- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Landgræðsluverðlaunin 2021 voru afhent á dögunum en þau eru afhent einstaklingum, félagasamtökum og sveitarfélögum sem hafa þótt sýna góðan árangur við landgræðslu og landbætur og voru fyrst afhent 1990.
Bændur á Stóru-Mörk III eru verðlaunahafar Landgræðsluverðlaunanna 2021 í ár.
Í umsögninni á heimasíðu Landgræðslunnar segir:
Bændur Stóru-Mörk III, sannir landgræðslubændur
Bændur í Stóru-Mörk III undir Vestur-Eyjafjöllum og bændur á Merkurbæjunum voru afar afkastamiklir á árunum eftir Þjóðargjöfina við að græða upp víðfeðm rofabörð á jörðum sínum í samstarfi við Landgræðsluna og Merkurbændur þar jafnan fremstir í flokki. Þeir beittu sér einnig fyrir gerð varnargarða við Markarfljót en það hafði um margra áratuga skeið brotið land jarðanna í Mörk.
Þeir tóku virkan þátt í samningaferlinu um beitarfriðun Almenninga, sem hófst 1985 og lauk 1990 með samningi við Landgræðsluna. Þar með var allt Þórsmerkursvæðið beitarfriðað. Merkurbændur hvöttu einnig sveitarstjórn til að leggja framlag á móti Landgræðslunni vegna uppgræðslu og gróðurbóta á þessum afréttum. Framlagið sýndi vel áhuga heimafólks á vernd og endurheimt landkosta og gerði það m.a. Landgræðslunni kleift að beitarfriða allt Þórsmerkursvæðið með því að girða á landi þeirra úr Jökulsárlóni og í Markarfljót.
Bændur í Stóru-Mörk III voru einnig í framvarðasveit Merkurbænda sem í kjölfar öskufalls úr Eyjafjallajökli árið 2010 hófu uppgræðslu í samstarfi við Landgræðsluna á jökuláraurum í Merkurnesi og allt inn að Gígjökli. Uppgræðslan batt gjóskuna og kom þar með í veg fyrir að askan bærist yfir byggðirnar beggja megin við Markarfljótið. Bændurnir á Merkurbæjunum, í samstarfi við Landgræðsluna, girtu varnargirðingu í heimalandi þeirra úr Markarfljóti og upp í fjalllendið til að friða þessar uppgræðslur fyrir beit og gera þær öflugri til að takast á við næsta öskufall og náttúruhamfarir. Nú er víði- og birkigróður að nema þarna land sem gerir viðnámsþrótt landsins enn öflugri.
Rangárþing eystra óskar bændum í Stóru-Mörk III til hamingju með verðlaunin.