Sveitarstjórn Rangárþings eystra

Fundargerð

219. fundur sveitarstjórnar Rangárþings eystra haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Hlíðarvegi 16, Hvolsvelli, fimmtudaginn 12. janúar kl. 12:00.
Mætt:   Ísólfur Gylfi Pálmason, Benedikt Benediktsson, Þórir Már Ólafsson,  Guðmundur Viðarsson, varamaður Kristínar Þórðardóttur, Birkir A. Tómasson, Christiane L. Bahner og Lilja Einarsdóttir, oddviti sem setti fundinn og stjórnaði honum. 
Fundargerð ritaði Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi. 

Oddviti bauð fundarmenn velkomna um leið og hann leitaði eftir athugasemdum við fundarboðið. Oddviti biður um að bæta tveimur atriðum á dagskrá, annars vegar fundargerð samgöngu- og umferðarnefndar og hins vegar umsókn í Ísland ljóstengt 2017.

Gengið var til formlegrar dagskrár:

Erindi til sveitarstjórnar:
Sveitarstjóri leggur fram minnispunkta og fer yfir þá.
1.1612030 159. fundur Byggðarráðs Rangárþings eystra 29.12.16. 
Samþykkt samhljóða.
2.1701005 Samningur við Orkuveitu Reykjavíkur. 
Samningur samþykktur samhljóða.
3.1509035 Viðauki við leigusamning um leigu á Austurvegi 4.
Samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna áfram að málinu.
4.1701006 Afstaða til þátttöku í viðræðum um sameiningu sveitarfélaga á Þjórsársvæðinu.
Samþykkt samhljóða að sveitarstjóri og oddviti taki áfram þátt í viðræðum.
5.1701007 Reglur um sérstakan húsaleigusamning og sérstakan húsnæðisstuðning.
Samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.
6.1701008 Þátttaka sveitarfélagsins í rannsóknarverkefninu Fjölþætt heilsurækt í Rangárþingi eystra – Leið að farsælli öldrun.
Samþykkt samhljóða að fara í verkefnið.
7.1701009 Ljósleiðari: minnisblað vegna eignaraðildar sveitarfélaga eða annarra.

Svar við minnisblaði sveitarstjóra lögðu fram á sveitarstjórnarfundi 12. janúar 2017
Í tilefni af framlögðu minnisblaði og samantekt vegna 1. áfanga ljósleiðaravæðingar viljum við halda eftirfarandi til haga:
-Vitnað er í samantekt í fundargögnum til tölvupósts sem endar á þeim orðum að sveitarstjóri trúi því og treysti að sveitarstjórn geti gengið í takt  við verkefnið. Tölvupóstur þessi var sendur þann 6.apríl 2016 þar sem upplýst var um að send hefði verið umsókn í Fjarskiptasjóð. Heildarkostnaðaráætlun verkefnisins hljóðaði upp á 83,5 milljónir. Sveitarstjóri vissi að fulltrúar D-lista  a.m.k. voru mjög áfram um ljósleiðaravæðingu dreifbýlisins og hafa viljað veg þess verkefnis sem mestan enda þeirra stærsta stefnumál fyrir kosningar vorið 2014. Því var honum óhætt að trúa og treysta á stuðning þeirra við verkefnið. 
-Í umsókn til Fjarskiptasjóðs var gert ráð fyrir að fjarskiptafélag tæki þátt í uppbyggingu kerfis með fjárframlagi. Umsóknin var send inn 5. apríl 2016 en lögð fyrir sveitarstjórnarfund þann 14. s.m. og send sveitarstjórnarfulltrúum með fundargögnum fyrir þann fund. Fulltrúar D- og L-lista sáu umsóknina fyrst þá. Einstök atriði umsóknar, t.a.m. þátttaka fjarskiptafélags í kostnaði við verkefnið hafði áður ekki verið rætt í sveitastjórn, en hraðinn var mikill og tímafrestir skammir. Þann 12. apríl bárust sveitarstjórnarmönnum upplýsingar um að styrkur úr Fjarskiptasjóði stæði tíl boða og var gefinn frestur til 15. s.m. hvort til stæði að þiggja styrkinn. Vitanlega var sveitarstjórn einhuga um að þiggja styrkinn. Við fulltrúar D- og L-listans stóðum hins vegar í þeirri trú um að tekin yrði heildstæð umræða um málið og ákvarðanataka byggð á samanburði valkosta, kostum og göllum í beinu framhaldi. 
-Í júlí 2016 ákvað sveitarstjóri að bjóða út uppbyggingu og rekstur ljósleiðarakerfis, þar sem gert var ráð fyrir að verkkaupi yrði eigandi innviða. Engin umræða hafði farið fram í sveitarstjórn. Sveitarstjóri sýnist hafa ákveðið því upp á sitt eindæmi að bjóða út verkefni þar sem kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 83.500.000. Það er okkar mat, að til þess hafi hann ekki haft umboð sveitarstjórnar. Þetta var í sumarleyfi sveitarstjórnar – nánar tiltekið áttu þessir atburðir sér stað í júlí og ágúst og sveitarstjórnarmenn margir hverjir að heiman eða í fríi frá störfum. Þegar sveitarstjóri vísar til tímapressu í málinu þá skýtur það skökku við að nauðsynleg umræða um málið virðist ekki hafa þurft að fara fram frá miðjum apríl til miðs júlímánaðar. 
-Fulltrúar D-og L-lista kölluðu eftir umræðu um málið í síðari hluta ágústmánaðar (en sumarleyfi sveitarstjórnar varði til 8. september). Oddviti óttaðist að af hugrenningum fulltrúa D-lista um umræður um málið myndi málið tefjast ef sveitarstjórn færi að skoða “nýjar leiðir” í þessu sambandi – en hvort það væri æskilegt yrði hver og einn að gera upp við sig, eins og oddviti orðaði það í tölvuskeyti sínu dags. 19. ágúst 2016.
Þrátt fyrir þessar efasemdir um gagnsemi frekari upplýsingaöflunar og umræðu var blásið til fundar með sveitarstjórum Rangárþings ytra og Ásahrepps, nágrannasveitarfélaga okkar sem ýmist höfðu nýlokið uppbyggingu ljósleiðarakerfis eða voru í upphafi ljósleiðaravæðingar. Á þessum fundi, sem haldinn var 31. ágúst 2016 vakti það athygli okkar fulltrúa minnihlutans að sveitarfélög þessi töldu hag íbúa sinna betur borgið með þeirri stefnu að sveitarfélagið ætti sjálft innviðina og ræki kerfið. Vakti það raunar undrun okkar að ekki hafði áður verið leitað uplýsinga hjá okkar næstu nágrönnum um málið, enda væru þau rétt á undan okkur í þessu flókna ferli. 
-Í kjölfarið könnuðu fulltrúar D-og L-lista lánakjör hjá Lánasjóði sveitarfélaga og töldu ljóst að notendagjöld gætu staðið undir afborgunum og fjármagnskostnaði af láni sem tekið yrði til 18 ára. Miðuðust útreikningar og fjármögnun við að allt sveitarfélagið væri undir. 
-Íbúafundur á Heimalandi var haldinn 12. október s.l. þar sem markmiðið var að kanna hug íbúa til verkefnisins og það hverjir væru tilbúnir að skuldbinda sig til þátttöku í verkefninu með greiðslu tengigjalda. Á þeim fundi var sveitarstjóri sérstaklega spurður um afstöðu sína til eignarhalds á kerfinu, og kvaðst hann hafa í upphafi verkefnis þessa haft þá skoðun að sveitarfélagið ætti ekki að eiga kerfið en nú (á fundinum) væri hann kominn á þá skoðun að rétt væri að sveitarfélagið ætti kerfið. Með það fóru fundarmenn heim. 
-Minnisblað dags. 30. nóvember s.l. um réttarstöðu sveitarfélagsins gagnvart Mílu kveður á um hugsanlega og líklega bótaskyldu sveitarfélagsins vilji sveitarstjórn ekki ganga að tilboði Mílu á grundvelli útboðsins þrátt fyrir yfirlýsingu sveitarstjórans í tölvupósti á aðra lund þar sem telja má að loforð hafi komist á og þar með samningssamband.
-Á upplýsingafundi sveitarstjórnar með ráðgjöfum ásamt fulltrúum tveggja málefnanefnda sveitarfélagsins þann 28. desember s.l. þar sem mættur var forstjóri Mílu, inntu fulltrúar D-lista hann eftir afstöðu sinni til annarra útfærslu á samvinnu sveitarfélagsins og Mílu heldur en með þeim formerkjum sem sveitarstjóri lagði upp með í útboði sumarsins. Kvaðst hann vilja eiga í sem bestum samskiptum við sveitarfélagið og að ýmsir fletir á málinu væru óræddir. Það er mat okkar, að ekki hafi verið fullreynt af hálfu sveitarstjóra að leita viðræðna við Mílu hvort hægt sé að leita sátta í málinu. Ljóst er að Míla á mikla innviði í sveitarfélaginu sem fyrirtækið vill koma í verð og/eða notkun og gætu samlegðaráhrif við áframhaldandi ljósleiðaravæðingu verið nokkur.
Í mikilvægu hagsmunamáli af þessu tagi er nauðsynlegt að fram fari umræða og mat á helstu kostum sem í boði eru. Að okkar mati hefur svo ekki verið í þessu máli heldur hefur sveitarstjóri tekið óyfirvegaðar skyndiákvarðanir án formlegra  ákvarðana sveitarstjórnar. Þegar fyrir liggur að þær ákvarðanir orka tvímælis fyrir hag íbúa og kunna að leiða til skaðabótaskyldu hlýtur sveitarstjóri að bera ábyrgð á þeim.

Hvolsvelli, 12.janúar
Birkir Tómasson
Guðmundur Viðarsson
Christiane L. Bahner

Viðbrögð við svörum fulltrúa L- og D- lista
Rétt er að geta þess að allir fulltrúar í sveitarstjórn fengu afrit af umsókn og ítarlega greinargerð senda þann 6. apríl 2016, þrátt fyrir að vilja ekki kannast við að hafa verið meðvituð um þá leið sem fyrirhugað var að fara varðandi eignarhald á ljósleiðara í þessum 1. hluta ljósleiðaravæðingar í Rangárþingi eystra. 
Ekki má gleyma því að tækifærið til að sækja um styrk opnaðist mjög snögglega og svigrúm til að sækja um aðeins örfáir dagar, og rann umsóknarfrestur út þann 6. apríl 2016 og mikið kapphlaup að ná að senda inn umsókn, enda gafst mjög mörgum sveitarfélögum ekki svigrúm til að sækja um á þeim tíma. Við megum gleðjast yfir að hafa fengið styrk til verkefnisins.
Í umræddri umsókn og greinargerð kemur skýrt fram að eignarhald og rekstur sé í höndum fjarskiptafélags.  Sveitarstjóra ásamt skipulagsfulltrúa fannst því eðlilegasti hlutur að bjóða verkið út og vinna áfram eins og gert hafði verið ráð fyrir í umsókn, samþykktri samhljóða af sveitarstjórn, án athugasemda, þann 14. apríl 2016.
Hafi fulltrúum L-og D-lista þótt ástæða til að funda vegna málsins á sumarleyfistíma sveitarstjórnar er eðlilegt undir þeim kringumstæðum að óska eftir fundi. 
Vegna eftirá kominna vangaveltna ýmissa aðila, hefur verið  kannað hvort möguleiki sé á að losna undan samningi við Mílu, en við það gæti skapast skaðabótaskylda með ófyrirsjánalegum afleiðingum fyrir íbúa sveitarfélagsins bæði hvað varðar tíma og peninga.  Því þykir fulltrúum meirihluta sú leið ófær og vinnur því áfram útfrá upphaflegri hugmynd. 
Auk þess hefur samgöngu og umferðarnefnd fundað sérstaklega um mögulegt eignarhald og rekstur á ljósleiðara í Rangárþingi eystra ( sbr. Fundargerð 10. jan 2017 ) og eru allir nefndarmenn minni og meirhluta einróma í áliti sínu til sveitarstjórnar um að eignarhaldi og rekstri sé best komið í höndum fjarskiptafélags. „ Samdóma álit samgöngunefndar er að eðlilegt sé að ganga til samninga við Mílu um að eiga og reka ljósleiðarakerfið undir Eyjafjöllum eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Álit nefndarinnar er að unnið verði áfram að ljósleiðaravæðingu dreifbýlis í Rangárþingi eystra með sambærilegum hætti og gert er ráð fyrir í Eyjafjallahluta verkefninsins.“

Þórir Már Ólafsson
Lilja Einarsdóttir
Ísólfur Gylfi Pálmason 
Benedikt Benediktsson

Minnispunktar staðfestir af sveitarstjórn

8.1606041 Þórólfsfellsgarður: framvinda mála eftir úrskurð Hæstaréttar.
Sveitarstjóri hefur verið í sambandi við framkvæmdaraðila vegna Hæstaréttardóms er snertir framkvæmdaleyfi er gert hefur verið athugasemd við. Einnig hefur sveitarstjóri verið í óformlegum viðræðum vegna málsins við aðra aðila er málinu tengjast.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra hvetur framkvæmdaraðila til að bregðast við dómi Hæstaréttar.
Samþykkt samhljóða.
9.1701018 Trúnaðarmál.
10.1701019 Fyrirspurn frá D-lista: endanlegur kostnaður við nýja félagsmiðstöð. Kostnaðartölur lagðar fram, kr. 25.650.328 og staðfestar.
11.1701022 Ósk UBH að Rangárþing eystra taki við eignarhaldi á aðstöðuhúsi við íþróttavöll. 
Sveitarstjóra falið að ræða við forsvarsmenn UBH.
12.1701021 Framtíð Sögusetursins. 
Sveitarstjórn samþykkir að efna til ráðstefnu um framtíð Sögusetursins nú á 20 ára tímamótum.
13.Ályktun v/Heilsugæslu í Rangárvallasýslu.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra lýsir yfir áhyggjum sínum varðandi Heilsugæslu í Rangárþingi. 
Nú er ljóst að læknir með áratugareynslu og sérmenntun í heimilslækningum hefur sagt starfi sínu lausu við Heilsugæslu Rangárþings, en hann var í 75% starfshlutfalli sem ekki fékkst aukið.  Það er áhyggjuefni þar sem erfitt gæti reynst að fá lækni til starfa í ekki hærra starfshlutfall, þar sem erfiðlega hefur gengið að manna stöður heimilislækna á landsbyggðinni eins og forstöðumenn Hsu hafa m.a. upplýst um. 
Öflug heilsugæsla er hornsteinn í hverju samfélagi og mikilvægt að henni sé sinnt eins og lög gera ráð fyrir, enda á heilsugæsla að vera fyrsti viðkomustaður einstaklinga innan heilbrigðiskerfisins.  Sveitarstjórn Rangárþings eystra minnir einnig á ákvæði í sameiginlegri yfirlýsingu sveitarstjórna í Rangárþingi og forstjóra Hsu frá 1. febrúar 2016 um mikilvægi samráðs og upplýsinga til sveitarstjórna á mönnun og þjónustu starfsstöðvanna og bætta kynningu á aðgengi íbúanna að þjónustunni.
Samþykkt samhljóða
14.Heimsókn: Ástvaldur Óskarsson. Kynning á hugmyndum.
15.Umsókn: Ísland Ljóstengt 2017. Samþykkt samhljóða.

Fundargerðir:
1.1701010 11. fundur jafnréttisnefndar Rangárþings eystra 27.12.16. Staðfest.
2.1701011 Stjórnarfundur Héraðsbókasafns Rangæinga 26.11.15. Staðfest.
3.1701012 Stjórnarfundur Héraðsbókasafns Rangæinga 23.06.16. Staðfest.
4.1701013 Stjórnarfundur Héraðsbókasafns Rangæinga 27.12.16. Staðfest.
5.1701014 4. fundur Minjaráðs Suðurlands 7.12.16. Staðfest.
6.1701021 Fundur í Fagráði Sögusetursins 9.01.17. Staðfest.
7.Samgöngu- og umferðarnefnd Rangárþings eystra 10.01.17. Staðfest.

Mál til kynningar:
1.1701015 Umhverfisstofnun: Endurgreiðsla vegna minkaveiða. Lagt fram til kynningar.
2.1701016 Umhverfisstofnun: Endurgreiðsla vegna refaveiða. Lagt fram til kynningar.
3.1611048 Tilkynning um niðurfellingu Hlíðarvegar nr. 2332, af vegaskrá. Lagt fram til kynningar.
4.1701017 Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið: Reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Lagt fram til kynningar.
5.1612025 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: staðfesting á framlengingu lokunar göngustígs á Skógaheiði, ofan Skógafoss. Lagt fram til kynningar.
6.1701020 RSK: Skilaskylda upplýsinga vegna skattframtals 2017. Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:11.

Lilja Einarsdóttir              
Ísólfur Gylfi Pálmason                                  
Þórir Már Ólafsson  
Benedikt Benediktsson   
Birkir Arnar Tómasson              
Guðmundur Viðarsson 
Christiane L. Bahner