- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Kæru íbúar
Þó lægðirnar hafi aðeins herjað á okkur síðustu daga og vikur þá getum við sannarlega fundið að við njótum dagsbirtunnar lengur og snjórinn lýsir enn betur upp tilveruna. Covid-19 faraldurinn fer vonandi að hopa með hækkandi sól og við getum verið bjartsýn fyrir komandi vori og sumri. Þeir sem að hafa séð um snjómokstur í sveitarfélaginu eiga hrós skilið enda verið ærið verkefni síðustu daga.
Rangárþing eystra er Heilsueflandi samfélag og frá byrjun febrúar hefur lýðheilsuverkefnið Lífshlaupið staðið yfir og þátttaka stofnanna Rangárþings eystra verið mjög góð. Sveitarfélagið er gríðarlega vel sett þegar kemur að útivistarmöguleikum og hægt að finna sér hina ýmsu afþreyingu úti, sama hvernig viðrar. Gönguskíðabrautin norðan við Hvolsvöll hefur til að mynda verið vinsæl og er nóg pláss fyrir bæði skíðagarpa og þá sem gaman hafa að því að þeysast um á vélknúnum sleðum.
Þemadögum hjá elsta stigi í Hvolsskóla lauk formlega sl. miðvikudag með opnu húsi í skólanum þar sem þemaverkefni nemenda voru kynnt. Þemað að þessu sinni var kynjafræði og unnu nemendur verkefni þvert á námsgreinar sem öll áttu það þó sameiginlegt að tengjast kynjafræði með einhverjum hætti. Það má með sanni segja enn og aftur að framtíð okkar hér í Rangárþingi eystra er björt þegar við sjáum unga fólkið okkar standa svona vel að þeim verkefnum sem þau fá í hendurnar. Anna Kristín Guðjónsdóttir, íslensku- og kynjafræðikennari hefur haldið utan um þemadaga skólans og fær hún, ásamt sínu samstarfsfólki, mikið hrós fyrir verkefnið. Þemað tengdist líka jafnréttisviku Rangárþings eystra sem nú er að ljúka. Í jafnréttisvikunni var m.a. fyrirlestur frá Samtökunum 78 og bókasafnið setti sérstaklega fram bækur er tengjast jafnréttismálum. Það er von mín að sem flestir íbúar hafi haft tækifæri til að kíkja við og kynna sér það sem í boði var.
Framundan er stórt blakmót sem haldið verður í íþróttahúsunum á Hvolsvelli og Hellu 26. og 27. febrúar. Um er að ræða 2. umferð á Íslandsmótinu í 3. og 4. deild. Áætlað er að nokkur fjöldi muni leggja leið sína í sveitarfélagið í tengslum við mótið og hvetjum við íbúa til að koma og hvetja stöllurnar í Dímon/Heklu til dáða sem eiga lið í hvorri deild fyrir sig. Það er ákaflega gaman þegar viðburðir af þessu tagi eru haldnir hér á okkar svæði og eiga aðstandendur þakkir skildar fyrir frumkvæði sitt í því að halda hér slíkt mót.
Eins og íbúar hafa orðið varir við þá hefur Pósturinn kynnt okkur að þeir hyggist loka afgreiðslu sinni á Hvolsvelli. Sveitarstjórn fékk forsvarsmenn Póstsins á sinn fund og sendi frá sér bókun í kjölfar þess á forsvarsmenn Póstsins. Einnig hafa allir þingmenn kjördæmisins fengið áskorun frá sveitarstjórn um að leggjast á árar með okkur að standa vörð um þessa þjónustu sem og störfin sem henni fylgja. Fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um málið og hefur sveitarstjóri verið í viðtölum bæði í útvarpi og á prentmiðlum í þeirri von að Pósturinn endurskoði ákvörðun sína.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar og vona að allir njóti lífsins nú þegar samkomutakmarkanir eru óðum að hverfa og tækifæri skapast til samveru í minni og stærri hópum með hækkandi sól.
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri.