- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Á hverju ári efnir lista- og menningarráð Kópavogsbæjar til ljóðasamkeppni undir heitinu Ljóðstafur Jóns úr Vör. Í ár var það Brynjólfur Þorsteinsson frá Hvolsvelli sem hlaut Ljóðstafinn fyrir ljóð sitt Gormánuður. Alls bárust 302 ljóð í keppnina og þótti ljóð Brynjólfs "draga fram íslenskan hversdag sem birtist dularfullur og margræður, þar sem samruni náttúru og líkama myndar óljós og áhugaverð mörk milli heima" eins og dómnefndin komst að orði í umsögn sinni. (tekið af síðu rúv.is)
Brynjólfur er fæddur 1990, sonur þeirra hjóna Ástu Brynjólfsdóttur og Þorsteins Jónssonar. Myndina sem fylgir fréttinni tók einmitt Þorsteinn þegar Ljóðstafurinn var afhentur þann 21. janúar sl.
Rangárþing eystra óskar Brynjólfi til hamingju með þennan góða árangur.
Gormánuður
allir hrafnar eru gat
líka þessi sem krunkar
uppi á ljósastaur
eins og brot
í himingrárri tönn
sjóndeildarhringurinn nakin tré
skorpin vör
pírðu augun
einblíndu á fjaðursortann
það glittir í úf
allir hrafnar eru gat
og innvolsið uppdráttur að morgundegi
líka í þessum sem krunkar
uppi á ljósastaur
lestu hann
með vasahníf og opinn munn
hjartað springur
eins og ber undir tönn
bragðið er svart