- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Endurgerð kláfferjukassans yfir Markarfljót
Það var á haustmánuðum árið 1901 sem kláfferja var sett á Markarfljóti en fyrir þann tíma var fé ferjað yfir fljótið með bátum. Talið er að ráðist hafi verið í framkvæmdina meðal annars vegna þess að tveir ungir menn úr Hvolhreppi létust nokkrum árum fyrr við að ferja fé yfir Markarfljót.
Kláfurinn á Markarfljóti var endurgerður árið 1958. Árið 1978 var tekin í notkun brú á Emstruleið, neðan við kláfferjuna.
Árið 2019 voru feðgarnir Páll Björgvin Guðmundsson og Guðmundur Magnússon frá Efra-Hvoli á ferð um svæðið og tóku eftir því að kláfferjan var orðin lúin. Ákváðu þeir að endurgera kláfinn. Rangárþing eystra kom að verkefni í formi styrks við efniskaup en öll vinna var framkvæmd af þeim feðgum.
Nú er endurbótunum lokið og ætla þeir feðgar að afhenda Antoni Kára sveitarstjóra hinn nýuppgerða kláfferjukassa ásamt söguskilti sem þeir hafa útbúið, á morgun, laugardaginn 23. september kl. 16:00.
Þeir sem kost hafa á eru hjartanlega velkomnir.