnaður sveitarfélagsins er töluvert umfram væntingar. Helsta áskorun sveitarfélagsins árið 2023 var að standa undir gríðarmiklum fjárfestingum við byggingu nýs og glæsilegs leikskóla sem tekinn var í notkun á árinu. Það er mikið gleðiefni að sveitarfélagið skuli hafa náði að fjármagna hluta fjárfestinga ársins 2023 með eigin fé en áætlanir gerðu ráð fyrir að nær öll fjárfesting ársins væri fjármögnuð með lántöku. Ný lántaka ársins 2023 hljóðaði upp á 327 milljónir króna, auk þess sem skammtímalán að upphæð 150 milljónir var tekið á haustdögum. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir lántöku allt að 577 milljónum króna. Nú þegar hefur sveitarfélagið greitt upp skammtímalánið og því mjög ánægjulegt að niðurstaða ársins hljóði upp á 250 milljón króna lægri lántöku en upphaflega var áætlað.

Það er ljóst að uppbygging sveitarfélagsins er ekki sjálfbær til lengri tíma nema að reksturinn skili nægjanlegu handbæru fé til afborgana lána og uppbyggingu á innviðum og nýfjárfestingum. Í ár tókst það og er það markmið sveitarstjórnar að reksturinn sé með þeim hætti að hægt sé að halda þeirri vegferð áfram. Á niðurstöðum ársreiknings okkar má sjá að rekstur sveitarfélagsins er í góðu jafnvægi og getum við horft björtum augum til framtíðar.

Að lokum vil ég koma á framfæri kærum þökkum til sveitarstjórnar, starfsmanna sveitarfélagsins og endurskoðenda.

F.h. sveitarstjórnar Rangárþings eystra

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri