- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Dagana 17. – 19. apríl voru þemadagar í Hvolsskóla. Viðfangsefni nemenda í 7. – 9. bekk sneru að réttindum barna. Nemendur 10. bekkjar voru vítt og breitt í starfskynningum þessa dagana og voru því ekki í húsi.
Nemendum var skipt upp í hópa og fengu allir hóparnir fræðslu um verkefnið Barnvænt sveitarfélag ásamt kynningu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Til viðbótar unnu nemendur skemmtileg og fjölbreytt verkefni um réttindi barna.
Miðvikudaginn 19. apríl komu góðir gestir frá UNICEF á Íslandi. En það voru þau Hanna Borg Jónsdóttir, sérfræðingur í innleiðingu Barnasáttmálans og Gunnar Jarl Jónsson, sérfræðingur í þátttöku barna, sem komu og fræddu nemendur enn frekar um réttindi barna og lögðu áhugavert verkefni fyrir nemendur. Hópnum var skipt í 9 hópa þar sem verkefni hvers hóps fyrir sig var að skapa sinn eigin drauma réttindabæ. Markiðið var að tengja eins mörg réttindi úr Barnasáttmálanum við draumabæinn eins og þau mögulega gátu.
Hér má sjá myndir af draumabæjum nemenda.
Þetta voru afar vel heppnaðir þemadagar og verið er að vinna í kynningaráætlunum um réttindi barna fyrir yngri börn í sveitarfélaginu.
F.h. verkefnastjórnar um Barnvænt sveitarfélag
Gyða Björgvinsdóttir
Verkefnastjóri