Kæru íbúar Rangárþings eystra

Tíminn flýgur áfram, Þorrinn er liðinn og Góa hefur heilsað með þvílíkri veðurblíðu að elstu íbúar muna ekki annað eins.

Þessi vetur er svo sannarlega óvenjulegur að mörgu leiti, ekki bara veðurfarslega heldur hefur einnig verið lítið um mannamót, en horfir nú vonandi til betri vegar með hækkandi sól.

Nú fjölgar óðum í hópi þeirra sem hafa fengið bólusetningu gegn COVID-19 og var einkar ánægjulegt þegar íbúar og starfsfólk Kirkjuhvols gátu fagnað þeim tímamótum. Það er ljúft að að geta heimsótt íbúa þar áhyggjulaus um að ógna heilsu þeirra.

En þrátt fyrir þessa óvenjulegu tíma eru vekefnin margvísleg og gaman að sjá þau hefjast, dafna og ljúka.

Fyrst ber að nefna að nú hefur VISS, vinnu og hæfingarstöð, hafið starfsemi sína í gamla matsalnum á Kirkjuhvoli. Það er skemmst frá því að segja að viðtökurnar hafa verið stórkostlegar, nú þegar er eftirspurn eftir störfum þar gríðarleg og starfsandinn einstakur. Þar fer fram fjölbreytt starf og hafa íbúar og fyrirtæki í héraði sýnt mikinn áhuga á starfseminni og margt gott borist vinnustaðnum til að vinna úr. Ég hvet alla til að gera sér ferð í búðina hjá þeim og kaupa fallega og nytsamlega muni. Þetta er einstaklega jákvætt framfaraskref fyrir byggðarlagið. Nú þarf að leggja allt kapp á að hér rísi búsetuúrræði fyrir fatlað fólk.

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að nemendur leikskólans hafa ásamt kennurum sínum og leiðbeinendum verið óvenju mikið á ferðinni í veðurblíðunni undanfarið. Því miður urðum við fyrir því óláni að vatnstjón varð í einni byggingu Leikskólans Arkar í byrjun árs. Í kjölfarið var farið í að meta húsnæðið með tilliti til ástands og í ljós kom að ekki svarar kostnaði að fara í endurbætur svo starfsemi leikskólans geti dafnað þar við góð skilyrði. Starf leikskólans hefur því verið með frekar ævintýralegum hætti það sem af er ári, og fer fram bæði í Félagsmiðstöðinni Tvistinum og í Félagsheimilinu Hvoli. Ákvörðun hefur verið tekin um að flýta enn frekar byggingu nýja leikskólans sem þegar hafði verið settur á fjárfestingaáætlun Rangárþings eystra og er það mjög ánægjulegt. Bæði nemendur og starfsfólk hafa tekist á við þessar aðstæður af einskærri jákvæðni og samstöðu. Undirbúningur við framkvæmd nýja leikskólns er því á fullri ferð og verður spennandi að takast á við það stóra verkefni.

Endurbótum við Litla-sal og Pálsstofu í Félagsheimilinu Hvoli er nú lokið og má með sanni segja að vel hafi tekist til. Það kom því í hlut nemenda á Ævintýralandi Leikskólans Arkar að vígja aðstöðuna, enda hafa þau húsnæðið til afnota fram á sumar að minnsta kosti og fer ljómandi vel um þau þar.

Sveitarfélagið okkar vex og dafnar og við vinnum hörðum höndum að því að byggja upp innviði og nú hafa verið auglýstar til úthlutunar íbúðalóðir í nýju hverfi, Hallgerðartúni, sem og íbúðalóðir á Skógum auk lóða á Hvolsvelli fyrir iðnaðar og athafnastarsemi. Strax eru farnar að berast umsóknir og mikill áhugi fyrir nýja hverfinu.

Ég óska ykkur góðrar helgar og vona að veðurblíðan leiki við okkur áfram.

Lilja Einarsdóttir

Sveitarstjóri