- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Kæru sveitungar
Árið 2022 er gengið í garð og fer nú daginn að lengja smám saman sem er afar ánægjulegt. Ég vona að allir gangi jákvæðir og bjartsýnir inn í nýtt ár sem mun skapa okkur ný tækifæri, bæði fyrir okkur sem einstaklinga sem og samfélag.
Bæði gamla árið og jólin hafa nú verið kvödd og eiga íbúar skilið þakklæti fyrir tillitsemi og ábyrga þátttöku í þeim samkomum sem haldnar voru af því tilefni. Bæði við áramótabrennu og flugeldasýningu á Hvolsvelli á Gamlársdag og við flugeldasýningu við Seljalandsfoss á Þrettándanum var öll framkvæmd og þátttaka til mikillar fyrirmyndar.
Einnig þakka ég þeim sem að viðburðunum stóðu fyrir sitt mikilvæga framlag þar sem bregða þurfti til ýmissa breytinga sökum gildandi sóttvarnarreglna.
Við hér í Rangárþingi eystra höfum hins vegar ekki farið varhluta af uppsveiflu þeirrar Covid-19 bylgju sem nú gengur yfir og hafa tölur íbúa í sóttkví og einangrun ekki mælst hærri áður. Inná heimasíðu Heilbrigðsstofnunar Suðurlands geta íbúa fylgst með þessum tölum frá degi til dags.
Þrátt fyrir það er mikilvægt að lífið hafi sinn vanagang og sjálf getum við gert mikið með því að halda uppi persónulegum sóttvörnum með handþvotti og spritti, grímunotkun og virða gildandi sóttvarnarreglur.
Mikil áhersla af hálfu yfirvalda er nú lögð á að halda skólastarfi gangandi bæði í leik- og grunnskólum. Það hefur gengið vel í okkar sveitarfélagi, en það má þakka vel skipulögðu starfi skólastjórnenda og starfsmanna, þar sem allra leiða er leitað til að tryggja öryggi nemenda og stafsmanna með tilliti til gildandi sóttvarnarreglna hverju sinni í skólum. Öllum börnum frá 5 ára aldri og upp í 7. bekk grunnskóla hefur nú verið boðin bólusetning og er framkvæmdin komin langt á veg. Einnig hafa nemendur í 8.-10. bekk fengið bólusetningu nr. 2 sem er afar ánægjulegt.
Hér í sveitarfélaginu höfum við líkt og aðrir fengið smit inn í stofnanir, á vinnustaði, í leikskóla og grunnskóla, en fram til þessa hafa viðbrögð verið til fyrirmyndar og náðst með fádæma samheldni og skjótum viðbrögðum að koma í veg fyrir hópsmit.
Með bjartsýni í huga og von um áframhaldandi samstöðu tel ég að við getum haldið áfram á þeirri braut með öflugum persónulegum sóttvörnum og virðingu fyrir samferðafólkinu.
Með góðri kveðju
Lilja Einardóttir
Sveitarstjóri