- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Fréttir frá leikskólanum Örk
Nú er strembinn vetur að líða og sólin farin að hækka á lofti og gleðjast bæði börn og starfsfólk yfir því.
Eins og flestir vita höfum við starfað í tveimur bráðabirgðahúsnæðum þar til nýja leikskólabygginginn er klár. Því erum við á þremur starfsstöðvum hér á Hvolsvelli tímabundið. Það að vera í bráðabirgðahúsnæði sem er ekki hannað sem leikskólabyggingar hefur krafist útsjónarsemi starfsfólks við að skipuleggja daglegt starf og þá þarf að huga að mörgu. Í Hvolnum höfum við til afnota Pálsstofu og litla sal sem nýtist sem deildin Ævintýraland en einnig notum við kaffisenuna fyrir starfsfólk þ.e. kaffistofa og undirbúningsherbergi ásamt því að nýta sem fundarrými. Í félagsmiðstöðinni erum við með deildina Tónaland og þar er búið að breyta og bæta húsnæðið með því að setja hljóðeinangrandi parket á gólf og hólfa stóra rýmið aðeins niður til að auðveldara sé að skipta upp barnahópnum. Á leikskólasvæðinu eru svo þrjár deildar staðsettar með sameiginlegt útisvæði.
Með þessum breytingum þurftum við að hugsa upp á nýtt með útisvæði og hvað við gætum gert til að hafa eitthvað við að vera fyrir börnin úti eins og inni. Við tókum þá ákvörðun að vera ekki að bæta við mikið af leiktækjum á lóðirnar heldur nýta okkur nærsamfélagið til kennslu. Við hér í þéttbýlinu búum nefnilega svo vel að eiga flotta leikvelli víðsvegar um Hvolsvöll og ákváðum að nýta þá enn betur. Einnig bíður nærumhverfið uppá marga möguleika t.d. er stutt fyrir börnin sem eru á Tónalandi að skoða hænurnar sem eru við Hvolsskóla, sleðabrekka á Gíslhól og Silluróló eða nýji róló svo eitthvað sé nefnt. Í Hvolnum hafa börnin kíkt á tjaldsvæðið og farið í hesthúsin ásamt því að skoða fyrirtæki hér í kring. Við höfum verið að viða að okkur meiri upplýsingum um útikennslu og eru kennarar mjög áhugasamir um fjölbreytta kennslu úti.
Annað sem við sáum mjög fljótlega og munum nýta okkur við hönnun nýrrar leikskólalóðar var að þegar leiktækjunum fækkaði þá þurftu börnin að eiga samskipti sín á milli. Þau börn sem voru slök í félagsfærni gátu ekki setið í rólunni alla útiveruna og verið ein heldur þurftu þau að eiga samskipti við jafnaldra sína. Við höfum séð mikinn mun á leikfærni og samskiptafærni barnanna og þau þurfa ekki stór og mikil leiktæki til að gleyma sér í t.d. dúkkó, bíló, byssó eða öðrum leikjum og það er enginn skilinn útundan heldur fá öll börn hlutverk í þeim leik sem leikinn er hverju sinni. Aftur á móti finnst börnunum á Ævintýra og Tónalandi ekki leiðinlegt að kíkja á „gömlu“ leikskólalóðina og hafa kennarar verið duglegir að kíkja með börnin þangað þegar veður og aðstæður leyfa. Við viljum viðhalda sköpunargleði barnanna í leik og daglegu starfi leikskólans.
Við erum rík af fjölbreyttum starfsmannahópi og er hátt menntunarstig hér í leikskólanum. Það að hafa fjölbreyttan hóp starfsfólks sem lætur sér annt um kennslu og ummönun barnanna er ekki sjálfgefið og teljum við okkur mjög rík af því að hafa þennan flotta starfsmannahóp sem stendur vaktina. Starfsmenn hafa verið duglegir og lausnamiðaðir í nýjum aðstæðum og hefur útikennsla aukist heilmikið ásamt því að við erum að innleiða þróunarverkfnið okkar. Þar er unnið með sjálfræði barna ásamt því að ramma inn ýmsar stundir dagsins þannig að börnin viti hvernig stundir dagsins eru unnar. Við munum halda áfram með þessa innleiðingu næsta vetur. Sjá má afrakstur þróunarverkefnis í handbókinni um snemmtæka íhlutun í máli og læsi á heimasíðu leikskólans.
Við erum stolt af skólastarfinu og það hefur heilt yfir gengið vel þrátt fyrir covid tímana.
Sólbjört S. Gestsdóttir, leikskólastjóri.
- Þessi frétt birtist í maí útgáfu Fréttabréfs Rangárþings eystra -