- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Í febrúar 2023 fórum við í Rótarýklúbbi Rangæinga af stað með samfélagsverkefni til að minnast 60 ára afmælis Austurleiðar. Skipuð var nefnd innan klúbbsins en í henni eiga sæti: Sigurlín Sveinbjarnardóttir, Kjartan Þorkelsson og Finnbogi Óskar Ómarsson. Leitað var samstarfs við safnstjóra Skógasafns, Andra Guðmundsson um að gera upphafi Austurleiðar nokkur skil á samgöngusafninu og var reiknað með að verkefnið taki 2-3 ár. Var því tekið mjög vel af hálfu safnsins. Þá var sótt var um styrk í verkefnasjóð Rótarý á Íslandi og fékkst þar góður styrkur fyrir fyrsta hluta verkefnisins.
Skógasafn á fyrstu rútu Austurleiða, L 502 sem einmitt er 60 ára. Hún er mjög illa farin en safnstjórinn vill freista þess að gera hana fína að utan sem safngrip, sem mun þá prýða samgöngusafnið þegar því mikla verkefni verður lokið, vonandi sumarið 2026.
En Rótarýklúbburinn hefur strax hafist handa við að safna myndum og frásögnum frá ferðum með Austurleið, hvort heldur er áætlunarferðum eða hópferðum. Einnig eru til ýmsir munir frá þessum tíma. Við fáum til þess fleka eða spjöld í samgöngusafninu nú strax í sumar til að byrja að sýna það sem við getum fundið. Til aðstoðar við okkur höfum við fengið þekkta listakonu, grafískan hönnuð og Rangæing, Þórhildi Jónsdóttur, sem hefur oft unnið fyrir Skógasafn og jafnframt unnið auglýsingar fyrir Austurleið.
Á bæjarhátíðum á Hellu og Hvolsvelli í ágúst munum við í Rótarýklúbbi Rangæinga kynna verkefnið betur og framgang þess og verður það kynnt síðar.
Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar eru hvattir til að hafa samband við okkur, sérstaklega ef þið eigið myndir sem við getum fengið afrit af, eða lumið á skemmtilegum sögum.
Fyrir hönd nefndar um Austurleiðaverkefni, Sigurlín Sveinbjarnardóttir: netfang: sigurlinsv@simnet.is eða sími 898 2488.