- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Afsteypa af styttunni Afrekshugur, eftir Nínu Sæmundsson, var formlega afhjúpuð á Hvolsvelli í gær, þriðjudaginn 22. ágúst. Dagurinn var valinn sérstaklega þar sem að 22. ágúst var einmitt afmælisdagur listakonunnar.
Veðrið lék við hvern sinn fingur og fjölmenni var mætt á miðbæjartúnið til að taka þátt í viðburðinum. Friðrik Erlingsson, sem hefur borið hitann og þungan af verkefninu, setti athöfnina og stýrði henni. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ávarpaði gesti og í lok ávarpsins þá afhjúpaði hann styttuna formlega ásamt elsta árgangi leikskólans Öldunnar. Forsetinn stýrði leikskólabörnunum af mikilli fagmennsku og sameiginlega tókst þeim afar vel til við að afhjúpa Afrekshug. Eftir að búið var að draga af styttunni þá sungu leikskólabörnin, með dyggri aðstoð Öðlingana, lagið Fyrr var oft í koti kátt.
Sigurður Ingi Jóhannsson, Innviðaráðherra, flutti svo einnig ávarp þar sem hann m.a. sagði frá aðkomu ríkisstjórnarinnar að verkefninu en einnig var Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, viðstaddur athöfnina.
Friðrik Erlingsson, formaður stjórnar Afrekshuga, hélt svo ræðu þar sem hann þakkaði þeim fjölmörgu sem að verkefninu hafa komið og sagði góðar sögur úr æviágripi Nínu. Friðrik kallaði svo Anton Kára Halldórsson, sveitarstjóra Rangárþings eystra, upp til að afhenda sveitarfélaginu Rangárþingi eystra styttuna formlega til eignar. Anton Kári hélt stutta þakkarræðu fyrir hönd sveitarfélagsins þar sem m.a. kom fram hversu mikilvægt það er að gera menningarstarfi hátt undir höfði og að það sé mikill heiður fyrir sveitarfélagið að þetta frægasta verk Nínu Sæmundsson sé nú komið heim.
Nú þegar styttan er formlega komin á stöpulinn í miðbænum þá er verkefninu lokið og þeir fjármunir sem eftir stóðu var skipt bróðurlega á milli Kvenfélagsins Einingar, sem kemur þeim áfram í sín samfélagsstörf, og til Björgunarsveitarinnar Dagrenningar. Guðjón Halldór Óskarsson, gjaldkeri Afrekshuga, færði þeim Margréti Guðjónsdóttur, formanni Einingar, og Hörpu Sif Þorsteinsdóttur, formanni Dagrenningar, skjal þessu til staðfestingar.
Sönghópurinn Öðlingar, undir stjórn Guðjóns Halldórs, flutti tvö lög við athöfnina og eftir afthöfn var boðið til kaffi og meðlætis í Hvolnum sem þær Ásta D. Kristjánsdóttir og Guðrún Jónsdóttir sáu um ásamt Garðari Þorgilssyni húsverði.
Nú prýðir Afrekshugur miðbæjartúnið okkar um ókomna tíð og eins og Guðni Th. Jóhannesson, Forseti Íslands, sagði svo réttilega mun styttan væntanlega fylla marga af afrekshug, bæði unga sem og aldna.
Meðfylgjandi myndir tók Berglind Jónasdóttir.