- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Fornleifastofnun Íslands fékk á dögunum styrk úr Fornminjasjóði fyrir verkefnið Fornminjar á Njáluslóð. Verkefnið er samstarfsverkefni Fornleifastofnunar, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Rangárþings ytra og eystra og Ferðafélags Rangæinga. Markmið þess er að gera sögusvið Njálu aðgengilegra fyrir allan almenning og miðla upplýsingum um valda staði sem koma við sögu og þekktar fornar minjar sem þar er að finna.
Með því er verið að samtvinna menningararf sem fólginn er í ritverkum fyrri alda og í jarðföstum minjum sem saman mynda stórbrotið menningarlandslag sem hefur haft áhrif á og mótað ótalmargar kynslóðir Íslendinga. Er litið á þetta verkefni sem fyrstu skref í viðameiri þróun á kynningarefni um Njáls sögu og fjölþættri miðlun menningararfs í Rangárvallasýslu sem hægt verður að heimfæra á önnur svæði.
Þátttakendur stefna að því að láta hanna sérstakt smáforrit eða vefsíðu þar sem hægt verður að nálgast viðamiklar upplýsingar um Njáls sögu sjálfa, örnefni, sögu svæðisins, fornminjar, fræðileg álitamál og þannig mætti lengi telja. Verður efnið bæði á íslensku og ensku og mögulega fleiri tungumálum þegar fram í sækir.