- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Kæru íbúar í Rangárþingi eystra.
Þá er komið að þessu aftur og meira að segja bara í nokkuð góðu veðri þetta árið, þó það hafi nætt aðeins um okkur í dag, en tréð stendur enn.
Mig langar að byrja á því að þakka þeim kærlega fyrir sem komu að undirbúningi þessarar hátíðarstundar, starfsmönnum sveitarfélagsins, sérstaklega jólaálfunum í Áhaldahúsinu, sem hafa undanfarnar vikur unnið hörðum höndum að hinum ýmsa jólaundirbúningi.
Ég þakka Landsbankanum kærlega fyrir sína þátttöku ár eftir ár.
Guðmundu og Hauki í Norðurgarði 18 þakka ég sérstaklega fyrir afnot af þessu myndarlega jólatré. Það er frábær hefð komin á það að nýta virðulegt grenitré hér úr þéttbýlinu til að setja upp á miðbæjartúninu okkur öllum til ánægju. Eins og staðan er í dag er framboð af trjám umfram eftirspurn þannig að við ættum að vera í nokkuð góðum málum, allavega næstu árin.
En að jólunum. Þau eru yndislegur tími sem við hlökkum flest til að gangi í garð. Auðvitað er tilhlökkun fólks mis mikil og já ég þekki svo sem alveg nokkra jólagrinsa. En engu að síður þá er þessi tími sem framundan er stútfullur af alls slags ánægjulegum siðum og venjum sem við flest finnum fyrir gleði að taka þátt í.
Hefðirnar eru oft ríkar þegar kemur að jólahaldi. Þær ganga mann fram að manni og kynslóð á eftir kynslóð. Oft getur t.d. reynst snúið þegar fólk er að hefja sína sambúð að ákveða hvaða hefðum og þá hvorri fjölskyldunni eigi að fylgja. Tek sem dæmi um hvenær sé í lagi að byrja að skreyta og já hversu mikið, hvaða sortir af smákökum eigi að baka, hvar og hvenær eigi að sækja hin ýmsu jóla- og fjölskylduboð, hvenær sé við hæfi að byrja að hlusta á jólalög, hvað eigi að vera matinn á jólunum osfrv. osfrv.
Í dag held ég að við gætum flokkað þetta sem svona einskonar góðærisvandamál, ekki að ég sé að gera lítið úr þeim, því óneitanlega skiptir þetta okkur máli, þó aðallega tilfinningarlega.
Ég held að það sé hollt fyrir okkur að staldra aðeins við og hugsa um hvílík forréttindi það eru að hafa „bara“ þessi vandamál til að hugsa um. Því víða annarsstaðar er það alls ekki svo. Við þurfum t.d. ekki að fara lengra en til nágranna okkar í Evrópu, þar sem geisar stríð og fólk þar að glíma við talsvert önnur vandamál en það sem hér á undan er talið.
Þetta er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa í huga og þakka fyrir það að hér á Íslandi búum við, við öryggi og frelsi eins og best verður á kosið. Það er nefnilega ekki sjálfgefið. Við eigum að láta gott af okkur leiða og hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi. Umfram allt verum góð við hvort annað.
Að síðustu, áður en við förum í það verkefni sem við komum hér til að gera, óska ég ykkur gleðilegra jóla og megi þið hafa það sem allra best yfir hátíðirnar.